Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 15:24:42 (7937)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[15:24]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni: Það er afar sorglegt að ekki skuli nást um þetta mál víðtæk sátt. Mér heyrðist af ræðu hv. þingmanns að skýringarinnar væri líklega að leita í ræðunni. En til þess að taka af allan vafa verð ég að spyrja hv. þingmann að því hvort ég hafi nokkuð misskilið eða mér misheyrst en ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður hafi sagt að hún treysti ekki orðum ráðherra, treysti ekki orðum formanns menntamálanefndar, treysti ekki lagatexta, treysti ekki greinargerðum með frumvarpi og treysti ekki nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar.

Látum vera að hv. þingmaður treysti ekki þeim einstaklingum sem þarna eru nefndir en ég verð að segja eins og er að það er afar alvarlegt ef hv. þingmaður treystir ekki lögskýringartextum eða lagatextum. Þá erum við á miklum villigötum (Forseti hringir.) og sjáum að sjálfsögðu að vonlaust er að ná sátt við þingmann með slíkt viðhorf.