Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.

Þskj. 93  —  93. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)1. gr.

    3. tölul. 1. mgr. 17. gr. laganna orðast svo: Geymslugjald fyrir geymslu vöru og gáma á hafnarsvæði, hvort sem er innan húss eða utan, og skal gjald þetta standa straum af kostnaði við uppbyggingu, viðhald, endurnýjun og rekstur á geymsluaðstöðunni.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „til ársloka 2008“ í 1. mgr. kemur: til ársloka 2010.
     b.      Í stað orðanna „1. janúar 2009“ í 2. mgr. kemur: 1. janúar 2011.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í breytingum á hafnalögum sem gerðar voru á 133. löggjafarþingi með lögum nr. 28/2007 er ekki nægilega skýrt að geymslugjald sem höfnum er heimilt að taka fyrir geymslu vöru og gáma á hafnarsvæði sínu á við hvort sem vörur eða gámar eru geymdir innan húss eða utan. Til að koma í veg fyrir misskilning um þetta er með frumvarpi þessu lögð til sú breyting á 3. tölul. 1. mgr. 17. gr., sem fjallar um geymslugjald, að skýrt er tekið fram að um sé að ræða geymslu hvort sem er innan húss eða utan. Er breyting þessi einungis til nánari skýringa á ákvæðinu og hvenær höfnum er heimilt að taka geymslugjöld.
    Þá var ákveðið í ríkisstjórn í júlí 2007 að grípa til aðgerða vegna hugsanlegs tekjusamdráttar sveitarfélaga vegna skertrar þorskveiði. Samkvæmt gildandi hafnalögum er gert ráð fyrir að ný ákvæði þeirra um styrktar hafnarframkvæmdir sveitarfélaga taki gildi 1. janúar 2009. Það mun að öllum líkindum leiða til þess að sveitarfélög, sem þegar hafa fengið heimildir til framkvæmda á grundvelli eldri styrkjareglna í samgönguáætlun, munu ráðast í þessar framkvæmdir á næsta ári, hvað sem líður mögulegum tekjusamdrætti, til þess að missa ekki af þeim betri styrkjum sem eldra kerfi fól í sér. Ekki þykir ástæða til annars en heimila þeim sveitarfélögum sem þess óska að fresta slíkum hafnarframkvæmdum tímabundið á meðan samdráttur aflamarks varir.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.

    Meginmarkmið með frumvarpinu er að gera þá breytingu á 3. tölul. 1. mgr. 17. gr. hafnalaga, sem fjallar um geymslugjald, að skýrt sé tekið fram að um er að ræða geymslu hvort sem er innan húss eða utan. Er breyting þessi einungis til nánari skýringa á ákvæðinu og hvenær höfnum er heimilt að taka geymslugjöld. Einnig hefur frumvarpið í för með sér breytingu á bráðabirgðaákvæði til samræmis við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í júlí 2007 um mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs tekjusamdráttar sveitarfélaga vegna skertrar þorskveiði.
    Samkvæmt gildandi hafnalögum er gert ráð fyrir að ný ákvæði þeirra um styrktar hafnarframkvæmdir sveitarfélaga taki gildi 1. janúar 2009. Það mun að öllum líkindum leiða til þess að sveitarfélög sem þegar hafa fengið heimildir til framkvæmda á grundvelli eldri styrkjareglna í samgönguáætlun munu ráðast í þessar framkvæmdir á næsta ári til þess að missa ekki af þeim styrkjum sem eldra kerfið fól í sér. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að heimila þeim sveitarfélögum sem þess óska að fresta slíkum hafnarframkvæmdum tímabundið á meðan samdráttur aflamarks varir. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á framlögum til samgöngumála.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.