Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 243. máls.

Þskj. 263  —  243. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum,
nr. 49/1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skal það hættumat ná til þéttbýlis.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
                  Ráðherra getur ákveðið að gerð verði úttekt á hættu á ofanflóðum í dreifbýli þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku. Með byggð í þessari málsgrein er ekki átt við frístundabyggð. Veðurstofa Íslands annast úttektina og skal gerður um það samningur, sbr. 3. mgr.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sama á við um úttekt skv. 4. mgr.

2. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 13. gr. orðast svo: Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats skv. 4. gr., þ.m.t. kostnað við starfsemi hættumatsnefnda, svo og kostnað við gerð úttektar skv. 4. gr. og við gerð uppdrátta skv. 6. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi, að undantekinni 2. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði tvær meginbreytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997.
    Fyrri breytingin lýtur að því að ráðherra fái heimild til þess að ákveða að gerð verði úttekt á hættu á ofanflóðum, þ.e. snjóflóðum og skriðuföllum, í dreifbýli á þeim stöðum, þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni. Enn fremur ef hætta er talin á slíku. Hér er gert ráð fyrir sömu skilyrðum og sett eru fyrir hættumati í þéttbýli skv. 1. mgr. 4. gr. gildandi laga.
    Eins og lögin eru úr garði gerð, er ekki fyrir hendi bein heimild til að láta meta hættu á ofanflóðum í dreifbýli, enda þótt Veðurstofa Íslands telji að slík hætta sé fyrir hendi á nokkrum stöðum á landinu, þar sem menn hafa fasta búsetu. Af þeim sökum er lagt til að ráðherra geti ákveðið að fela Veðurstofunni, sem annast gerð hættumats skv. 3. mgr. 4. gr. gildandi laga, að gera úttekt á þessari hættu á umræddum stöðum. Gengið er út frá því að slík úttekt verði einfaldari í sniðum en hættumat, enda eru hér ekki eins miklir hagsmunir í húfi og í þéttbýli. Er hér fyrst og fremst um að ræða mikilvæga upplýsingaöflun fyrir viðkomandi sveitarfélög vegna almannahættu sem skapast getur við óvenjuleg veðurskilyrði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gerð hefur verið grein fyrir meginefni greinarinnar í almennum athugasemdum hér að framan. Rétt þykir að heimild ráðherra til að láta gera úttekt á hættu á ofanflóðum í dreifbýli taki einungis til staða þar sem menn hafa fasta búsetu. Þar með nái heimildin ekki til frístundabyggða, enda eru aðstæður þar ekki þær sömu, auk þess sem úttekt á slíkum stöðum hefði óhjákvæmilega í för með sér mikinn kostnað. Þá er gengið út frá því að tekið verði tillit til úttektar við alla skipulagsgerð með sama hætti og nú á sér stað þegar um hættumat er að ræða.

Um 2. gr.


    Með greininni er lagt til að ofanflóðasjóður greiði kostnað við gerð úttektar á hættu á ofanflóðum í dreifbýli á sama hátt og kostnað við gerð hættumats í þéttbýli.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn
snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að ráðherra verði heimilt að ákveða að gerð verði úttekt á hættu á ofanflóðum í dreifbýli þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku. Hér er um að ræða sömu skilyrði og sett eru fyrir hættumati í þéttbýli skv. 1. mgr. 4. gr. gildandi laga.
    Veðurstofa Íslands, sem samkvæmt lögunum annast gerð hættumats, hefur áætlað að í dreifbýli séu um 400 staðir sem ástæða kunni að vera til að gera úttekt á varðandi ofanflóðahættu. Gengið er út frá að slíkar úttektir verði einfaldari í sniðum en hættumat í þéttbýli og er áætlaður heildarkostnaður við þær 100 m.kr. Kostnaður við úttektir í dreifbýli verður greiddur af ofanflóðasjóði á sama hátt og kostnaður við hættumat í þéttbýli samkvæmt nánari ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður rúmist innan núverandi fjárheimilda sjóðsins.