Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 27. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 27  —  27. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til lagaum breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.


Flm.: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Karl V. Matthíasson, Ólöf Nordal,


Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Ármann Kr. Ólafsson.


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný orðskýring í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
     Forgangsakrein:
    Akrein sem einungis er ætluð fyrir umferð strætisvagna og leigubifreiða.

2. gr.

    Við 2. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Almenn umferð ökutækja um forgangsakreinar strætisvagna og leigubifreiða er óheimil.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er liður í því að efla almenningssamgöngur. Ljóst er að á næstu árum þarf átak í eflingu almenningssamgangna og á vettvangi samgönguráðuneytisins er unnið að endurskoðun á umferðarlögum sem taka mun mið af því. Þetta skref verður vonandi til þess að fleiri forgangsakreinar í umferðinni líti dagsins ljós og að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur í fyllingu tímans. Töluvert hefur borið á því að ekki hafi verið tekið tillit til nýrra forgangsakreina strætisvagna og leigubifreiða. Í frumvarpinu er því lagt til að hugtakið forgangsakrein verði skilgreint í umferðarlögum, ásamt því að kveðið verði skýrt á um að umferð annarra ökutækja en strætisvagna og leigubifreiða um slíkar forgangsakreinar sé óheimil. Í þessu sambandi er lögð áhersla á að ökumönnum strætisvagna og leigubifreiða verði einungis heimilt að nota forgangsakreinar við störf sín. Brot gegn framangreindu banni mundi varða sektum, sbr. 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Verði frumvarp þetta að lögum er lögð áhersla á að samgönguráðuráðherra skerpi á sektarheimild vegna brots á ákvæðinu í reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, nr. 930/2006, að fengnum tillögum ríkissaksóknara, sbr. 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga.