Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 90. máls.

Þskj. 90  —  90. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 79 26. maí 1997,
um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: og varðveislu viðkvæmra hafsvæða.
     b.      2. málsl. hljóðar svo: Getur ráðherra með reglugerð m.a. ákveðið sérstök friðunarsvæði þar sem veiðar með öllum eða tilteknum veiðarfærum eru bannaðar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum nr. 79 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum. Lýtur breytingin að því að styrkja heimildir ráðherra til að friða viðkvæm hafsvæði í því skyni að vernda fyrst og fremst hafsbotninn sjálfan og það líf sem á honum þrífst. Frumvarp sama efnis var lagt fyrir 133. löggjafarþing en hlaut ekki afgreiðslu á því þingi.
    Í október 2004 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til að kanna forsendur fyrir friðun viðkvæmra hafsvæða. Nefndin skilaði tillögum sínum í lok maí 2005. Nefndin skoðaði þau svæði sem friðuð hafa verið hér við land og forsendur þeirra. Má almennt segja að flest friðunarsvæði í fiskveiðilandhelgi Íslands séu friðuð með heimild í 9. gr. laga nr. 79/1997 en tveir fyrri málsliðir 1. mgr. hennar hljóða svo: „Ráðherra skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Getur ráðherra með reglugerð m.a. ákveðið sérstök friðunarsvæði þar sem veiðar með tilteknum veiðarfærum eru bannaðar.“ Nefndin taldi að friðun svæða hefði fyrst og fremst verið beitt til að ná sértækum markmiðum í fiskvernd eins og t.d. verndun hrygningarfisks eða ungfisks. Á undanförnum árum hefði athyglin beinst í ríkari mæli að hafsbotninum sjálfum og lagði nefndin því til í skýrslu sinni að breytingar yrðu gerðar á heimild ráðherra þannig að verndun hafsbotnsins fengi meira vægi og rúmaðist betur innan lagaheimildarinnar. Með því móti mundi hún endurspegla skýrar markmið og inntak friðunar viðkvæmra hafsvæða. Miðar frumvarpið að því að binda í lög tillögur nefndarinnar að þessu leyti.
    Með breytingu þeirri sem lagt er til að gerð verði með b-lið 1. gr. er aðeins verið að árétta að unnt er að láta friðun taka til allra veiða þannig að ekki þurfi að telja þær allar í reglugerð ef bannið á að vera altækt.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 79 26. maí 1997,
um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

    Með frumvarpinu er lagt til að heimildir ráðherra til að friða viðkvæm hafsvæði verði styrktar með það að markmiði að vernda hafsbotninn og það líf sem á honum þrífst.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.