Opinberir háskólar

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 11:57:06 (6558)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er þörf fyrir að standa á bak við alla háskóla á Íslandi. Það tel ég mig hafa gert og ég heiti því að gera það áfram í framtíðinni. Það munu félagar mínir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði áfram gera líkt og hingað til.

Okkur greinir hins vegar á um leiðir, um hvaða leið beri að fara til að standa við bakið á öllum háskólum á Íslandi og öllum háskólanemum á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn verður að átta sig á því, þótt hann hafi setið í menntamálaráðuneyti allt of lengi, að margra mati, að þótt veruleg fjölgun hafi orðið á háskólunum á Íslandi er ekki þar með sagt að það sé Sjálfstæðisflokknum að þakka. (MÁ: Allt Sigga Kára að þakka.) Herra minn trúr. Þetta er tilhneiging eða breytingar sem við höfum verið að sjá í öllum nágrannalöndum okkar.

Þetta er krafa frá háskólanemunum sjálfum. Frá ungu fólki, frá starfsfólki háskóla og frá háskólasamfélaginu og það hefur viljað þannig til að Sjálfstæðisflokkurinn er svo þaulsætinn í menntamálaráðuneytinu á þeim tíma. En þetta eru ekki verk Sjálfstæðisflokksins.

Varðandi tölurnar sem ég nefndi, og hv. þingmaður hefur ekki gert tilraun til að bera brigður á, verð ég bara að segja að þær tala sínu máli. Þær staðfesta fullyrðingu mína um að þessi ríkisstjórn hefur gefið einkaháskólunum möguleika á að taka inn fleiri nema á þessu ári en opinberu háskólunum. Þegar hv. þingmaður segir að ég eigi að líta til þess að Háskóli Íslands kenni langflestum nemum, af því það séu svo margir nemar í Háskóla Íslands, þá segi ég auðvitað: Háskóli Íslands er það sem á ensku heitir „university“, háskóli sem reynir að kenna öll fög undir sólinni. Það eru engir aðrir háskólar á Íslandi sem gera það. Kannski er Háskóli Íslands eini háskólinn sem hefur rétt á því að kalla sig „university“?