Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 155. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 166  —  155. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, nr. 141/2003.

Flm.: Valgerður Bjarnadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Ellert B. Schram,


Gunnar Svavarsson, Róbert Marshall.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal iðgjaldshlutfall ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara nema 4% eftir 1. janúar 2008.
     b.      Í stað orðanna „skv. 1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: skv. 1. og 2. mgr.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Til viðbótar lágmarkslífeyrissjóðsiðgjaldi skv. 2. mgr. er greiðendum heimilt að greiða allt að 4% af heildarlaunum sem iðgjald í séreignarlífeyrissjóð samkvæmt lögum nr. 129/1997. Ríkissjóður skal þá greiða jafnhátt mótframlag, þó ekki hærra en 2%.
                      Eftir 1. janúar 2008 falla ákvæði III.–V. kafla laganna úr gildi gagnvart öðrum en þeim sem þá hafa hafið töku lífeyris. Áunnin lífeyrisréttindi fram til þess tíma halda þó gildi sínu.

2. gr.

    Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Eftirlaunaréttur, lífeyrisiðgjald, greiðsla eftirlauna og séreignarlífeyrissjóðir.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Greinargerð.


    Markmiðið með flutningi frumvarpsins er að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi. Þannig halda þeir þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér en eftir gildistöku laganna gilda almennar reglur um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna um aðra en forseta Íslands.
    Setning laga nr. 141/2003 var allumdeild meðal þjóðarinnar. Með þeim voru æðstu handhöfum framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds færð lífeyriskjör sem eru úr takti við það sem tíðkast meðal þjóðarinnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lífeyriskjör þessara hópa verði færð til þess vegar sem nú gerist hjá starfsmönnum ríkisins.
    Áhöld hafa verið um hvort eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verndi þau réttindi sem fólk hefur áunnið sér eða fengið samkvæmt hinum umdeildu lögum. Til að forðast að málið lendi í sjálfheldu málalenginga á grundvelli formsatriða, svo sem tengsla eignarréttarákvæða við löggjöfina frá 2003, er gert ráð fyrir að áunnin réttindi samkvæmt hinum umdeildu lögum skuli í engu skert.