Opinberir háskólar

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 17:55:14 (8540)


135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:55]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um opinbera háskóla. Það var stórt og viðamikið mál sem í mínum huga mun hafa í för með sér miklar breytingar á Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Ég harma hversu seint þetta mál …

(Forseti (EMS): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanna á að hér stendur yfir einn fundur og biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð til þess að flytja mál sitt.)

Ég þakka, herra forseti.

Við í minni hlutanum gagnrýnum hversu seint þetta mál hefur komið fram og við hefðum kosið að það hefði fengið lengri umfjöllun bæði á Alþingi en ekki síður í skólasamfélaginu.

Þeir háskólar sem falla undir ákvæði frumvarpsins eru sameinaðir, Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands. Ég ætla ekki að fara yfir allar breytingartillögurnar sem við í minni hlutanum lögðum fram, það gerði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og hún gerði einnig grein fyrir nefndaráliti okkar í minni hlutanum. Engu að síður ætla ég að nefna nokkur aðalatriði en sökum þess að þinginu lýkur væntanlega í kvöld mun ég reyna að stytta mál mitt eins og hægt er.

Meiri hlutinn hefur breytt 1. gr. þannig að þar er nú kveðið á um gildissvið laganna og þar kemur fram að lögin skuli ná til þeirra háskóla sem reknir eru sem opinberir háskólar og lúti yfirstjórn menntamálaráðherra. Í ákvæðinu voru ekki og eru ekki tilgreindir þeir opinberu háskólar sem nú eru starfandi, þ.e. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum.

Ákvæðinu hefur verið breytt á þann veg að þar eru nú tilgreindir Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri. Það komu fram athugasemdir m.a. frá rektor Háskólans á Akureyri þar sem hann taldi að ef nöfnin á háskólunum væru ekki innifalin þá gæti framkvæmdarvaldið eingöngu breytt háskólunum eða sameinað þá og því lagði hann til að þessi breyting ætti sér stað. Við því var orðið og ég vil fagna því sérstaklega.

Meiri hlutinn hefur einnig fallist á það að fella niður 4. mgr. 24. gr. laganna eða frumvarpsins. Þar kom fram að háskólaráð gæti gert tillögu til ráðherra um breytingu á hámarksfjárhæð skrásetningargjalda. Mér finnst afar gott að þetta ákvæði skyldi hafa verið fellt niður. Það komu fram miklar og vel rökstuddar athugasemdir frá háskólasamfélaginu um að þarna væri kominn einhvers konar hvati til þess að hækka innritunargjöldin. Engu að síður harma ég eða vil koma því á framfæri að ég tel að niðurfelling þessa ákvæðis skipti litlu máli en því hefur verið haldið fram af meiri hlutanum að þessi heimild hafi verið til staðar engu að síður. Ég hef það þó á tilfinningunni að þarna hafi stjórnarflokkarnir samið sín á milli og annar flokkurinn hafi keypt köttinn í sekknum vegna þess að um leið eru gerðar afar litlar breytingar á 6. gr. og um það snýst þessi deila, um þetta frumvarp fyrst og fremst.

Við í minni hlutanum erum með breytingartillögu á 6. gr. sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir reifaði áðan og mig langar til þess að rekja í stuttu máli en meiri hlutinn leggur til að í háskólaráði, í háskóla með færri en 5.000 nemendur, skuli auk rektors eiga sæti sex fulltrúar tilnefndir til tveggja ára í senn, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins tilnefndur af háskólafundi, einn fulltrúi tilnefndur af heildarsamtökum nemenda við háskólann, tveir fulltrúar tilnefndir af menntamálaráðherra og tveir fulltrúar tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Þetta er rökstutt á þann hátt að þetta fyrirkomulag eða óbreytt fyrirkomulag frá því sem er í frumvarpinu, geti átt vel við litla skóla eða minni skóla en Háskóla Íslands. En mig langar til þess að lesa upp úr athugasemdum sem komu frá Félagi háskólakennara á Akureyri þar sem þeir segja, með leyfi forseta:

„Félag háskólakennara á Akureyri hlýtur að andmæla nýrri skipan háskólaráðs. Samkvæmt núgildandi lögum eiga kennarar tvo fulltrúa af fimm, en samkvæmt frumvarpinu verður ekki nema einn af sjö fulltrúi ,,háskólasamfélagsins“, sem verður ekki endilega kennari. Nýju háskólaráði eru fengin mikil völd við skipulagningu og stjórnun háskólanna og því er mikilvægt að þar sitji fleiri sem gerþekkja starfsemina innan frá. Á fundinum sem félagið hélt um þetta mál 5. maí kom fram það álit að eftir breytinguna líktist háskóli fremur fyrirtæki en menntastofnun. Nær væri að þeir tveir fulltrúar sem háskólaráðið velur sjálft komi einmitt úr röðum starfsmanna eða nemenda en ekki utan frá eins og frumvarpið áskilur. Víða í frumvarpinu stendur ,,Háskólaráð setur nánari reglur um …“ svo að mikilvægt er að ráðið sé í nánum tengslum við starfsfólk háskólanna og störf þess.“

Háskólinn á Akureyri hefur vaxið gríðarlega og er núna orðinn einn af undirstöðuþáttunum í mannlífi, ekki bara á Akureyri, heldur á öllu Norðurlandi og hann sækja nú nemendur alls staðar af á landinu. Ég álít að dugnaður og metnaður kennara hafi lyft Háskólanum á Akureyri í það sem hann hefur verið í dag. Það hefur oft skort á að nægjanlegt fjármagn hafi verið til reksturs skólans en kennararnir hafa einbeitt sér að því að efla hann og það er þeirra metnaður sem hefur skilað því sem skólinn er í dag. Ég álít því að þarna sé stigið óheillavænlegt skref og það er þetta sem vekur mestan ótta minn við þessa breytingu.

Í breytingum meiri hlutans segir einnig að í háskólaráði háskóla með fleiri en 5.000 nemendur skuli auk rektors eiga sæti tíu fulltrúar tilnefndir til tveggja ára, tveir fulltrúar háskólasamfélagsins tilnefndir af háskólafundi, tveir fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum nemenda við háskólann og fjórir fulltrúar tilnefndir af menntamálaráðherra. Þannig að í stað þess eina nemanda sem fulltrúar heildarsamtaka nemenda fá þá bætast við tveir hjá menntamálaráðherra og valdahlutföllin eru þar af leiðandi enn þá skökk. Síðan bætist hér við að það eru tveir fulltrúar tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Ef þetta frumvarp verður að veruleika þá eiga þessir fjórir fulltrúar, tilnefndir af menntamálaráðherra sem koma þá utan að frá, ekki innan úr háskólasamfélaginu, mjög auðvelt með að mynda meiri hluta og ráða þá þessum tveimur aukafulltrúum sem háskólaráð velur sjálft. Þá er kominn meiri hluti, hreinn meiri hluti af utanaðkomandi fulltrúum. Ég tel að hér sér um grundvallarbreytingu að ræða á starfsemi Háskóla Íslands og þetta hefur verið gagnrýnt mjög í afskaplega vandaðri og góðri umsögn frá háskólanum en þar segir, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 41/1999 voru þessi sjónarmið um stjórnun háskólans reifuð ítarlega og lögð rík áhersla á að háskólafundur, þar sem fulltrúar helstu faggreina og hópa háskólasamfélagsins eiga sæti, móti vísinda- og menntastefnu háskólans.“

Hér er verið að tala um að háskólafundir séu mikilvægir. Það er breytingartillaga frá okkur í minni hlutanum. Ég ætla nú ekki að fara að nánar í það enda reifaði Kolbrún Halldórsdóttir það ágætlega hér áðan. En áfram úr umsögn Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Nýlegar samþykktir Háskóla Íslands um nýtt stjórnkerfi og skipulag, þar sem stjórn skólans er falin háskólaráði, rektor, forsetum fræðasviða og stjórnum fræðasviða (skóla), eru reistar á grundvallarforsendum lýðræðis og samráðs, sem ráðast af því hvert viðfangsefni háskóla er og sem reynst hafa Háskóla Íslands giftudrjúgar í gegnum tíðina. Með þeim telur háskólinn sig mjög vel í stakk búinn til að framkvæma þá stefnu sem hann hefur mótað og að rækja enn betur hlutverk sitt sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar.“

Maður spyr sig því hver tilgangurinn sé með því að leggjast í þessar breytingar og breyta fyrirkomulagi sem hefur dugað svo vel, sem hefur fleytt háskólunum okkar í það að vera flaggskip menntamála okkar Íslendinga. Ég verð því að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þessa breytingu.

Það var mikil umræða um gjaldtökur og skólagjöld þegar frumvarpið var lagt fram. Hv. formaður menntamálanefndar opnaði sjálfur á þá umræðu og 1. umr. einkenndist mikið af því atriði. Við í minni hlutanum setjum fram tillögu um að settur verði á fót starfshópur sem fái það verkefni að tryggja fjármögnun opinberu háskólanna án skólagjalda og að gjaldtaka sú sem heimiluð er samkvæmt lögum verði ævinlega með þeim hætti að hún endurspegli raunkostnað þeirrar þjónustu sem henni er ætlað að standa fyrir.

Að lokum vil ég segja það að auk þeirra atriða sem ég renndi hér yfir er margt gott í þessu frumvarpi. Það er sérstaklega ánægjulegt að sameina eigi Háskóla Íslands og Kennaraháskólann og ég vona að sú sameining gangi vel fyrir sig. Það er mikilvægt að frumvarpið gangi fram að því leytinu. Við framsóknarmenn munum styðja einhverjar lagagreinar en við vörum sérstaklega við því að 6. gr. nái fram að ganga.