Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 10:37:58 (3373)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[10:37]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér eru teknar til afgreiðslu löngu tímabærar breytingar á starfsháttum Alþingis. Þær tillögur sem mestum usla hafa valdið meðal örfárra þingmanna komu fram fyrir átta árum, árið 1999, fluttar af þáverandi forsætisnefnd, m.a. af þáverandi þingmanni Ragnari Arnalds, sem þá hafði setið 32 ár á þingi og vissi betur en flestir aðrir hvað þurfti að gera til að breyta í störfum þingsins.

Ég fagna því að menn láti ekki tefja tímabærar breytingar lengur en orðið er og ráðist í þá atlögu sem nauðsynleg er til að styrkja aðstöðu þingsins sjálfs til verka, til að styrkja starf þingnefnda til sinna verka og bættrar lagasetningar og til að styrkja aðstöðu þingmannsins til að rækja sitt starf og styrkja aðstöðu þingflokka til að vera það lýðræðislega aðhald og þáttur í löggjafarstarfi sem þeir eru kosnir til.

Ég legg áherslu á, virðulegi forseti, að þessar tillögur eru aðeins áfangi á leið. Þær eru ekki leiðarendi. Það er margt fleira sem sum okkar sem stöndum að því að flytja þetta mál hefðum viljað gera til viðbótar því sem samstaða náðist um. Það er kannski sú list sem menn verða að læra í stjórnmálum, að ná samkomulagi við aðra, standa við það samkomulag og halda svo áfram að vinna að frekari úrbótum.