Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1237  —  513. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um bókmenntasjóð og fleira.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Myndstefi, þýðingarsjóði, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Landskerfi bókasafna hf., Rithöfundasambandi Íslands, Bókasafnssjóði höfunda, Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna og Félagi íslenskra bókaútgefenda. Einnig barst nefndinni skýrsla um endurskoðun á stuðningi ríkisins við bókmenntir frá menntamálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að stofnaður verði bókmenntasjóður sem taki við hlutverki Bókmenntakynningarsjóðs, Menningarsjóðs og þýðingarsjóðs. Þess er vænst að með því verði stuðningur ríkisvaldsins við bókmenningu í landinu einfaldari og skilvirkari. Hins vegar eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á fyrirkomulagi greiðslna fyrir afnot á bókasöfnum, m.a. með tilliti til fyrirspurna frá Eftirlitsstofnun EFTA.
    Nefndin leggur áherslu á að með frumvarpinu er átt við bókmenntir í víðum skilningi þannig að undir ákvæði þess falla jafnt skáldverk sem vönduð fræðirit, handbækur, orðabækur og menningarsöguleg rit.
    Í lögum um Menningarsjóð var styrkveiting til útgáfu bundin því skilyrði að hið útgefna rit væri á íslensku. Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir slíku skilyrði. Nefndin lítur svo á að styrkveitingar úr sjóðnum til rita á öðrum tungum en íslensku verði þó að styðjast við sérstök og veigamikil rök, sem t.d. gætu tengst menningarstarfi meðal nýbúa eða tilteknu kynningarátaki íslenskra bókmennta erlendis.
    Nefndin telur skynsamlegt að sameina bókmenntasjóðina þrjá í einn. Þá leggur nefndin áherslu á að við ákvarðanir um úthlutun og í skipulagi sjóðsins þurfi að gæta þess hlutverks sem fyrri sjóðir höfðu hver um sig, auk þess nýmælis að styrkja útgáfu frumsaminna skáldverka. Einnig væntir nefndin þess að við næstu fjárlagagerð verði litið til hins metnaðarfulla hlutverks sem sjóðnum er ætlað að rækja skv. 2. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lagt til að höfundar bóka á erlendum málum og bóka sem þýddar hafa verið á íslensku fái greiðslur skv. 4. gr. fyrir notkun bóka þeirra á bókasöfnum. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu kom fram að sú breyting væri lögð til vegna fyrirliggjandi álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þess efnis að tungumálaskilyrði 3. gr. laga um Bókasafnssjóð höfunda, nr. 33/1997, væri í andstöðu við 4. gr. EES-samningsins þar sem bann væri lagt við hvers konar mismunun á grundvelli þjóðernis eða ríkisfangs, sbr. 1. mgr. 5. gr. tilskipunar um útláns- og leigurétt 92/100/EBE. Í umsögnum um frumvarpið sem menntamálanefnd hafa borist frá ýmsum hagsmunaaðilum er eindregið lagst gegn því að vikið sé frá skilyrði 3. gr. gildandi laga um Bókasafnssjóð höfunda, um að bók hafi verið rituð á íslensku, á þeirri forsendu að rík menningarleg rök standi til þess að viðhalda beri núverandi fyrirkomulagi sem feli í sér mikilvægan stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Þá hefur í umsögnum til menntamálanefndar verið til þess vísað að málarekstur fari nú fram á hendur Norðmönnum af hálfu ESA og á hendur Svíum, Dönum og Finnum, af hálfu framkvæmdastjórnar ESB, eins og nánar er rakið í athugasemdum með frumvarpinu, um það álitaefni hvort menningarleg rök heimili að vikið sé frá meginreglu EB- og EES-réttar um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis eða ríkisfangs, með setningu tungumálaskilyrðis vegna greiðslu fyrir afnot af bókum á bókasöfnum. Þjóðirnar hafa haldið fram vörnum um menningarleg rök fyrir umræddu tungumálaskilyrði. Nefndin telur mikilvægt að Norðurlönd tali einu máli gagnvart framangreindum eftirlitsstofnunum og standi sameiginlega vörð um tungumál norrænna menningarsvæða. Í ljósi framangreinds telur nefndin að ekki sé á þessu stigi tímabært að gera þær breytingar sem lagðar voru til í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins og leggur því til að við bætist skilyrði um útgáfu verka á íslensku og er orðalagi málsgreinarinnar breytt í heild til samræmis við það.
    Loks leggur nefndin til þá breytingu á 5. gr. frumvarpsins að nefndarmönnum í úthlutunarnefnd verði fjölgað um tvo í því skyni að Myndstef (Myndhöfundasjóður Íslands) eignist þar fulltrúa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. mars 2007.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Björgvin G. Sigurðsson.



Dagný Jónsdóttir.


Einar Már Sigurðarson.


Kjartan Ólafsson.



Mörður Árnason.


Herdís Á. Sæmundardóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir.