Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 65. máls.

Þskj. 65  —  65. mál.Frumvarp til laga

um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Heimilt er að nota raflagnir og rafföng í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli til 1. október 2010. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. skal fyrir 1. október 2007 leggja fram verkáætlun til Neytendastofu um hvernig staðið verði að breytingum til samræmis við íslenskar kröfur fyrir 1. október 2010.
    

2. gr.

    Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. skal tilnefna umsjónarmann öryggismála á svæðinu sem starfi í samvinnu við Neytendastofu. Hann skal uppfylla þær hæfniskröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 264/1971, um raforkuvirki, með síðari breytingum.
    

3. gr.

      Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um frumvarp þetta, sem lagt er fyrir Alþingi skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, vísast að öðru leyti til fylgiskjals I.Fylgiskjal I.BRÁÐABIRGÐALÖG
um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði
fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.


FORSETI ÍSLANDS gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

    Viðskiptaráðherra hefur tjáð mér að raflagnir og rafföng á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli séu í samræmi við bandaríska staðla. Raflagnir og rafföng, sem séu á svæðinu, uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru í íslenskum lögum og reglugerðum og því sé ljóst að skipta verði um raflagnir sem séu innan svæðisins. Það sé viðamikið verkefni að skipta um allar raflagnir innan svæðisins og muni hafa mikinn kostnað í för með sér fyrir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. sem hafi ekki yfir slíkum fjármunum að ráða að svo stöddu. Skólastarf muni hefjast á svæðinu haustið 2007 og til standi að afhenda fyrstu íbúðirnar þar um miðjan ágúst. Nær ómögulegt sé að koma raflögnum í rétt ástand fyrir þann tíma vegna þess hve knappur tíminn sé auk þess sem erfitt sé að fá iðnaðarmenn til starfsins. Til að tryggja að skólastarf geti hafist á svæðinu í haust eins og fyrirhugað sé beri brýna nauðsyn til að nú þegar verði gerð breyting á gildandi lögum.
    Fyrir því eru hér með sett bráðabirgðalög skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar á þessa leið:

1. gr.

    Heimilt er að nota raflagnir og rafföng í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli til 1. október 2010. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. skal fyrir 1. október 2007 leggja fram verkáætlun til Neytendastofu um hvernig staðið verði að breytingum til samræmis við íslenskar kröfur fyrir 1. október 2010.

2. gr.

    Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. skal tilnefna umsjónarmann öryggismála á svæðinu sem starfi í samvinnu við Neytendastofu. Hann skal uppfylla þær hæfniskröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 264/1971, um raforkuvirki, með síðari breytingum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 6. júlí 2007.
Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Björgvin G. Sigurðsson.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi
á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.

    Markmið frumvarpsins er að staðfesta bráðabirgðalög frá 6. júlí 2007 um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð umfram það sem þegar hefur verið ákveðið.