Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 10:42:41 (3375)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[10:42]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Okkur er ekkert að vanbúnaði að greiða atkvæði um þingskapafrumvarpið. Það er engin lýðræðisþreyta hér, það er málæðisþreyta. Við erum þreytt á að bíða eftir að afar löngum og innihaldslitlum ræðum ljúki, ræðum sem hafa tafið störf á þinginu. Þetta mál hefur fengið eðlilega umfjöllun. Hæstv. forseti þingsins hefur beitt sér af lipurleika við að reyna að ná málamiðlun milli flokka, málið fékk eðlilega umfjöllun í allsherjarnefnd og ég vil líka koma því á framfæri að það er ekki hefð fyrir því, eins og hér hefur ranglega verið haldið fram, að allir flokkar eða allir þingmenn hafi hér áður fyrr tekið sameiginlega ákvarðanir um þingsköpin. Það er ekki þannig. (Gripið fram í.)

Það eru mörg tækifæri sem sköpuðust fyrir vinstri græna til að ná samkomulagi í þessu máli. Þeir kusu að gera það ekki. Þeir vildu ekki vera með og það verður bara að hafa það. Hinir þingflokkarnir hafa hins vegar teygt sig í átt til vinstri grænna og gert breytingar á frumvarpinu þannig að búið er að lengja ræðutímann frá því sem til stóð.

Við erum að taka eitt skref af mörgum og það verða tekin önnur í framhaldinu. Ég tel að við hlökkum flestöll til að starfa við breyttar aðstæður. Störfin verða markvissari, þau verða fjölskylduvænni og þau verða meira í takt við nútímann.

Ég tel alveg ljóst, virðulegi forseti, að eftir nokkur ár munum við hlæja að núverandi fyrirkomulagi. Við viljum ekki vera föst í fortíðinni. Við viljum breytingar á störfum þingsins og þess vegna skulum við ganga til atkvæðagreiðslu og koma þessum nýju lögum sem fyrst í gagnið.