Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 103. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 274  —  103. mál.
Breytingartillagavið frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2007.

Frá minni hluta fjárlaganefndar (JBjarn, GAK).    Við 4. gr. Nýr liður:
    Liður 5.1 fellur brott.

Greinargerð.


    Hér er gerð tillaga um að fella úr gildi heimild til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Á fjárlögum ársins 2007 eru heimildir til að selja hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja (HS) og í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB) (liður 5.1 og liður 5.2). Í maí sl. nýtti ríkisstjórnin sér heimildina til sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Markmið þáverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með sölunni virðist fyrst og fremst hafa verið að setja í gang ferli til að koma orkuveitum og orkulindum úr eigu opinberra aðila í hendur einkaaðila á frjálsum markaði. Söluferli HS var ekki stöðvað á vordögum þótt Samfylkingin tæki sæti Framsóknarflokks í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir háværar kröfur þar um. Salan á hlut ríkisins í HS til einkafyrirtækis hleypti af stað atburðarás í einkavæðingu og sölu orkuveitna úr samfélagseigu sem ekki sér fyrir endann á. Nægir þar að nefna framvindu mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur, einkavæðingu og afhendingu samfélagseigna til útvalinna einkaðaila. Er nú af hálfu nýs meiri hluta í Reykjavík markvisst reynt að stöðva og vinda ofan af þeirri óheillaþróun og stöðva þar með áform um frekari einkavæðingu og sölu orkuveitna og orkulinda landsmanna.
    Orkuveita Reykjavíkur og ríkissjóður eiga og reka saman Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og á ríkissjóður liðlega 20% hlut í hitaveitunni. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar á jafnframt jarðhitaréttindi á jörðinni Deildartungu í Reykholtsdal, þar á meðal Deildartunguhver, einhvern vatnsmesta hver jarðar. Úr honum koma 180 lítrar af 98 gráðu heitu vatni á sekúndu upp á yfirborðið.
    Með vísan til þess hvernig ríkisstjórnarflokkarnir nýttu heimild á fjárlögum til sölu Hitaveitu Suðurnesja er mjög brýnt að afnema nú þegar heimild á fjárlögum til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar ásamt Deildartunguhver.