Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Prentað upp.

Þskj. 27  —  12. mál.
Nefnd.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Arnljótsdóttur og Björgu Kjartansdóttur frá félagsmálaráðuneytinu, Braga Guðbrandsson frá Barnaverndarstofu, Jakobínu Árnadóttur frá Lýðheilsustöð, Reyni Jónasson yfirtryggingatannlækni, Þórarin Tyrfingsson frá Samtökum áhugafólks um áfengisvandann, Matthías Halldórsson landlækni, Stefán Hreiðarsson frá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni, Ólaf Guðmundsson frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Magnús Pétursson og Önnu Stefánsdóttur frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldór Grönvold og Maríönnu Traustadóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Hörpu Njáls félagsfræðing, Steingrím Ara Arason frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Laufeyju Ólafsdóttur frá Félagi einstæðra foreldra og Rúnar Gíslason og Heimi Hilmarsson frá Félagi ábyrgra feðra. Þá bárust nefndinni gögn frá Samtökum áhugafólks um áfengisvandann og Lýðheilsustöð.
    Tillagan felur í sér samþykkt aðgerðaáætlunar til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra. Áætlunin gengur út frá því að skipaður verði samráðshópur undir forustu félagsmálaráðherra með fulltrúum þeirra ráðuneyta sem helst hafa með málefni barna og fjölskyldna að gera, þ.e. ráðuneyta félags- og tryggingamála, heilbrigðismála, dómsmála, fjármála og menntamála. Helstu atriði sem lögð er áhersla á samkvæmt tillögunni eru bætt afkoma barnafjölskyldna, m.a. með hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna, lenging fæðingarorlofs og stuðningur við foreldra í uppeldisstarfi, forvarnaaðgerðir með aukinni hreyfingu og hollari næringu annars vegar og aðgerðir gegn reykingum, áfengisneyslu og ólöglegri fíkniefnaneyslu hins vegar, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með þroskafrávik og geðraskanir, sem og langveikra barna, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og sem eiga við vímuefnavanda að etja, aðgerðir sem vernda börn og ungmenni gegn kynferðisbrotum og aðgerðir til að styrkja stöðu barna innflytjenda.
    Nefndin fagnar tillögunni og telur hana vera mikilvægan áfanga á þeirri leið að bæta og styrkja markvisst stöðu barna, ungmenna og fjölskyldna í landinu sem muni aftur koma samfélaginu í heild til góða. Nefndin ítrekar þann skilning sinn að í aðgerðaáætluninni sé átt við öll börn og ungmenni, óháð heilsufari, búsetu eða þjóðfélagsstöðu. Nefndin telur efnisatriði tillögunnar vera forgangsverkefni á sviði velferðar í landinu og telur mikilvægt að við framkvæmd hennar verði horft til reynslu nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum.
    Nefndin telur mikilvægt að allra leiða verði leitað til að sporna við fátækt sem hefur margvísleg neikvæð áhrif á andlega og líkamlega líðan barna og aðgengi þeirra að þjónustu. Nefndin leggur áherslu á að hugað verði sérstaklega að stöðu einstæðra foreldra og meðlagsgreiðenda við aðgerðir til að vinna gegn fátækt meðal barnafjölskyldna. Hugað verði að alvarlegri stöðu barna fíkla. Einnig hvetur nefndin til þess að húsnæðisvandi fátækra barnafjölskyldna verði skoðaður sérstaklega í aðgerðum til að sporna við fátækt.
    Nefndin fagnar þeim fyrirætlunum að fæðingarorlof verði lengt á yfirstandandi kjörtímabili og leggur áherslu á að við þær aðgerðir verði ekki dregið úr réttindum hvors foreldris um sig. Jafnframt ítrekar nefndin mikilvægi þess að betur verði hugað að því að brúa bilið frá fæðingarorlofi þar til dagvistarúrræði taka við. Auk þess bendir nefndin á að rétt sé að taka umgengnis- og forsjármál til sérstakrar skoðunar með hliðsjón af rétti barns til að njóta samvista við báða foreldra sína.
    Nefndin bendir á mikilvægi forvarna og hvetur til þess að vel verði hugað að þeim eins og gert er ráð fyrir í tillögunni. Þannig verði áhersla lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir frekar en að gripið verði til aðgerða þegar komið er í óefni. Nefndin fagnar áformum um aukna tannvernd barna og telur rétt að tekið verði til sérstakrar skoðunar skipulagt eftirlit tannheilsu í tengslum við skólana.
    Nefndin bendir á að möguleikum barna og unglinga til náms í framhaldsskólum hefur í gegnum tíðina verið misskipt eftir búsetu. Nefndin telur mikilvægt að við útfærslu tillögunnar verði sérstaklega hugað að þessu atriði og námskostnaður í þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar jafnaður. Þá telur nefndin að huga þurfi frekar að brottfalli úr framhaldsskólum og til hvaða aðgerða sé hægt að grípa gegn því. Nefndin telur einnig rétt að staða drengja í skólum fái sérstaka umfjöllun, en rannsóknir benda til þess að þeir eigi fremur undir högg að sækja en stúlkur og flosni frekar upp úr námi. Þá telur nefndin jafnframt mikilvægt að auk íþrótta- og félagsstarfs verði hugað að auknu aðgengi að ýmiss konar listnámi barna og unglinga og uppbyggilegu tómstundastarfi, m.a. á vegum sveitarfélaga, óháð efnahag foreldra. Sérstaklega verði hugað að þátttöku barna innflytjenda í því starfi.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir aðgerðum til að vinna á biðlistum eftir þjónustu Barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Nefndin fagnar þessum áformum en bendir á að mikilvægt er að áætlanir í þessum efnum séu raunhæfar. Þó telur nefndin rétt að skoða hvort og með hvaða hætti sé hægt að árangurstengja starfsemi á borð við starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og bendir á að hagsmunir skjólstæðinga kerfisins þurfi ávallt að vera í fyrirrúmi þannig að full samvinna sé milli stofnana og sérfræðinga.
    Nefndin bendir á mikilvægi þess að þeim lagafrumvörpum og tillögum sem lögð verða fram í kjölfar samþykktar tillögunnar fylgi ítarlegt kostnaðarmat. Þá bendir nefndin á að horfa þurfi til afkomu ríkissjóðs og efnahagslífsins í heild við framkvæmd þeirra aðgerða sem tillagan felur í sér. Einnig ítrekar nefndin mikilvægi þess að náið og fullt samráð verði haft við sveitarfélögin í landinu, aðila vinnumarkaðarins og einstakar stofnanir og félög um þá þætti tillögunnar sem snúa að þeim.
    Loks telur nefndin mikilvægt að tekið verði tillit til þekkingar þeirra grunn- og framhaldsskólanema, sem hafa annað móðurmál en íslensku, á móðurmáli þeirra, en ekki eingöngu horft til vankunnáttu í íslensku, t.a.m. með því að boðið verði upp á kennslu í móðurmáli þeirra sem valfagi þar sem því verður við komið.
    Nefndin leggur áherslu á að það eru foreldrar sem fyrst og fremst bera ábyrgð á velferð barna sinna og því er mikilvægt að styrkja þá í uppeldis- og leiðbeiningarhlutverki sínu eins og kostur er í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í málefnum barna og ungmenna.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
         Álfheiður Ingadóttir, Höskuldur Þórhallsson og Kristinn H. Gunnarsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 11. júní 2007.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ármann Kr. Ólafsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.



Álfheiður Ingadóttir,


með fyrirvara.


Árni Johnsen.


Höskuldur Þórhallsson,


með fyrirvara.



Pétur H. Blöndal.


Jón Gunnarsson.


Kristinn H. Gunnarsson,


með fyrirvara.