Skipan ferðamála

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 16:21:00 (429)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

skipan ferðamála.

92. mál
[16:21]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Aðeins nokkur orð um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar og hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir. Ég vil segja að það er áhugavert að takast á við málefni ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og koma að þeim málum á þessum vettvangi núna. Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan ég starfaði að ferðamálum meðal annars sem varaformaður Ferðamálaráðs Íslands á sínum tíma og kynntist þá vel þessari atvinnugrein og öllu því sem undir hana fellur. Það er alveg ljóst og við vitum það hér að ferðaþjónustan er orðin einn af burðarásunum í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Umfang hennar hefur farið sívaxandi og hún skapar þjóðarbúinu æ meiri gjaldeyristekjur ár frá ári. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með þróun hennar sem slíkrar og því að Ísland er orðið afar áhugaverður áningarstaður fyrir ferðafólk hvaðanæva að úr heiminum. Eftir því sem samgöngur batna verða fjarlægðir og ferðatími að minnsta kosti styttri og styttri og margir kjósa að koma til Íslands í frí.

Ég tel þess vegna mjög þýðingarmikið að vel sé búið að ferðaþjónustunni af hálfu hins opinbera, að löggjöf sem um þessa starfsemi gildir sé skýr og ég er þeirrar skoðunar svona í öllum meginatriðum að í lögum frá 2006 eða lögum sem þá tóku gildi, 1. janúar 2006, tóku við af eldri lögum frá árinu 1994 um skipulag ferðamála, hafi verið búið vel að ferðaþjónustunni, skýrt skilgreint hlutverk Ferðamálastofu sem stjórnsýslustofnunar. Hennar hlutverki var breytt og ég tel að það hafi allt í meginatriðum verið jákvætt.

Í framsöguræðu hæstv. samgönguráðherra kemur fram að í þessu frumvarpi sé fyrst og fremst verið að sníða einhverja agnúa af lögunum sem hafi komið fram við framkvæmd þeirra á þeim tíma sem liðinn er frá því þau tóku gildi. Það er að sjálfsögðu ekkert nema gott um það að segja að það sé gert.

Ég vil líka leggja áherslu á að mikilvægt sé að vinna löggjöfina og líka þegar verið er að gera lagfæringar að gera það þá í góðri samvinnu við þá sem starfa eftir lögunum, þ.e. að mikilvægt sé að hafa gott samráð við þá. Nú kemur það út af fyrir sig ekki alveg fram í athugasemdum við þetta lagafrumvarp en það kom fram í máli ráðherra að frumvarpið væri unnið í samráði við Ferðamálastofu. En það kannski kemur ekki alveg fram að hve miklu leyti hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila sem starfa í greininni. Þeir eru fjölmargir.

Ég tel sjálfsagt að gera þær breytingar sem hér er gerð tillaga um. Það eru að minnsta kosti mín fyrstu viðbrögð. Ég velti að vísu fyrir mér því sem segir í 3. gr. þar sem verið er að breyta fresti til að skila ársreikningum til ríkisskattstjóra. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að almennt séu fyrirtæki ekki reiðubúin til að skila þessu fyrr en síðar miðað við þau tímamörk sem eru í gildandi lögum. En einhvern veginn finnst mér að fyrirtæki séu almennt á markaði að halda sína aðalfundi fyrri hluta árs, í mars jafnvel eða apríl og þá liggi fyrir ársreikningar ársins á undan. Ég veit því ekki alveg hvað er á bak við það að gefa þurfi svona langan frest. Er þetta þá sérstakt fyrir ferðaþjónustuna að ársreikningar liggi ekki fyrir fyrr en svona seint? Það kemur mér dálítið spánskt fyrir sjónir.

Síðan tek ég undir það með hæstv. samgönguráðherra að það sé mikilvægt að vanda sig þar sem á í hlut ákvæði sem varða úrræði vegna brota á lögum. Þar er að sjálfsögðu um íþyngjandi ákvæði að ræða og mikilvægt að vandað sé til verka, að stjórnsýslan sé mjög yfirveguð og menn viti nákvæmlega hvaða áhrif þau ákvæði hafa.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að hafa mörg orð um þetta frumvarp við 1. umr. Ég á sæti í hv. samgöngunefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar og áskil mér að sjálfsögðu allan rétt til þess að fara dýpra ofan í málið og skiptast vonandi á skoðunum og sjónarmiðum við þá sem málið varðar í umfjöllun nefndarinnar og fá þangað þá hagsmunaaðila sem starfa á vettvangi þessarar atvinnugreinar. En við fyrstu yfirferð finnst mér allt benda til þess að um þetta frumvarp hæstv. samgönguráðherra geti orðið nokkuð góð samstaða á Alþingi.