Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 52. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 52  —  52. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

Flm.: Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Kolbrún Halldórsdóttir,
Árni Þór Sigurðsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta vinna óháð áhættumat vegna fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá: Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar.
    Vinnan við matið verði á ábyrgð framkvæmdaraðila, þ.e. Landsvirkjunar, en til verksins verði skipaður starfshópur óháðra sérfræðinga á sviði jarðvísinda, mannvirkjagerðar, áhættumats og veiðimála. Áskilið verði að enginn sem velst í sérfræðihópinn hafi áður unnið að áhættumati vegna virkjananna, hönnun mannvirkja Landsvirkjunar á svæðinu eða eigi að öðru leyti hagsmuna að gæta vegna framkvæmdanna.

Greinargerð.


    Landsvirkjun undirbýr nú byggingu þriggja virkjana í Þjórsá, þ.e. Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun. Um er að ræða viðamiklar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum en framkvæmdaraðili ber ábyrgð á gerð þess og ber kostnað af slíku mati, sbr. 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.
    Áhættumat er nauðsynlegur hluti umhverfismats skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Mikilvægt er að slíkt áhættumat liggi fyrir þegar framkvæmdir, sem eru til þess fallnar að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið, eru undirbúnar og það sé endurskoðað með tilliti til framvindu verksins og breytinga sem kunna að verða á hönnun mannvirkja. Til að slíkt áhættumat sé marktækt verður það hins vegar að vera unnið á óhlutdrægan og faglegan hátt af óháðum sérfræðingum. Má í þessu sambandi vísa í lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, en í 4. gr. þeirra laga er að finna skýran lagaramma um hættumat og skilgreind hættusvæði. Er þar m.a. kveðið á um skipan fjögurra manna nefndar sem stýrir gerð hættumats í viðkomandi sveitarfélagi.
    Landsvirkjun hefur lýst því yfir að áhættumats sé að vænta vegna ofangreindra virkjanaframkvæmda. Sá böggull fylgir þó skammrifi að áhættumatið er unnið fyrir Landsvirkjun af sömu aðilum sem hafa eftirlit með framkvæmdunum og koma að hönnun mannvirkjanna. Er slíkt fyrirkomulag til þess fallið að draga í efa að áhættumatið sé unnið á faglegan og óhlutdrægan hátt. Var sami háttur hafður á þegar Landsvirkjun stóð að gerð áhættumats fyrir Kárahnjúkavirkjun og sætti það verklag harðri gagnrýni.
    Mikil umræða hefur farið fram um öryggi fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Öryggi framangreindra virkjana hefur verið dregið í efa og menn óttast hver áhrif þeirra kunna að verða á lífríki árinnar og næsta nágrenni.
    Umrætt svæði hefur mikla jarðvísindalega sérstöðu og aldrei fyrr hafa virkjanir verið byggðar á slíku landsvæði. Gildir það á heimsvísu. Svæðið liggur á flekaskilum og myndar sjálfstætt fleka- og sprungusvæði, svonefndan Hreppafleka. Suðurlandsskjálftar eiga upptök sín á þessu svæði. Þar hefur í áranna rás myndast fjöldi sprungna og jarðlög eru afar óþétt. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur vakið athygli á sérstöðu svæðisins og telur að þar verði erfitt að búa til lón sem haldi vatni og skynsamlegra sé að byggja þar rennslisvirkjanir.
    Kunnugt er að Þjórsá hljóp eftir nýjum sprungum sem mynduðust við Suðurlandsskjálftana árið 2000 þannig að grunnvatnsstaða gjörbreyttist og dæmi eru um að tún í nágrenni árinnar hafi eyðilagst eða spillst verulega. Sérstök hætta getur stafað af Urriðafosslóni þar sem Þjórsá stendur um 4,5 metrum hærra en Hvítá á móts við Hestfjall, sunnan Vörðufells. Eigendur Skálmholtshrauns, sem liggur að Urriðafosslóni, hafa með athugunum sínum og rannsóknum staðfest að jökulvatn úr Þjórsá á greiða leið í Hvítá eftir sprungum og gljúpum jarðlögum þegar Þjórsá er í vexti. Stíflugarðsrof við sprungumyndun í jarðskjálftum við lónin mundi óhjákvæmilega valda stórflóðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Flóahreppi og jafnframt niður alla Hvítá um Selfoss og til sjávar. Við blasir að rof á stíflum eða stíflugörðum og stórflóð í kjölfarið gætu valdið manntjóni. Enn fremur að virkjanalónin myndu hækka grunnvatnsstöðu, en nú er grunnvatnið aðeins 1,5–2 m frá yfirborði og það kynni að gera fjölda býla óhæf til búskapar, jafnt jarðir sem liggja að fyrirhuguðum lónum og fjær þeim. Þetta á sérstaklega við um Urriðafosslón. Vísindalega er ekkert því til fyrirstöðu að meta mögulegar afleiðingar stíflu- eða stíflugarðarofs og breytingar á grunnvatnsstöðu.
    Veruleg ástæða er einnig til að hafa áhyggjur af laxagengd í Þjórsá og hliðarám verði af fyrirhuguðum framkvæmdum. Í ána ganga nú árlega um 6000 laxar. Með virkjununum eyðileggjast mörg afar mikilvæg klak- og búsetusvæði laxaseiða auk þess sem rík ástæða er til að ætla að laxinn nái ekki að ganga upp fyrir Urriðafossstíflu eða að laxaseiði geti ekki gengið til sjávar um fyrirhuguð lón og stíflur og kunni auk þess að verða urriða í þeim að bráð.
    Ekki verður séð að fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir standist meginreglur umhverfisréttar um sjálfbæra þróun, varúð og mengunarbætur sem ríkið er skuldbundið til að fylgja, sbr. einnig lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Um frekari rökstuðning er vísað til þingsályktunartillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár, sem lögð var fram á 134. löggjafarþingi 2007 (þskj. 6 – 6. mál).
    Við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eins og þeirra sem hér um ræðir er brýn nauðsyn að fram fari óháð og gagnsæ rannsókn á áhættuþáttum sem kunna að varða líf íbúa og vistfræðilega þætti. Flutningsmenn telja koma til greina að festa slíkt ákvæði í lög eða reglugerð um mat á umhverfisáhrifum. Núverandi aðstæður við Þjórsá kalla hins vegar á viðbrögð af hálfu Alþingis. Fyrirliggjandi mat á umhverfisþáttum þriggja virkjana í Þjórsá svarar engan veginn þeim alvarlegu spurningum sem vaknað hafa síðan umhverfismatið fór fram fyrir allmörgum árum.
    Með vísan til framangreinds er þeim tilmælum beint til ríkisstjórnarinnar að tryggja að hópur sérfróðra og óháðra manna vinni áhættumat vegna áforma um fyrrnefndar virkjunarframkvæmdir enda verður að telja að mikilvægir almannahagsmunir séu í húfi.