Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 10:50:02 (3377)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[10:50]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Um árabil hafa fagleg og skilvirk vinnubrögð verið áhugamál mitt. Auk þess hef ég unnið að gæðamálum í fyrirtækjum og opinberum stofnunum víða um heim. Í því starfi hef ég kynnst því hvernig auka má skilvirkni og gæði með því að bæta verkferla og skipulag og einnig hvernig auka má þjónustu án þess að kosta til hennar viðbótarfjármagni. Fræðimenn hafa um áratugi aflað mikillar þekkingar á skilvirkum vinnubrögðum og sýnt fram á leiðir til að efla gæði og árangur af starfsemi einkarekinna fyrirtækja sem og stofnana.

Því voru það óneitanlega vonbrigði að kynnast vinnulagi hér á Alþingi sem að mínu viti er að töluverðu leyti úrelt og afar gamaldags. Hér má margt betur fara og því fagna ég sérstaklega þeim lögum um þingsköp Alþingis sem nú eru u.þ.b. að taka gildi. Í nýjum lögum sé ég tækifæri til að efla þingið og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég sé einnig tækifæri til að efla nefndarstörfin og gera vinnulagið árangursríkara og nútímalegra.

Ég lýsi stuðningi við málið og við hæstv. forseta Alþingis sem í þessu máli hefur sýnt eindreginn (Forseti hringir.) vilja til að bæta störf þingsins.