Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.

Þskj. 257  —  237. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um kjararáð, nr. 47/2006,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Verkefni kjararáðs er að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, ráðherra, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands, forstöðumanna ríkisstofnana og annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 1. júlí 2006 tóku gildi ný lög um skipan launa og starfskjara æðstu handhafa ríkisvalds og þeirra ríkisstarfsmanna sem svo háttar til um að launakjör þeirra geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfa þeirra eða samningsstöðu. Þau lög tóku við af lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd. Ein helsta breytingin með nýju lögunum var að kjararáði varð heimilt að ákveða nánar hvaða aðilar féllu undir úrskurði ráðsins.
    Á því rúmlega eina ári sem liðið er síðan lögin tóku gildi hefur kjararáð kveðið upp allnokkra úrskurði um hvaða aðilar falli undir ákvörðun kjararáðs. Af þessum úrskurðum eru níu þar sem kjararáð hefur ákveðið að aðilar falli ekki undir úrskurðarvald þess. Af þeim sem féllu áður undir kjaranefnd og kjararáð hefur úrskurðað að falli ekki undir úrskurðarvald þess eru prófessorar, yfirdýralæknir, skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands að frátöldum skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, sendifulltrúar í utanríkisþjónustunni, forstöðumenn fangelsa og skrifstofustjóri á skrifstofu forseta Íslands. Hvað varðar ný störf hefur kjararáð úrskurðað að aðstoðarlögreglustjórar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og aðstoðarríkislögreglustjórar falli ekki undir úrskurðarvald þess. Auk þess hefur kjararáð úrskurðað að framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins heyri ekki undir það þar sem stjórn sjóðsins ráði framkvæmdastjóra og í því felist einnig vald til að ráða launakjörum hans.
    Í 1. gr. laga nr. 47/2006, um kjararáð, er sem fyrr segir mælt fyrir um að meginverkefni kjararáðs sé m.a. að ákveða laun og starfskjör þeirra starfsmanna sem sem svo háttar til um að þau geti ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfa þeirra og samningsstöðu. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 47/2006 segir að við mat á því hverjir falli undir ákvörðunarvald kjararáðs sé eðlilegt að horfa til þess annars vegar hverjir gegni störfum sem ekki megi falla niður í verkföllum og hins vegar hverjir gegni störfum sem feli í sér fyrirsvar fyrir ríkið í samskiptum við starfsmenn í kjaramálum. Leiðir reynslan í ljós að skilgreiningar laganna á því hvaða laun og starfskjör ríkisstarfsmanna kjararáð á að ákvarða eru ófullnægjandi og hefur það haft í för með sér að kjararáð hefur úrskurðað að hópar á borð við skrifstofustjóra í Stjórnaráði Íslands falli ekki undir úrskurðarvald þess en slíkt var ekki fyrirséð við setningu laganna. Nauðsynlegt er því að tilgreina frekar til hverra ákvæðið skuli ná með nánari upptalningu þeirra starfa sem falla eiga undir úrskurðarvald kjararáðs. Er frumvarpi þessu ætlað að skýra betur kjör hverra kjararáð skuli ákvarða og eru með því lagðar til breytingar þar að lútandi. Varða þær fyrst og fremst frekari útfærslu á því hverjir falli undir úrskurðarvald kjararáðs og er í því skyni bætt við upptalningu 1. gr. laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að bætt sé inn í upptalningu þeirra starfa sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs starfsheitunum ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands og forstöðumenn ríkisstofnana.
    Í ljósi smæðar íslenskrar stjórnsýslu er mikilvægt að þeir embættismenn sem teljast til yfirstjórnar ráðuneyta og gegna þar margvíslegum stjórnunar- og trúnaðarstörfum, bæði inn á við og gagnvart stofnunum sem og hagsmunasamtökum, standi ekki jafnframt í kjarasamningsgerð og kjaradeilum við ríkið og ráðuneytin. Það fær illa samrýmst störfum þeirra og veikir yfirstjórn ráðuneytanna. Var það ein af ástæðum þess að þessi störf voru á sínum tíma annars vegar felld undir ákvörðunarvald kjaranefndar og hins vegar undanþegin verkfalli. Til að árétta þessa sérstöðu er því lagt til að ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands, sem skipaðir eru samkvæmt 13. gr. laga nr. 73/1969, falli undir úrskurðarvald kjararáðs.
    Hvað forstöðumenn varðar liggur nokkuð ljóst fyrir að þeir falla undir þau skilyrði að vera í forsvari stofnunarinnar gagnvart starfsmönnum og að vera undanþegnir verkfalli. Það er því til einföldunar að þeirra er getið í lagaákvæðinu svo kjararáð þurfi ekki að taka sjálfstæða afstöðu til þessara atriða gagnvart hverjum og einum þeirra. Því er gert ráð fyrir að kjararáð fjalli um starfskjör allra forstöðumanna sem falla undir ákvæði 22. gr. laga nr. 70/1996 og eru ekki undanþegnir ákvörðunarvaldi kjararáðs samkvæmt sérlögum.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2006,
um kjararáð, með síðari breytingum.

         Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 1. gr. laga um kjararáð þar sem kveðið er á um hvaða starfsmenn ríkisins falla undir úrskurðarvald ráðsins. Breytingarnar miða að því að tilgreina sérstaklega í ákvæðinu nokkra hópa embættismanna sem nauðsynlegt þykir að kjararáð úrskurði laun vegna stöðu þeirrar innan stjórnsýslunnar. Starfshóparnir sem lagt er til að verði tilgreindir í ákvæðinu til viðbótar við þá sem þar eru þegar nefndir eru ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar ráðuneyta og forstöðumenn ríkisstofnana. Kjararáð úrskurðaði 7. júní sl. að ekki heyrði lengur undir ráðið að ákveða laun og starfskjör skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu. Ekki er ástæða til að ætla að þessi breyting verði til þess að launaþróun skrifstofustjóra ráðuneyta eða annarra þeirra sem lagt er til að tekin verði af öll tvímæli um að falli undir úrskurðarvald kjararáðs víki mikið frá því sem ella hefði orðið, enda ber kjararáði samkvæmt lögunum að gæta samræmis við laun þeirra sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Lögfesting frumvarpsins ætti því ekki að hafa teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.