Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 16:17:28 (2581)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:17]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég deili þá því hlutskipti að vera innstæðulaus eins og fjölmargir umsagnaraðilar um þetta mál. Að ég hafi skilið botninn eftir uppi í Borgarfirði er misskilningur hjá hv. þingmanni. (BÁ: Fyrri partinn.) Það var annar hv. þingmaður sem skildi botninn eftir þar, í Borgarnesræðum sínum.

Það skortir þann undirbúning sem mælt er fyrir um í þessari handbók. Ég mæli ekki gegn því að gerðar séu vissar breytingar sem eru þarna þó að ég muni sitja hjá. Ég tók skýrt fram að ég styð það að matvælaeftirlitið fari undir eina stofnun, það finnst öllum skynsamlegt. Ég gagnrýndi hins vegar aðferðafræðina, flumbrugang, tillitsleysi og annað slíkt.

Ég færði rök fyrir því að vel væri hugsanlegt að skipa landbúnaðarskólunum undir landbúnaðarráðuneytið vegna þess að maður breytir ekki breytinganna vegna. Hv. þingmaður og ríkisstjórnin hefur sönnunarbyrðina fyrir því að þetta séu hagfelldar tilfærslur. Það verður að vera unnt að benda á ákveðin atriði sem réttlæta flutning. Þau hafa ekki komið fram nema gagnvart Matvælastofnun. En aðferðin er röng þar og aðferðin við vatnamælingar og Veðurstofuna er enn fremur röng, alröng. Það gæti verið klént, vegna þess að aðferðin er röng kann matvælaeftirlitið að verða í uppnámi á næsta ári og á næstu tveimur árum. Það er ekki staðið að þessum breytingum með þeim hætti sem vandaðir löggjafarmenn vilja.