Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 64. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 64  —  64. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Kolbrún Halldórsdóttir.1. gr.

    5. mgr. 38. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarstjórn, sem kjörin er bundinni hlutfallskosningu, skal heimila framboðsaðila sem fulltrúa á í sveitarstjórn en eigi nær kjöri í byggðarráð að tilnefna fulltrúa til að sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 40. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sveitarstjórn, sem kjörin er bundinni hlutfallskosningu, skal heimila framboðsaðila sem fulltrúa á í sveitarstjórn en eigi nær kjöri í nefndir og ráð skv. 1. mgr. að tilnefna fulltrúa til að sitja fundi þeirra nefnda og ráða með málfrelsi og tillögurétti. Sveitarstjórn getur ákveðið í samþykktum sínum, sbr. 10. gr., að ákvæði 1. málsl. gildi um fleiri nefndir og ráð á vegum sveitarfélagsins.

3. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 40. gr.“ í 4. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna komi: 3. mgr. 40. gr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 133. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Fyrsti flutningsmaður var þá Kolbrún Halldórsdóttir. Það er nú endurflutt í óbreyttri mynd.
    Með frumvarpinu er lagt til að framboðsaðili sem á fulltrúa í sveitarstjórn geti ákveðið að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í nefndum og ráðum sveitarfélagsins, þ.m.t. byggðarráði, eigi hann ekki kjörinn fulltrúa í viðkomandi nefnd eða ráði. Samkvæmt gildandi lögum er sveitarstjórn í sjálfsvald sett hvort hún heimilar slíka áheyrnarfulltrúa. Reynslan sýnir að óvíða eru áheyrnarfulltrúar heimilaðir nema í byggðarráði en það er þó ekki sjálfgefið. Í Reykjavík hefur þó verið farin sú leið sem hér er lögð til, að framboðsaðilinn sjálfur ákveði hvort hann tilnefnir áheyrnarfulltrúa en er ekki háður samþykki sveitarstjórnar. Í samþykktum um stjórn og fundarsköp borgarstjórnar kemur fram að heimildin nær til borgarráðs og fagráða, en það eru átta helstu málefnaráð borgarinnar. 48. gr. samþykkta um stjórn og fundarsköp Reykjavíkurborgar hljóðar svo: „Borgarstjórn kýs fulltrúa í borgarráð, aðrar nefndir, ráð og stjórnir og leysir þá frá störfum ef því er að skipta samkvæmt ákvæðum laga, reglugerða og samþykktar þessarar og öðrum samþykktum borgarráðs. Slíkar kosningar skulu vera leynilegar bundnar hlutfallskosningar ef einhver borgarfulltrúa óskar þess. Framboðslista, sem fulltrúa á í borgarstjórn, er heimilt að tilnefna borgarfulltrúa eða varaborgarfulltrúa til að sitja fundi borgarráðs eða fagráða skv. 61. gr. með málfrelsi og tillögurétt, enda eigi hann ekki fulltrúa í viðkomandi ráði. Starfsmenn fyrirtækja og stofnana Reykjavíkurborgar eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá. Borgarstjórn getur vikið frá þessu ákvæði ef málefni vinnuveitanda eru óverulegur þáttur í starfi viðkomandi nefndar og starf viðkomandi einstaklings er ekki þess eðlis að hætta sé á hagsmunaárekstrum þrátt fyrir nefndarsetu.“
    Tillögunni sem hér er flutt er ætlað að auka lýðræði í sveitarfélögunum. Ljóst er að sú staða getur hæglega komið upp að framboðslisti sem fær t.d. 10% atkvæða eigi engan fulltrúa í byggðarráði eða öðrum ráðum og nefndum sveitarfélagsins ef viðkomandi aðili er í minni hluta í sveitarstjórn. Á sama tíma getur framboðslisti með mun minna fylgi hæglega átt sæti í öllum nefndum í gegnum meirihlutasamstarf. Þessi staða leiðir til lýðræðishalla sem full ástæða er til að vinna gegn. Fyrir kjósendur sem í hlut eiga á ekki að skipta máli hvort listinn sem þeir kjósa er í meirihlutasamstarfi eða ekki. Þeir eiga sama rétt og kjósendur annarra lista. Þessu er auðvelt að breyta með því að tryggja öllum sem á annað borð fá fulltrúa kjörinn í sveitarstjórn, rétt til að tilnefna áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétti í byggðarráð, sbr. 1. gr. frumvarpsins, og önnur ráð og nefndir sveitarfélaga, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Til nánari skýringar er í 2. gr. frumvarpsins lögð til breyting á 40. gr. laganna en í þeirri grein er fjallað um nefndir og ráð á fremur víðum grunni. Því er lagt til að ákvæðið um áheyrnaraðild einskorðist við nefndir og ráð skv. 1. mgr. 40. gr. laganna en þó geti sveitarstjórn ákveðið í samþykktum sínum, sbr. 10. gr. laganna, að það gildi um fleiri nefndir og ráð á vegum sveitarfélagsins. Rétt er að taka fram að ákvæðið á ekki við um stjórnir skv. 40. gr. laganna. Í 3. gr. frumvarpsins er aðeins um lagatæknilega breytingu að ræða.