Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 269. máls.

Þskj. 299  —  269. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007 frá 26. október 2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins að því er varðar verkefniskerfi Kýótóbókunarinnar.
     3.      Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2216/2004 frá 21. desember 2004 um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB.
     4.      Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/156/EB frá 29. janúar 2004 um að setja viðmiðunarreglur fyrir vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.
     5.      Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/780/EB frá 13. nóvember 2006 um að komast hjá því að tvíreikna skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda í kerfi Bandalagsins um viðskipti með heimildir til losunar, að því er varðar verkefnistengdar aðgerðir samkvæmt Kýótóbókuninni, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/ EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007 frá 26. október 2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins að því er varðar verkefniskerfi Kýótóbókunarinnar.
     3.      Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2216/2004 frá 21. desember 2004 um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB.
     4.      Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/156/EB frá 29. janúar 2004 um að setja viðmiðunarreglur fyrir vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.
     5.      Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/780/EB frá 13. nóvember 2006 um að komast hjá því að tvíreikna skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda í kerfi Bandalagsins um viðskipti með heimildir til losunar, að því er varðar verkefnistengdar aðgerðir samkvæmt Kýótóbókuninni, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/ EB.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi þar sem ekki er lagastoð í íslenskum lögum fyrir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004. Þar sem hinar gerðirnar sem fylgja þessum tveimur tilskipunum kalla í sjálfu sér ekki á lagabreytingar fylgir eingöngu íslensk þýðing á umræddum tilskipunum í fylgiskjali með þessari þingsályktunartillögu. Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir umræddar tilskipanir var ákvörðun nr. 146/2007 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirra gerða sem hér um ræðir. Gerðir þessar fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB kemur á fót kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins. Samið var um sérstaka aðlögun fyrir Ísland vegna þeirrar atvinnustarfsemi hér á landi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar þar sem losun koldíoxíðs frá umræddum fyrirtækjum er hverfandi hluti af heildarlosun hér á landi.
    Markmið tilskipunarinnar er að skapa efnahagslega hvata fyrir fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en tilskipunin er liður í aðgerðum Evrópusambandsins til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt Kýótóbókuninni. Viðskiptakerfið gerir fyrirtækjum kleift að selja losunarheimildir sem þau fá úthlutað af stjórnvöldum í því ríki þar sem þau starfa, takist þeim að finna leiðir til að draga úr losun. Þá geta fyrirtæki einnig keypt heimildir þurfi þau fleiri heimildir en þeim var úthlutað.
    Núverandi gildissvið tilskipunarinnar tekur annars vegar til losunar frá starfsemi sem talin er upp í I. viðauka við tilskipunina, t.d. orkuframleiðslu, járn-, jarðefna- og pappírsiðnaðar, og hins vegar til ákveðinna gróðurhúsalofttegunda sem taldar eru upp í II. viðauka. Af I. viðauka leiðir að á fyrsta gildistímabili tilskipunarinnar nær hún aðeins til koldíoxíðs (CO 2).
    Vegna þessa þrönga gildissviðs fellur afar lítið af losun á Íslandi undir tilskipunina, eða eingöngu vararafstöðvar Alcan í Straumsvík og Orkuveitu Reykjavíkur, sem og tíu fiskimjölsverksmiðjur, en af þeim eru tvær ekki starfræktar lengur þótt þær hafi gilt starfsleyfi. Miðar íslenska aðlögunin, sem samið var um við framkvæmdastjórnina, við það að svo lengi sem losun á CO 2 frá framangreindri einstakri starfsemi fari ekki yfir 25.000 tonn á ári, lúti engin starfsemi á Íslandi ákvæðum tilskipunarinnar. Hefur þessi aðlögun þannig í för með sér að tilskipunin mun taka gildi hér á landi ef ný starfsemi hefst hér á landi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar og fer yfir 25.000 tonna markið. Þá er einnig ljóst að verði gildissvið tilskipunarinnar útvíkkað til fleiri geira og lofttegunda mun tilskipunin gilda hér á landi. Einnig gætu íslensk stjórnvöld ákveðið að fella atvinnustarfsemi utan gildissviðsins undir tilskipunina, í samræmi við heimildarákvæði þar um eins og vikið verður að síðar.
    Skýring hins þrönga gildissviðs tilskipunarinnar er að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríkin vildu tryggja að tilskipunin væri einföld í framkvæmd til að byrja með og að betri tími gæfist til að þróa lausnir um hvernig fleiri gróðurhúsalofttegundir verði teknar inn í viðskiptakerfið. Samkvæmt tilskipuninni mega aðildarríki, frá árinu 2008, fella aðra starfsemi og gróðurhúsalofttegundir undir gildissviðið, háð samþykki framkvæmdastjórnarinnar. Stefnir framkvæmdastjórnin einnig að því að víkka gildissviðið út til annarra geira og lofttegunda og hafa flugsamgöngur einkum verið nefndar í því samhengi. Nefna má að gert er ráð fyrir að flugfélög verði að standa skil á losunarheimildum fyrir allt flug innan og til Evrópusambandslanda, hvort sem þau eru skráð í ESB-ríki eður ei.
    Tilskipunin mælir fyrir um að fyrir hvert fimm ára viðskiptatímabil setji sérhvert ríki sér áætlun, landsbundna úthlutunaráætlun, um hvernig staðið verði að úthlutun losunarheimilda á grundvelli Kýótóbókunarinnar. Þannig eru ríkin í raun að úthluta til fyrirtækja hluta af þeim losunarheimildum sem viðkomandi ríki hafa samkvæmt Kýótóbókuninni. Á grundvelli landsbundnu úthlutunaráætlunarinnar úthlutar viðkomandi ríki síðan losunarheimildum til fyrirtækja sem stunda þá starfsemi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar. Kemur fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar að meðan ekkert fyrirtæki á Íslandi falli undir gildissvið tilskipunarinnar sé Ísland undanþegið skuldbindingum sem kveðið er á um í tilskipuninni, þ.m.t. að leggja fram landsbundna úthlutunaráætlun.
    Fyrirtæki geta stundað viðskipti með losunarheimildir sem þau fá úthlutað á innri markaðnum. Á þennan hátt eru skapaðir efnahagslegir hvatar fyrir fyrirtæki til að draga úr losun þar sem þau geta selt heimildir sem þau nýta ekki. Viðskiptin geta átt sér stað yfir landamæri þannig að losunin eigi sér stað í öðru landi en heimildin var upprunalega gefin út í. Losunin er þó alltaf talin á reikning þess lands sem gaf heimildina upprunalega út.
    Gert er ráð fyrir að fyrirtæki geti einnig nýtt sér sveigjanleikaákvæði (sveigjanleikakerfi) Kýótóbókunarinnar og munu fyrirtæki því jafnframt geta aflað sér eininga í viðskiptakerfinu með þátttöku í verkefnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þróunarríkjunum, eða með því að ráðast í verkefni til að draga úr losun í iðnvæddum ríkjum.
    Losi fyrirtæki meira en heimildir þeirra segja til um skulu þau greiða sekt sem nemur 100 evrum fyrir hvert tonn af koldíoxíði umfram losunarheimildir. Greiðsla sektar losar aðila ekki undan því að skila inn losunarheimildum. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kemur fram að EES/EFTA-ríkin muni beita sömu refsingum og ESB fyrir losun umfram heimildir.
    Gerir tilskipunin ráð fyrir að hægt sé að semja við þriðju ríki um að þau tengist viðskiptakerfi Evrópusambandsins og taki þar fullan þátt. Ríki sem taka þátt í viðskiptakerfinu skulu stofna og reka skrá til að tryggja rétt bókhald varðandi útgáfu, handhöfn, framsal og afturköllun losunarheimilda. Ríkjum er heimilt að halda slíka skrá með einu eða fleiri aðildarríkjum. Þá skulu aðildarríki einnig tryggja að losun sé vöktuð og að aðilar í viðskiptakerfinu tilkynni losun í lok hvers árs, í samræmi við leiðbeiningar framkvæmdastjórnarinnar. Þá skulu ríki gefa árlega út skýrslu um framkvæmd tilskipunarinnar þar sem sérstaklega er fjallað um úthlutun, skráningu, vöktun o.fl.
    Í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins kveður ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar á um að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fari með þau verkefni sem eru á könnu framkvæmdastjórnarinnar hvað varðar aðildarríki Evrópusambandsins. Þar sem ESA hefur ekkert hlutverk hvað varðar alþjóðlegar skuldbindingar sem EES/EFTA-ríkin undirgengust í Kýótóbókuninni, mun stofnunin ekki fjalla sérstaklega um umræddar skuldbindingar þó að ESA beri að taka mið af þeim til að tryggja að samræmis verði gætt á innri markaðinum.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins að því er varðar verkefniskerfi Kýótóbókunarinnar.
    Tilskipunin er útvíkkun á kerfi Evrópusambandsins til viðskipta með heimildir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Tilskipunin heimilar þátttöku í verkefnum innan Evrópusambandsins sem byggjast á sveigjanleikaákvæðum Kýótóbókunarinnar um:
     1.      Kerfi sameiginlegrar framkvæmdar þar sem ríkjum eða fyrirtækjum í viðauka B við Kýótóbókunina er heimilt að fjárfesta í verkefnum í öðrum ríkjum í viðauka B þar sem verkefnin fela í sér minni losun eða aukna bindingu kolefnis. Fyrirtæki sem fjárfestir vinnur sér inn losunarskerðingareiningar (Emission Reduction Units) sem það getur nýtt til að uppfylla skuldbindingar sínar í viðskiptakerfi Evrópusambandsins.
     2.      Kerfi hreinleikaþróunar sem heimilar ríkjum í viðauka B við Kýótóbókunina eða fyrirtækjum að taka þátt í verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þróunarríkjum gegn útgáfu á losunarheimildum, einingum vottaðrar losunarskerðingar (Certified Emission Reduction Units), sem fyrirtækjunum er síðan heimilt að nota til að uppfylla skuldbindingar sínar í viðskiptakerfi Evrópusambandsins.
    Aðildarríkin ákveða í landsbundinni úthlutunaráætlun sinni að hve miklu leyti þau heimila þátttöku í þessum sameiginlegu verkefnum. Hugmyndin með þessu er að skapa hvata fyrir fyrirtæki sem falla undir tilskipunina til að taka þátt í verkefnum af þessu tagi og þar með auka alþjóðlega eftirspurn eftir slíkum verkefnum.

4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2216/2004 frá 21. desember 2004 um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB.
    Reglugerðin fjallar um staðlað og varið skráningarkerfi fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Í henni er að finna almenn ákvæði og einnig er fjallað nánar um ýmis tæknileg útfærsluatriði, annars vegar varðandi staðlaðan rafrænan gagnagrunn hvers aðildarríkis og hins vegar óháðan gagnagrunn Evrópusambandsins. Einnig er tekið á samskiptakerfi milli gagnagrunns sambandsins og gagnagrunns loftslagssamningsins. Sett eru skilyrði varðandi búnað og hugbúnað, innihald skráa aðildarríkjanna, upplýsingar um hvern aðila sem er með losunarreikning (bæði fyrirtæki og einstaklinga), einkenniskóða, prófun á skránum, ræsingu og öryggisþætti. Reglugerðin er mjög umfangsmikil og tæknileg.
    Reglugerðin fylgir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB, en kallar í sjálfu sér ekki á lagabreytingar hér á landi.

5. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/156/EB frá 29. janúar 2004 um að setja viðmiðunarreglur fyrir vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.
    Ákvörðunin skilgreinir leiðbeiningar fyrir vöktun og skráningu á losun gróðurhúsalofttegunda sem byggist á IV. viðauka við tilskipun 2003/87/EB. Leiðbeiningarnar eru settar fram í einum almennum viðauka og 10 sértækum viðaukum sem taka á þeirri starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB, þ.e. einn viðauki fyrir hverja tegund af starfsemi. Fyrir hverja tegund af starfsemi eru settar fram ítarlegar kröfur um hvað á að skrá, með hvaða aðferðum og hversu nákvæmlega, en það er breytilegt eftir umfangi starfseminnar. Því umfangsmeiri sem starfsemin er, þeim mun nákvæmari þurfa upplýsingarnar að vera.
    Ákvörðunin fylgir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB, en kallar í sjálfu sér ekki á lagabreytingar hér á landi.

6. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/780/EB frá 13. nóvember 2006 um að komast hjá því að tvíreikna skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda í kerfi Bandalagsins um viðskipti með heimildir til losunar, að því er varðar verkefnistengdar aðgerðir samkvæmt Kýótóbókuninni, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.
    Ákvörðunin formfestir leið til þess að koma í veg fyrir tvítalningu með þeim hætti að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt verkefnistengdum aðgerðum er skráður og samþykktur af yfirvöldum aðildarríkis sem fyrst samþykkja verkefnistengdar aðgerðir með viljayfirlýsingu (letter of endorsement) sem síðan getur leitt til samþykkis (letter of approval).
    Skilgreina skal alla mögulega skerðingu á losun sem getur átt sér stað í verkefninu og er það magn sett til hliðar sem möguleg skerðing (set aside table). Þessar upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi í gegnum opinbera skráningarkerfið. Ekki má bókfæra skerðinguna fyrr en staðfesting yfirvalda liggur fyrir, þá er um vottaða losunarskerðingu að ræða (Certified Emission Reduction). Heimilt er að versla með það sem er sett til hliðar á þennan hátt og staðfest hefur verið af yfirvöldum aðildarríkis í viðskiptakerfi bandalagsins. Þá eru gefnar út samsvarandi losunarskerðingareiningar (Emission Reduction Units) í samræmi við kerfi bandalagsins.
    Ákvörðunin fylgir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB, en kallar í sjálfu sér ekki á lagabreytingar hér á landi.

7. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvorttveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 146/2007

frá 26. október 2007

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2007 frá 28. september 2007 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB ( 2 ).

3)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins að því er varðar verkefniskerfi Kýótóbókunarinnar ( 3 ).

4)         Fella ber inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2216/2004 frá 21. desember 2004 um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/ EB ( 4 ).

5)         Fella ber inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/156/EB frá 29. janúar 2004 um að setja viðmiðunarreglur fyrir vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB ( 5 ).

6)         Fella ber inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/780/EB frá 13. nóvember 2006 um að komast hjá því að tvíreikna skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda í kerfi Bandalagsins um viðskipti með heimildir til losunar, að því er varðar verkefnistengdar aðgerðir samkvæmt Kýótóbókuninni, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB ( 6 ).

7)         Ákvörðun ráðsins 2002/358/EB frá 25. apríl 2002 um samþykki Kýótóbókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, fyrir hönd Evrópubandalagsins, og sameiginlega uppfyllingu á skuldbindingum samkvæmt henni hefur ekki verið felld inn í samninginn.

8)         Ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB frá 11. febrúar 2004 um aðferð til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda í Bandalaginu og um framkvæmd Kýótóbókunarinnar ( 7 ) hefur ekki verið felld inn í samninginn og sérstök ákvæði 3. gr. ákvörðunarinnar um skýrslugjöf, sem ítrekuð eru í 3. mgr. 30. gr. tilskipunar 2003/87/EB, gilda því ekki gagnvart EFTA-ríkjunum.

9)         Í Noregi var kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda frá 1. janúar 2005 komið á með lögum nr. 99 frá 17. desember 2004 og tilheyrandi reglugerðum frá 23. desember 2004, með áorðnum breytingum frá 15. mars 2005. Breytingar á þessum lögum að því er varðar árin 2008–2012 öðluðust gildi hinn 1. júlí 2007 og síðari breytingar á tilheyrandi reglugerðum voru gerðar hinn 14. september 2007. Samkvæmt norska kerfinu verður ekki úthlutað heimildum fyrir tímabilið sem hefst árið 2008 að því er varðar heimildir sem eru umfram losun á upphaflega þriggja ára tímabilinu sem hófst árið 2005. Stjórnvöld í Noregi hafa tilkynnt að með fyrirvara um gildandi málsmeðferð vegna viðurkenningar muni þau ekki gefa út heimildir á fimm ára tímabilinu sem hefst árið 2008 umfram 15 milljónir tonna, og að hámarkshlutfall vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga, sem rekstraraðilum er heimilt að nota, verði ekki hærra en 20 % af heildarlosunarheimildum. Á Íslandi og í Liechtenstein hefur kerfi af þessu tagi ekki verið komið á enn sem komið er. Á Íslandi eru fyrirhugaðar ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá stöðvum sem ættu að falla undir gildissvið tilskipunar 2003/87/EB, meðal annars stöðvunum sem taldar eru upp í viðauka við ákvörðun þessa, sem réttlæta að þær verði undanþegnar gildissviði tilskipunarinnar meðan þær ráðstafanir eru í gildi.

10)    Hafa verður í huga að EFTA-ríkin búa við mismunandi aðstæður. Einkum þarf að taka tillit til skuldbindinga Íslendinga samkvæmt Kýótóbókuninni, þar eð stjórnvöld á Íslandi hafa tilkynnt að þau muni nýta sér ákvæði ákvörðunar þings aðildarríkja Kýótóbókunarinnar 14/CP.7 um áhrif einstakra verkefna á losun á skuldbindingartímabilinu.

11)    Í EFTA-ríkjunum kunna að vera stöðvar sem búa yfir búnaði til að binda og geyma kolefni árin 2008–2012, og verða þær felldar einhliða inn í kerfi ESB fyrir viðskipti með losunarheimildir á þann hátt að kolefni, sem er bundið og komið til varanlegrar geymslu, dregst frá mældri losun frá viðkomandi stöð. Ákvörðun þessi gildir með fyrirvara um úthlutun losunarheimilda til slíkra stöðva.

12)    Ákvörðun þessi skerðir ekki sjálfræði samningsaðila að því er varðar milliríkjaviðræður um loftslagsbreytingar, einkum í tengslum við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókunina, nema að því er varðar lagagerninga sem eru felldir inn í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun þessari. EFTA-ríkin skulu þó taka fullt tillit til þeirra skuldbindinga sem þau hafa gengist undir með EES-samningnum.

13)    Sérhvert EFTA-ríki ber ábyrgð á því að koma í framkvæmd stefnumiðum og aðgerðum til efnda á alþjóðaskuldbindingum samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókuninni.

14)    EFTA-ríkjunum skal áfram gefinn kostur á þátttöku í starfi nefndar um loftslagsbreytingar, sem er framkvæmdastjórninni til aðstoðar samkvæmt 23. gr. tilskipunar 2003/87/ EB, og að leggja landsbundnar úthlutunaráætlanir fyrir nefndina til umræðu.

15)    Í krafti aðildar sinnar að Kýótóbókuninni geta EFTA-ríkin tekið þátt í milliríkjaviðskiptum með losunarheimildir við hvern þann samningsaðila sem getið er í viðauka B með bókuninni.

16)    Viðskipti EFTA-ríkjanna skulu skráð í hina óháðu viðskiptadagbók Bandalagsins. Yfirstjórnandi óháðu viðskiptadagbókarinnar skal sinna hlutverki sínu gagnvart EFTA- ríkjunum og Eftirlitsstofnun EFTA skal vera lögbært yfirvald þegar að því kemur að gefa yfirstjórnandanum nauðsynleg fyrirmæli að því er varðar ákvæði um beitingu reglugerðar (EB) nr. 2216/2004 gagnvart EFTA-ríkjunum.

17)    Þegar gerður er samningur á grundvelli 25. gr. tilskipunar 2003/87/EB skal þess gætt að mismuna ekki EFTA-ríkjunum og rekstraraðilum í þeim ríkjum í samanburði við aðildarríki EB og rekstraraðila þar.

18)    Eftirlitsstofnun EFTA skal gæta náins samráðs við framkvæmdastjórnina þegar leitað er til hennar um verkefni sem varða EFTA-ríkin og eru á ábyrgð framkvæmdastjórnarinnar að því er varðar aðildarríki EB samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, reglugerð (EB) nr. 2216/2004, ákvörðun 2004/156/EB og ákvörðun 2006/780/EB. Þessi verkefni taka meðal annars til mats á landsbundinni úthlutunaráætlun samkvæmt 3. mgr. 9. gr. fyrir hvert tímabil sem getið er í 2. mgr. 11. gr. og öllum umsóknum um að taka einhliða með aðra starfsemi og lofttegundir samkvæmt 24. gr. tilskipunar 2003/87/EB.

19)    Fastanefnd EFTA-ríkjanna mun taka ákvörðun um að setja á fót ráðgjafarnefnd á vegum EFTA sem verði Eftirlitsstofnun EFTA til aðstoðar við að inna þessi verkefni af hendi. Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjórnarinnar skal sitja fundi nefndarinnar. Við mat á því hvort EFTA-ríkin hafi fullnægt ákvæðum tilskipunarinnar, einkum að því er varðar heildarlosunarheimildir, skal fjallað um þau atriði stefnumiða og aðgerða á sviði loftslagsbreytinga sem varða samning þennan. Eftirlitsstofnun EFTA skal þó ekki fjalla um hvort einstök EFTA-ríki hafi sjálf fullnægt alþjóðaskuldbindingum sínum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ákvörðun um landsbundna úthlutunaráætlun skal vera í samræmi við viðmiðin sem sett eru í III. viðauka við tilskipun 2003/87/EB, einkum viðkomandi ákvæði aðferðakerfis samkvæmt skjölum framkvæmdastjórnarinnar COM(2003) 830 lokag., COM(2005) 703 lokag. og COM(2006) 725 lokag. sem hafa að geyma leiðsögn um mat á landsbundinni úthlutunaráætlun samkvæmt 3. mgr. 9. gr. tilskipunar 2003/87/EB og ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um landsbundnar úthlutunaráætlanir.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


XX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi undirliður bætist við í lið 1f (tilskipun ráðsins 96/61/EB):

        „–     32003 L 0087: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 (Stjtíð. ESB L 275, 25.10.2003, bls. 32).“

2.         Eftirfarandi liðir bætist við á eftir lið 21ak (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/107/EB):

        „21al.     32003 L 0087: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB (Stjtíð. ESB L 275, 25.10.2003, bls. 32), eins og henni var breytt með:

                    –     32004 L 0101: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004 (Stjtíð. ESB L 338, 13.11.2004, bls. 18).

                    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                    a)    Með fyrirvara um síðar umfjöllun sameiginlegu EES-nefndarinnar skal tekið fram að eftirtaldar bandalagsgerðir hafa ekki verið felldar inn í EES-samninginn:

                        i)    Ákvörðun ráðsins 2002/358/EB frá 25. apríl 2002 um samþykki Kýótóbókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, fyrir hönd Evrópubandalagsins, og sameiginlega uppfyllingu á skuldbindingum samkvæmt henni.

                        ii)    Ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB frá 11. febrúar 2004 um aðferð til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda í Bandalaginu og um framkvæmd Kýótóbókunarinnar.

                    b)    EFTA-ríkin skulu undanþegin ákvæðum tilskipunarinnar að því er varðar þriggja ára tímabilið sem hófst 1. janúar 2005 og um getur í 1. mgr. 11. gr.

                    c)    Eftirfarandi bætist við í annarri undirmálsgrein 1. mgr. 9. gr.:

                        „Að því er varðar fimm ára tímabilið sem hefst 1. janúar 2008 skal birta og tilkynna áætlun EFTA-ríkis eigi síðar en beint í kjölfar gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella tilskipunina inn í samninginn.“

                    d)    Orðin „innan þriggja mánaða“ í 3. mgr. 9. gr. lesist sem „innan tveggja mánaða eða svo skjótt sem unnt er eftir það“ að því er varðar fimm ára tímabilið sem hefst 1. janúar 2008.

                    e)    Að því er varðar tímabilin, sem um getur í 2. mgr. 11. gr., og heildarlosunarheimildir fyrir hvert tímabil samkvæmt 2. mgr. 11. gr., er hverju EFTA-ríki heimilt að úthluta stærra hlutfalli losunarheimilda sinna gegn greiðslu en sem nemur hámarki samkvæmt 10. gr.

                    f)    Eftirfarandi bætist við í 2. mgr. 11. gr.:

                        „Að því er varðar fimm ára tímabilið sem hefst 1. janúar 2008 og að því leyti sem EFTA-ríki á í hlut skal þessi ákvörðun tekin eigi síðar en 2 mánuðum áður en það tímabil hefst eða jafnskjótt og unnt er eftir það.“

                    g)    Orðin „sáttmálans, einkum 87. og 88. gr.“ í 3. mgr. 11. gr. lesist „samningsins, einkum 61. og 62. gr.“

                    h)    Í stað fyrsta málsliðar 1. mgr. 11. gr. a komi eftirfarandi:

                        „Með fyrirvara um ákvæði 3. mgr. skal EFTA-ríkjunum heimilt á hverju tímabili, sem um getur í 2. mgr. 11. gr., að leyfa rekstraraðilum að nýta sér vottaða losunarskerðingu og losunarskerðingareiningar, sem til verða í verkefnistengdum aðgerðum innan kerfis Bandalagsins, sem hundraðshluta af heildarlosunarheimildum.“

                    i)    Í stað annars málsliðar 3. mgr. 16 gr. komi eftirfarandi:

                        „EFTA-ríkin skulu kveða á um sektir fyrir umframlosun sem jafngilda þeim sem gilda í aðildarríkjum EB.“

                    j)    Eftirfarandi bætist við í 1. mgr. 19. gr.:

                        „Skrá fyrir Liechtenstein má halda á vegum Svisslendinga.“

                    k)    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 20. gr.:

                        „4.    Skrá skal í óháðu viðskiptadagbókina, sem um getur í 1. mgr., útgáfu, framsal og afturköllun losunarheimilda sem varða EFTA-ríkin og rekstraraðila þeirra.

                            Yfirstjórnandinn skal vera til þess bær að sinna verkefnunum sem um getur í 1.–3. mgr. að því er varðar EFTA-ríkin og rekstraraðila í þeim ríkjum.“

                    l)    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 25. gr.:

                        „3.    Til losunarheimilda í kerfi Bandalagsins teljast losunarheimildir sem EFTA-ríkin úthluta eða rekstraraðilar í þeim ríkjum selja innan kerfis Bandalagsins. Eftir að Bandalagið hefur gert samning af því tagi sem um getur í 1. mgr. skal enginn munur gerður á slíkum losunarheimildum.

                            Framkvæmdastjórnin skal senda EFTA-ríkjunum tímanlega upplýsingar um samningaviðræður og gerð samninga í samræmi við þessa grein.“

                    m)    EFTA-ríki, sem taka þátt í kerfi ESB fyrir viðskipti með losunarheimildir, munu leggja fram upplýsingar samkvæmt viðeigandi ákvæðum í fyrstu undirmálsgrein 3. mgr. 30. gr., en ákvæði um skýrslugjöf samkvæmt annarri undirmálsgrein taka ekki til þeirra.

                    n)    Eftirfarandi bætist við efst í 1. lið III. viðauka:

                        „Alþjóðaskuldbindingar EFTA-ríkjanna utan þessa samnings skulu ekki koma til umfjöllunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA.“

                    o)    Í stað orðanna „mat á raunverulegum og áætluðum árangri aðildarríkjanna við“ í 2. lið III. viðauka komi orðin „staðfest gögn um losun sem stöðvar hafa lagt fram samkvæmt tilskipuninni, landsskrár ríkja og orðsendingar ríkja sem sendar hafa verið skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í því skyni“ að því er varðar EFTA-ríkin.

                    p)    Í stað orðanna „lagagerninga og stefnumótandi gerninga Bandalagsins“ í 4. lið III. viðauka komi orðin „lagagerninga sem felldir hafa verið inn í samninginn“.

                    q)    Í stað orðanna „sáttmálans, einkum 87. og 88. gr.“ í 5. lið III. viðauka komi orðin „samningsins, einkum 61. og 62. gr.“

                    r)    Í stað textans í 12. lið III. viðauka komi eftirfarandi:

                        „Í áætluninni skal hámark vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga, sem rekstraraðilum er heimilt að nota í kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir, tilgreint sem hundraðshluti af heildarlosunarheimildum.“

                    s)    EFTA-ríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. desember 2007.

                    t)    Brennslustöðvar á Íslandi, sem hafa skráð nafnvarmaafl umfram 20 MW (að undanskildum brennslustöðvum fyrir hættulegan úrgang eða sorp) en hafa losað á hverju ári minna en 25 000 tonn af koltvísýringsígildi (að undanskilinni losun úr lífmassa) samkvæmt skýrslu til lögbærs yfirvalds næstu þrjú ár á undan deginum sem landsbundin úthlutunaráætlun fyrir tiltekið tímabil er lögð fram, skulu undanþegnar gildissviði tilskipunar þessarar á því tímabili sem sú áætlun ætti að gilda, að því tilskildu að hlutaðeigandi lögbært yfirvald færir Eftirlitsstofnun EFTA viðhlítandi sönnur á að það framfylgi öðrum stefnumiðum og aðgerðum sem skila sama árangri og tilskipun 2003/87/EB. Af þessu leiðir að meðan þannig stendur á að engin stöð eða starfsemi samkvæmt I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB ætti að falla undir landsbundna úthlutunaráætlun gildir ekki krafan í 1. mgr. 9. gr. um framlagningu áætlunar.

                    u)    Eftirlitsstofnun EFTA skal beita viðkomandi ákvæðum aðferðakerfisins samkvæmt skjölum framkvæmdastjórnarinnar COM(2003) 830 lokag., COM(2005) 703 lokag. og COM(2006) 725 lokag. sem hafa að geyma leiðsögn um mat á landsbundinni úthlutunaráætlun samkvæmt 3. mgr. 9. gr. tilskipunar 2003/87/EB eins og það hefur verið framkvæmt í ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar um landsbundnar úthlutunaráætlanir.

        21am.     32004 D 0156: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/156/EB frá 29. janúar 2004 um að setja viðmiðunarreglur fyrir vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB (Stjtíð. ESB L 59, 26.2.2004, bls. 1).

        21an.     32004 R 2216: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2216/2004 frá 21. desember 2004 um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB (Stjtíð. ESB L 386, 29.12.2004, bls. 1).

                    Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                    a)    Ákvæði aðlögunarliðar k) við tilskipun 2003/87/EB skulu gilda um reglugerðina að breyttu breytanda.

                    b)    Eftirfarandi undirmálsgrein bætist við í 3. mgr. 6. gr.:

                        „Yfirstjórnandinn skal fara eftir fyrirmælum Eftirlitsstofnunar EFTA að því er varðar skrár í EFTA-ríkjunum koma við sögu.“

                    c)    Í stað orðanna „Framkvæmdastjórnin skal“ í 4. mgr. 8. gr. komi orðin „Framkvæmdastjórnin og Eftirlitsstofnun EFTA skulu“.

                    d)    Orðin „1. janúar 2007“ í 1. mgr. 44. gr. lesist „15. desember 2007“.

                    e)    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 44. gr.:

                        „4.    Yfirstjórnandinn skal fara eftir fyrirmælum Eftirlitsstofnunar EFTA að því er varðar töflur landsbundinna úthlutunaráætlana EFTA-ríkjanna.“

        21ao.     32006 D 0780: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/780/EB frá 13. nóvember 2006 um að komast hjá því að tvíreikna skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda í kerfi Bandalagsins um viðskipti með heimildir til losunar, að því er varðar verkefnistengdar aðgerðir samkvæmt Kýótóbókuninni, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB (Stjtíð. ESB L 316, 16.11.2006, bls. 12).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipana 2003/87/EB og 2004/101/EB, reglugerðar (EB) nr. 2216/2004 og ákvarðana 2004/156/EB og 2006/780/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 27. október 2007 eða daginn eftir að síðasta tilkynning samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins berst sameiginlegu EES-nefndinni, hvort sem síðar verður ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 26. október 2007.

                                        Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
                                       Formaður



                                       Stefán Haukur Jóhannesson


                                       Ritarar
                                       sameiginlegu EES-nefndarinnar



                                       Bergdís Ellertsdóttir     Matthias Brinkmann



VIÐAUKI
við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007


Brennslustöðvar á Íslandi sem hafa skráð nafnvarmaafl umfram 20 MW:

Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Síldarvinnslunnar á Siglufirði;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Eskju á Eskifirði;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja HB Granda á Akranesi;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Ísfélags Vestmannaeyja;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Skeggeyjar Höfn;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Síldarvinnslunnar í Helguvík;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði;
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum;
Neyðarvaraaflstöð fyrir álbræðslu Alcan;
Neyðarvaraaflstöð Orkuveitu Reykjavíkur.
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/87/EB
frá 13. október 2003
um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Grænbókin um viðskipti innan Evrópusambandsins með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda varð kveikjan að umræðu í allri Evrópu um hvort rétt og framkvæmanlegt sé að koma á viðskiptum innan Evrópusambandsins með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda. Í Evrópuáætluninni um loftslagsbreytingar hefur verið fjallað um stefnumál og ráðstafanir Bandalagsins með þátttöku allra hagsmunaaðila, þ.m.t. kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins (kerfi Bandalagsins) sem byggist á grænbókinni. Í ályktun sinni frá 8. mars 2001 viðurkenndi ráðið sérstakt mikilvægi Evrópuáætlunar um loftslagsbreytingar og vinnu sem byggist á grænbókinni og undirstrikaði brýna þörf fyrir markvissar aðgerðir á vettvangi Bandalagsins.
2)          Í sjöttu aðgerðaráætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála, sem komið var á fót með ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/ 2002/EB ( 5 ), er bent á að loftslagsbreytingar séu forgangsverkefni hvað aðgerðir varðar og kveðið á um að komið verði á kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir alls staðar í Bandalaginu fyrir árslok 2005. Í áætluninni kemur fram að Bandalagið skuldbindur sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 8% á árunum 2008 til 2012 miðað við gildi ársins 1990 og að til lengri tíma litið þurfi losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum að minnka um u.þ.b. 70% miðað við gildi ársins 1990.
3)          Lokamarkmið rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem samþykkt var með ákvörðun ráðsins 94/69/EB frá 15. desember 1993 um niðurstöður rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar ( 6 ), er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu stöðugum undir tilteknum gildum þannig að komið verði í veg fyrir hættulegar veðurfarsbreytingar af mannavöldum.
4)          Kýótóbókunin, sem samþykkt var með ákvörðun ráðsins 2002/358/EB frá 25. apríl 2002 um samþykki Kýótóbókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, fyrir hönd Evrópubandalagsins, og sameiginlega uppfyllingu á skuldbindingum samkvæmt þeim ( 7 ), mun við gildistöku skuldbinda Bandalagið og aðildarríki þess til að draga úr heildarlosun þeirra gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, sem tilgreindar eru í viðauka A við bókunina, um 8% á árunum 2008 til 2012 miðað við gildi ársins 1990.
5)          Bandalagið og aðildarríki þess hafa samþykkt að uppfylla í sameiningu skuldbindingar sínar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum samkvæmt Kýótóbókuninni, í samræmi við ákvörðun 2002/358/EB. Markmið þessarar tilskipunar er að uppfylla skuldbindingar Evrópubandalagsins og aðildarríkja þess betur með skilvirkum, evrópskum markaði með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda og með eins litlum, neikvæðum áhrifum á efnahagsþróun og atvinnuástand og framast er kostur.
6)          Með ákvörðun ráðsins 93/389/EBE frá 24. júní 1993 um kerfi til að vakta losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda ( 8 ) var komið á fót kerfi til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda og meta hversu miðar að uppfylla skuldbindingar sem varða losunina. Þetta kerfi mun verða aðildarríkjunum notadrjúgt tæki til að ákvarða heildarfjölda losunarheimilda til úthlutunar.
7)          Nauðsynlegt er að Bandalagið setji ákvæði um úthlutun losunarheimilda á vegum aðildarríkjanna til að stuðla að því að varðveita heilleika innri markaðarins og komast hjá því að samkeppni raskist.
8)          Við úthlutun losunarheimilda skulu aðildarríki taka tillit til þess hvort unnt sé að minnka losun frá iðnaðarstarfsemi.
9)          Aðildarríkin geta ákveðið að þau gefi eingöngu út losunarheimildir, sem gilda fyrir fimm ára tímabilið sem hefst árið 2008, til aðila í tengslum við losunarheimildir sem hafa verið afturkallaðar og sem svara til losunarskerðingar sem þessir aðilar hafa náð fram á yfirráðasvæði sínu á þriggja ára tímabili sem hefst árið 2005.
10)          Frá og með þessu fimm ára tímabili felur framsal losunarheimilda til annars aðildarríkis í sér samsvarandi leiðréttingu á einingum úthlutaðs magns (AAU) samkvæmt Kýótóbókuninni.
11)          Aðildarríkin skulu tryggja að rekstraraðilar í tilteknum, tilgreindum atvinnugreinum hafi leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda og vakti og gefi skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á þeirra vegum sem tilgreind er í tengslum við starfsemina.
12)          Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á þessari tilskipun og tryggja að þeim sé framfylgt. Viðurlögin skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
13)          Til að tryggja gagnsæi skulu upplýsingar um úthlutun losunarheimilda og niðurstöður vöktunar á losun vera aðgengilegar almenningi, einungis með fyrirvara um þær takmarkanir sem kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál ( 9 ).
14)          Aðildarríkin skulu leggja fram skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar og skal skýrslan vera samin á grundvelli tilskipunar ráðsins 91/692/EBE frá 23. desember 1991 um að staðla og einfalda skýrslur um framkvæmd vissra tilskipana um umhverfismál ( 10 ).
15)          Upptaka viðbótarstöðva í kerfi Bandalagsins skal vera í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun og því er heimilt að rýmka gildissvið kerfis Bandalagsins þannig að það taki til losunar annarra gróðurhúsalofttegunda en koltvísýrings, m.a. frá ál- og efnaiðnaði.
16)          Þessi tilskipun skal ekki koma í veg fyrir að aðildarríki haldi við eða komi á fót eigin viðskiptakerfum til að stjórna losun gróðurhúsalofttegunda frá annarri starfsemi en þeirri sem tilgreind er í I. viðauka eða í kerfi Bandalagsins eða frá stöðvum sem eru um tíma undanþegin kerfi Bandalagsins.
17)          Þar eð aðildarríkin eru aðilar að Kýótóbókuninni er þeim heimilt að eiga alþjóðaviðskipti með heimildir til losunar við aðra samningsaðila sem tilgreindir eru í viðauka B.
18)          Tenging kerfis Bandalagsins við kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda í þriðju löndum mun auka kostnaðarhagkvæmni við að ná markmiðum Bandalagsins um að draga úr losun eins og mælt er fyrir um í ákvörðun 2002/358/EB um sameiginlega uppfyllingu á skuldbindingum.
19)          Verkefnismiðuð kerfi, þ.m.t. kerfi sameiginlegrar framkvæmdar (JI) og kerfi hreinleikaþróunar (CDM), eru mikilvæg til að ná bæði því markmiði að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og því að kerfi Bandalagsins verði kostnaðarhagkvæmara. Í samræmi við viðeigandi ákvæði Kýótóbókunarinnar og Marakess-samninganna skal notkun verkefnismiðuðu kerfanna koma til viðbótar aðgerðum heima fyrir, sem þar með verða umtalsverður þáttur átaksins.
20)          Með þessari tilskipun er hvatt til notkunar tækni sem nýtir orku betur en áður, m.a. samþættrar varma- og raforkutækni, sem hefur í för með sér minni losun á hverja frálagseiningu, enda mun væntanleg tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um samvinnslu raf- og varmaorku, sem byggist á spurn eftir notvarma á innri orkumarkaði, stuðla sérstaklega að notkun samþættrar varma- og raforkutækni.
21)          Með tilskipun ráðsins 96/61/EB frá 24. september 1996 um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 11 ) eru settar almennar reglur um mengunarvarnir og eftirlit með mengun, en við þær má styðjast þegar gefnar eru út heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda. Breyta skal tilskipun 96/61/EB til að tryggja að viðmiðunarmörk fyrir losun séu ekki fastsett fyrir beina losun gróðurhúsalofttegunda frá stöð sem fellur undir þessa tilskipun og að aðildarríkjum sé heimilt að gera ekki kröfur um orkunýtni hvað varðar brennslueiningar eða aðrar einingar sem losa koltvísýring á staðnum, með fyrirvara um aðrar kröfur samkvæmt tilskipun 96/61/EB.
22)          Þessi tilskipun samrýmist rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókuninni. Hún skal endurskoðuð í ljósi þróunar í því samhengi og skal þá tekið tillit til fenginnar reynslu við framkvæmd hennar og framfara á sviði vöktunar á losun gróðurhúsalofttegunda.
23)          Viðskipti með losunarheimildir skulu vera hluti af heildstæðum og samfelldum stefnumiðum og ráðstöfunum sem hrundið er í framkvæmd innan einstakra aðildarríkja og á vettvangi Bandalagsins. Með fyrirvara um beitingu 87. og 88. gr. sáttmálans er aðildarríkjum heimilt, falli starfsemin undir kerfi Bandalagsins, að vega og meta áhrif ýmissa stefnumiða, t.d. á sviði reglusetningar eða skattamála, þar sem stefnt er að sömu markmiðum. Við endurskoðun tilskipunarinnar skal taka tillit til þess að hve miklu leyti þessi markmið hafa náðst.
24)          Aðildarríkjum er heimilt að beita skattlagningu heima fyrir til að takmarka losun frá stöðvum sem fá tímabundna undanþágu.
25)          Stefnu og ráðstöfunum skal hrundið í framkvæmd innan einstakra aðildarríkja og á vettvangi Bandalagsins í öllum geirum hagkerfis Evrópusambandsins, og ekki aðeins í geirum iðnaðar og orkumála, til að draga megi verulega úr losun. Framkvæmdastjórnin skal einkum vega og meta stefnu og ráðstafanir á vettvangi Bandalagsins þannig að flutningageirinn leggi sitt af mörkum til þess að Bandalagið og aðildarríki þess uppfylli skuldbindingar sínar að því er varðar loftslagsbreytingar samkvæmt Kýótóbókuninni.
26)          Þrátt fyrir margþætta möguleika markaðsmiðaðra kerfa skal áætlun Evrópusambandsins um að draga úr loftslagsbreytingum byggjast á jafnvægi milli kerfis Bandalagsins og annarra aðgerða sem gerðar eru á vettvangi Bandalagsins, innan einstakra ríkja og á alþjóðagrundvelli.
27)          Í þessari tilskipun eru þau grundvallarréttindi virt og þeim meginreglum fylgt sem sérstaklega eru viðurkennd í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
28)          Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 12 ).
29)          Þar eð ekki er hægt að breyta 1., 5. og 7. viðmiðun í III. viðauka með málsmeðferð í nefndum skal ákvörðun um breytingar, sem eiga við um tímabil eftir árið 2012, einungis tekin sameiginlega.
30)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð því markmiði hvert fyrir sig sem fyrirhugaðar aðgerðir fela í sér, þ.e. að koma á fót kerfi á vegum Bandalagsins, og þar sem auðveldara er að ná markmiðunum á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi því markmiði.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Markmið

Með þessari tilskipun er komið á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins (hér á eftir nefnt „kerfi Bandalagsins“) til að stuðla að því að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda á kostnaðarhagkvæman og efnahagslega skilvirkan hátt.

2. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun gildir um losun af völdum starfseminnar sem er tilgreind í I. viðauka og um gróðurhúsalofttegundirnar sem eru tilgreindar í II. viðauka.
2.     Tilskipunin gildir með fyrirvara um kröfur samkvæmt tilskipun 96/61/EB.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „losunarheimild“: heimild til að losa ígildi eins tonns af koltvísýringi á tilgreindu tímabili sem hefur einungis gildi við að uppfylla kröfur þessarar tilskipunar og er framseljanleg í samræmi við ákvæði hennar,
b)    „losun“: losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið frá upptökum í stöð,
c)    „gróðurhúsalofttegundir“: lofttegundirnar sem eru tilgreindar í II. viðauka,
d)    „leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda“: leyfi sem gefið er út í samræmi við 5. og 6. gr.,
e)    „stöð“: staðbundin tæknieining þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem er getið í I. viðauka og öll önnur starfsemi sem gæti haft áhrif á losun og mengun og tengist með beinum og tæknilegum hætti þeirri starfsemi sem fer fram á staðnum,
f)    „rekstraraðili“: aðili sem rekur eða stýrir stöð eða, þar sem kveðið er á um slíkt í landslögum, hefur fengið í hendur fjárhagslegt úrskurðarvald yfir tæknilegri starfsemi stöðvarinnar,
g)    „aðili“: einstaklingur eða lögaðili,
h)    „nýr þátttakandi“: stöð þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem er tilgreind í I. viðauka og sem hefur fengið leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda eða uppfæra slíkt leyfi vegna breytinga á eðli eða starfsemi stöðvarinnar eða í kjölfar stækkunar hennar eftir að landsbundin úthlutunaráætlun hefur verið send framkvæmdastjórninni,
i)    „almenningur“: einn eða fleiri aðilar og, í samræmi við landslög eða venjur, samtök þeirra, félög eða hópar aðila,
j)    „tonn af koltvísýringsígildi“: eitt tonn af koltvísýringi (CO 2) eða það magn annarra gróðurhúsalofttegunda sem eru tilgreindar í II. viðauka og hafa jafngildan hnatthlýnunarmátt.

4. gr.
Leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda

Aðildarríki skulu tryggja að frá og með 1. janúar 2005 fari ekki fram í nokkurri stöð starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka og hefur í för með sér losun sem tilgreind er varðandi starfsemina, nema rekstraraðili hennar hafi fengið leyfi sem gefið er út af lögbæru yfirvaldi í samræmi við 5. og 6. gr. eða stöðin falli tímabundið ekki undir kerfi Bandalagsins skv. 27. gr.

5. gr.
Umsóknir um leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda

Umsókn til lögbærs yfirvalds um leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda skal innihalda lýsingu á:
a)    stöðinni og starfsemi hennar, þ.m.t. tæknin sem notuð er,
b)    þeim hráefnum og hjálparefnum sem líklegt er að stuðli að losun lofttegunda sem tilgreindar eru í I. viðauka,
c)    losunarupptökum stöðvarinnar á lofttegundum sem tilgreindar eru í I. viðauka og
d)    ráðstöfunum sem ráðgerðar eru til að vakta losun og gefa skýrslu um hana í samræmi við viðmiðunarreglurnar sem samþykktar eru skv. 14. gr.
Í umsókninni skal einnig vera samantekt, sem er ekki á tæknimáli, um þau atriði sem getið er í fyrstu undirgreininni.

6. gr.
Inntak leyfis til losunar gróðurhúsalofttegunda og skilyrði fyrir veitingu þess

1.     Lögbært yfirvald skal gefa út leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda, sem heimilar slíka losun úr allri stöðinni eða hluta hennar, telji það fullvíst að rekstraraðilinn geti vaktað losunina og gefið um hana skýrslu.
Leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda getur gilt fyrir eina stöð eða fleiri sem eru á sama stað og reknar af sama aðila.
2.     Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda:
a)    nafn og heimilisfang rekstraraðila,
b)    lýsing á starfsemi og losun stöðvarinnar,
c)    vöktunarkröfur þar sem tilgreindar eru vöktunaraðferðir og -tíðni,
d)    kröfur um skýrslugjöf og
e)    skuldbinding um að skila inn losunarheimildum, sem jafngilda heildarlosun stöðvarinnar á hverju almanaksári, staðfest í samræmi við 15. gr., innan fjögurra mánaða frá lokum þess árs.

7. gr.
Breytingar á stöðvum

Rekstraraðilinn skal veita lögbæra yfirvaldinu upplýsingar um allar fyrirhugaðar breytingar á eðli eða starfsemi stöðvarinnar, eða stækkun hennar, sem kunna að leiða til þess að uppfæra þurfi leyfið til losunar gróðurhúsalofttegunda. Lögbæra yfirvaldið skal uppfæra leyfið eftir því sem við á. Taki nýr rekstraraðili við stöðinni skal lögbært yfirvald uppfæra leyfið þannig að nafn hans og heimilisfang komi fram í leyfinu.

8. gr.
Samræming við tilskipun 96/61/EB

Ef starfsemi stöðva fellur undir I. viðauka tilskipunar 96/61/EB skulu aðildarríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að skilyrði fyrir útgáfu leyfis til losunar gróðurhúsalofttegunda, og verklagsreglurnar sem þá er stuðst við, séu í samræmi við leyfið sem kveðið er á um í tilskipuninni. Heimilt er að fella kröfur skv. 5., 6. og 7. gr. þessarar tilskipunar inn í verklagsreglurnar sem kveðið er á um í tilskipun 96/61/EB.

9. gr.
Landsbundin úthlutunaráætlun

1.     Hvert aðildarríki skal gera eigin áætlun um hvert tímabilanna sem um getur í 1. og 2. mgr. 11. gr. þar sem fram kemur heildarfjöldi þeirra losunarheimilda sem það hyggst úthluta fyrir viðkomandi tímabil og hvernig það hefur í hyggju að úthluta þeim. Áætlunin skal byggjast á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðunum, m.a. þeim sem skráðar eru í III. viðauka, að teknu tilhlýðilegu tilliti til athugasemda almennings. Með fyrirvara um sáttmálann skal framkvæmdastjórnin, eigi síðar en 31. desember 2003, semja leiðbeiningar um framkvæmd viðmiðananna í III. viðauka.
Áætlun um tímabilið, sem um getur í 1. mgr. 11. gr., skal birt og framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum skal tilkynnt um hana eigi síðar en 31. mars 2004. Fyrir tímabilin þar á eftir skal birta áætlunina og tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um hana a.m.k. 18 mánuðum áður en viðkomandi tímabil hefst.
2.     Nefndin, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., skal fara yfir landsbundnar úthlutunaráætlanir.
3.     Eftir að aðildarríki tilkynnir um landsbundna úthlutunaráætlun skv. 1. gr. er framkvæmdastjórninni heimilt, innan þriggja mánaða, að hafna áætluninni eða einstökum liðum hennar á þeim forsendum að hún sé í ósamræmi við 10. gr. eða viðmiðanirnar sem tilgreindar eru í III. viðauka. Aðildarríkið skal því aðeins taka ákvörðun skv. 1. eða 2. mgr. 11. gr. að framkvæmdastjórnin samþykki fyrirhugaðar breytingar. Framkvæmdastjórnin skal rökstyðja allar ákvarðanir um synjun.

10. gr.
Úthlutunaraðferð

Fyrir þriggja ára tímabilið, sem hefst 1. janúar 2005, skulu aðildarríki úthluta a.m.k. 95% af losunarheimildum sínum án endurgjalds. Fyrir fimm ára tímabilið, sem hefst 1. janúar 2008, skulu aðildarríki úthluta a.m.k. 90% af losunarheimildum sínum án endurgjalds.

11. gr.
Úthlutun og útgáfa losunarheimilda

1.     Hvert aðildarríki skal taka ákvörðun um heildarfjölda losunarheimilda sem úthlutað verður á þess vegum á þriggja ára tímabilinu sem hefst 1. janúar 2005 og hvernig þeim verður úthlutað til rekstraraðila hverrar stöðvar. Þessi ákvörðun skal tekin a.m.k. þremur mánuðum áður en tímabilið hefst og skal hún byggjast á landsbundinni úthlutunaráætlun, sem gerð er skv. 9. gr. og í samræmi við 10. gr., að teknu tilhlýðilegu tilliti til athugasemda almennings.
2.     Hvert aðildarríki skal taka ákvörðun um heildarfjölda losunarheimildanna sem úthlutað verður á þess vegum á fimm ára tímabilinu sem hefst 1. janúar 2008 og hefja ferli fyrir úthlutun þessara losunarheimilda til rekstraraðila hverrar stöðvar. Þessi ákvörðun skal tekin a.m.k. 12 mánuðum áður en viðkomandi tímabil hefst og skal hún byggjast á landsbundinni úthlutunaráætlun aðildarríkisins, sem gerð er skv. 9. gr. og í samræmi við 10. gr., að teknu tilhlýðilegu tilliti til athugasemda almennings.
3.     Ákvarðanir, sem teknar eru skv. 1. og 2. mgr., skulu vera í samræmi við kröfur sáttmálans, einkum 87. og 88. gr. hans. Þegar aðildarríki taka ákvörðun um úthlutun skulu þau hafa í huga nauðsyn þess að nýir þátttakendur hafi aðgang að losunarheimildum.
4.     Eigi síðar en 28. febrúar ár hvert skal lögbært yfirvald gefa út hluta af heildarfjölda losunarheimilda fyrir tímabilið sem um getur í 1. eða 2. mgr.

12. gr.
Framsal, innskil og afturköllun losunarheimilda

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að framselja megi losunarheimildir milli:
a)    aðila í Bandalaginu,
b)    aðila í Bandalaginu og í þriðju löndum, þar sem slíkar losunarheimildir eru viðurkenndar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 25. gr., án takmarkana, annarra en þeirra sem fram koma í þessari tilskipun eða eru samþykktar samkvæmt henni.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að losunarheimildir, sem lögbært yfirvald í öðru aðildarríki gefur út, séu viðurkenndar þannig að rekstraraðilar geti uppfyllt skuldbindingar sínar skv. 3. mgr.
3.     Aðildarríki skulu sjá til þess að rekstraraðili hverrar stöðvar skili inn, eigi síðar en 30. apríl ár hvert, fjölda losunarheimilda sem samsvarar losun stöðvarinnar á fyrra almanaksári, eins og sannprófað er í samræmi við 15. gr., og að losunarheimildirnar séu síðan afturkallaðar.
4.     Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að losunarheimildir séu afturkallaðar hvenær sem handhafi þeirra óskar þess.

13. gr.
Gildi losunarheimilda

1.     Losunarheimildir skulu gilda fyrir losun á tímabilinu sem um getur í 1. eða 2. mgr. 11. gr., enda hafi þær verið gefnar út fyrir það tímabil.
2.     Fjórum mánuðum eftir upphaf fyrsta fimm ára tímabilsins, sem um getur í 2. mgr. 11. gr., skal lögbært yfirvald afturkalla losunarheimildir sem ekki eru lengur í gildi og hefur ekki verið skilað inn og afturkallaðar í samræmi við 3. mgr. 12. gr.
Aðildarríkjunum er heimilt að gefa út losunarheimildir til aðila fyrir yfirstandandi tímabil sem komi í stað losunarheimilda sem þeir höfðu en hafa verið afturkallaðar í samræmi við fyrstu undirgrein.
3.     Fjórum mánuðum eftir upphaf hvers síðara fimm ára tímabils, sem um getur í 2. mgr. 11. gr., skal lögbært yfirvald afturkalla losunarheimildir sem ekki eru lengur í gildi og hefur ekki verið skilað inn og afturkallaðar í samræmi við 3. mgr. 12. gr.
Aðildarríkin skulu gefa út losunarheimildir til aðila fyrir yfirstandandi tímabil sem komi í stað losunarheimilda í handhöfn þeirra sem hafa verið afturkallaðar í samræmi við fyrstu undirgrein.

14. gr.
Viðmiðunarreglur um vöktun losunar og skýrslugjöf

1.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja, eigi síðar en 30. september 2003, viðmiðunarreglur um vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda, sem taldar eru upp í tengslum við starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka, og skýrslugjöf um hana í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr. Viðmiðunarreglurnar skulu byggjast á meginreglunum í IV. viðauka um vöktun og skýrslugjöf.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að losun sé vöktuð í samræmi við viðmiðunarreglurnar.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að hver rekstraraðili stöðvar gefi lögbæru yfirvaldi skýrslu um losun stöðvarinnar á almanaksárinu, eftir lok þess, í samræmi við viðmiðunarreglurnar.

15. gr.
Sannprófun

Aðildarríkin skulu sjá til þess að skýrslur, sem rekstraraðilar leggja fram skv. 3. mgr. 14. gr., séu sannprófaðar í samræmi við viðmiðanirnar í V. viðauka og að lögbæru yfirvaldi sé gerð grein fyrir því.
Hafi skýrsla rekstraraðila ekki verið sannprófuð og talin fullnægjandi í samræmi við viðmiðanirnar í V. viðauka fyrir 31. mars ár hvert skulu aðildarríkin sjá til þess að rekstraraðilanum verði ekki heimilt frekara framsal losunarheimilda fyrr en skýrsla frá honum hefur verið sannprófuð og talin fullnægjandi.

16. gr.
Viðurlög

1.     Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn landsbundnum ákvæðum, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og hafa letjandi áhrif. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði, eigi síðar en 31. desember 2003, og skulu tilkynna án tafar um síðari breytingar sem hafa áhrif á þau.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að birt séu nöfn þeirra rekstraraðila sem gera sig seka um brot á kröfum um innskil á nægilega mörgum losunarheimildum skv. 3. mgr. 12. gr.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að hver sá rekstraraðili sem ekki skilar, í síðasta lagi 30. apríl ár hvert, inn nægum losunarheimildum sem svara til losunar á hans vegum á fyrra ári, greiði sekt fyrir umframlosun. Sekt fyrir umframlosun skal vera 100 evrur fyrir hvert tonn af koltvísýringsígildi sem losað er á vegum stöðvarinnar og rekstraraðilinn hefur ekki skilað inn losunarheimildum fyrir. Greiðsla sektar fyrir umframlosun skal ekki leysa rekstraraðila undan þeirri skyldu sinni að skila inn losunarheimildum sem jafngilda umframlosuninni þegar hann skilar inn losunarheimildum í tengslum við næsta almanaksár.
4.     Á þriggja ára tímabili, sem hefst 1. janúar 2005, skulu aðildarríkin innheimta lægri sekt fyrir umframlosun, 40 evrur fyrir hvert tonn af koltvísýringsígildi, sem losað er á vegum stöðvarinnar og sem rekstraraðilinn hefur ekki skilað inn losunarheimildum fyrir. Greiðsla sektar fyrir umframlosun skal ekki leysa rekstraraðila undan þeirri skyldu sinni að skila inn losunarheimildum sem jafngilda umframlosuninni þegar hann skilar inn losunarheimildum í tengslum við næsta almanaksár.

17. gr.
Aðgangur að upplýsingum

Ákvarðanir í tengslum við úthlutun losunarheimilda og skýrslur um losun, sem krafist er í leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda og lögbært yfirvald ræður yfir, skulu gerðar aðgengilegar almenningi með fyrirvara um þær takmarkanir sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 3. gr. og í 4. gr. tilskipunar 2003/4/EB.

18. gr.
Lögbært yfirvald

Aðildarríkin skulu tryggja viðeigandi stjórnsýslufyrirkomulag, m.a. með því að tilgreina viðeigandi, lögbært yfirvald eða yfirvöld, til að hrinda ákvæðum þessarar tilskipunar í framkvæmd. Sé fleiri en eitt lögbært yfirvald tilgreint skal samhæfa verkefni þeirra samkvæmt þessari tilskipun.

19. gr.
Skrár

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að skrá sé komið upp og henni viðhaldið til að tryggja nákvæmt bókhald um útgáfu, handhöfn, framsal og afturköllun losunarheimilda. Aðildarríkjunum er heimilt að halda skrár sínar í samstæðukerfi með öðru aðildarríki eða öðrum aðildarríkjum.
2.     Hvaða aðili sem er getur verið handhafi losunarheimilda. Skráin skal vera aðgengileg almenningi og halda skal sérstakt bókhald til að skrá losunarheimildirnar sem hver aðili, sem fær úthlutað eða lætur frá sér slíkar heimildir eða fær þær framseldar eða framselur, ræður yfir.
3.     Til að hrinda þessari tilskipun í framkvæmd skal framkvæmdastjórnin samþykkja, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr., reglugerð um staðlað og tryggt skráningarkerfi í formi staðlaðs, rafræns gagnagrunns sem geymir almenn gagnastök til að rekja útgáfu, handhöfn, framsal og afturköllun losunarheimilda til að aðgangur almennings sé greiður og þagnarskylda virt eins og við á og til að tryggt sé að framsal brjóti aldrei í bága við skuldbindingar samkvæmt Kýótóbókuninni.

20. gr.
Yfirstjórnandi

1.     Framkvæmdastjórnin skal tilnefna yfirstjórnanda sem heldur óháða viðskiptadagbók þar sem skráð er útgáfa, framsal og afturköllun losunarheimilda.
2.     Með hjálp óháðu viðskiptadagbókarinnar skal yfirstjórnandi hafa sjálfvirkt eftirlit með sérhverri færslu í skránum til að tryggja að ekki sé vikið frá reglum um útgáfu, framsal og afturköllun losunarheimilda.
3.     Komi frávik í ljós við sjálfvirkt eftirlit skal yfirstjórnandi tilkynna það viðkomandi aðildarríki eða aðildarríkjum og skulu þau ekki skrá viðkomandi viðskipti eða önnur viðskipti, sem tengjast þeim losunarheimildum sem um ræðir, fyrr en skýring á frávikunum er fundin.

21. gr.
Skýrslugjöf aðildarríkja

1.     Árlega skulu aðildarríkin gefa framkvæmdastjórninni skýrslu um beitingu þessarar tilskipunar. Í skýrslunni skal sérstakur gaumur gefinn að skipulagi við úthlutun losunarheimilda, skráahaldi, beitingu viðmiðunarreglna um vöktun og skýrslugjöf, sannprófun og að málum sem varða það hvort farið er að ákvæðum tilskipunarinnar og skattalega meðferð losunarheimilda, sé um slíkt að ræða. Fyrsta skýrslan skal send framkvæmdastjórninni eigi síðar en 30. júní 2005. Skýrslan skal samin á grundvelli spurningalista eða eyðublaðs sem framkvæmdastjórnin útbýr í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 6. gr. tilskipunar 91/692/EBE. Senda skal aðildarríkjunum spurningalistann eða eyðublaðið a.m.k. sex mánuðum áður en fresturinn til að skila fyrstu skýrslunni rennur út.
2.     Á grundvelli skýrslnanna, sem um getur í 1. mgr., skal framkvæmdastjórnin birta skýrslu um beitingu þessarar tilskipunar innan þriggja mánaða frá því að hún fær skýrslurnar frá aðildarríkjunum.
3.     Framkvæmdastjórnin skal skipuleggja miðlun upplýsinga milli lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum um þróun mála sem varða úthlutun losunarheimilda, skráahald, vöktun, skýrslugjöf og sannprófun og hvort farið er að ákvæðum.

22. gr.
Breytingar á III. viðauka

Í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 23. gr., er framkvæmdastjórninni heimilt að breyta III. viðauka, að frátöldum 1., 5. og 7. viðmiðun, fyrir tímabilið 2008 til 2012 í ljósi skýrslnanna sem mælt er fyrir um í 21. gr. og reynslunnar af beitingu þessarar tilskipunar.

23. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar sem komið var á fót með 8. gr. ákvörðunar 93/389/ EBE.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar skulu ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar. Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

24. gr.
Málsmeðferð við að taka einhliða með aðra starfsemi og lofttegundir

1.     Frá árinu 2008 er aðildarríkjum heimilt, í samræmi við þessa tilskipun, að láta viðskipti með heimildir til losunar ná til starfsemi, stöðva og gróðurhúsalofttegunda sem ekki eru tilgreindar í I. viðauka, að því tilskildu að framkvæmdastjórnin samþykki að taka með viðkomandi starfsemi, stöðvar og gróðurhúsalofttegundir í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr. og skal taka tillit til allra viðkomandi viðmiðana, einkum áhrifa á innri markaðinn, hugsanlega röskun á samkeppni, heilleika kerfisins í umhverfislegu tilliti og áreiðanleika fyrirhugaðs vöktunar- og skýrslugjafarkerfis.
Frá árinu 2005 er aðildarríkjunum heimilt, samkvæmt sömu skilyrðum, að láta viðskipti með heimildir til losunar ná til stöðva þar sem fram fer starfsemi sem er tilgreind í I. viðauka en er undir þeim mörkum um afkastagetu sem um getur í viðaukanum.
2.     Tilgreina skal úthlutun til stöðva, þar sem slík starfsemi fer fram, í landsbundnu úthlutunaráætluninni sem um getur í 9. gr.
3.     Framkvæmdastjórnin getur, að eigin frumkvæði, eða skal, að beiðni aðildarríkis, samþykkja viðmiðunarreglur um vöktun og skýrslugjöf vegna losunar frá starfsemi, stöðva og gróðurhúsalofttegunda, sem ekki eru tilgreindar í I. viðauka í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr., ef unnt er að vakta losunina og gefa skýrslu um hana með nægilegri nákvæmni.
4.     Séu slíkar ráðstafanir gerðar skal við endurskoðun, sem fram fer skv. 30. gr., einnig hafa í huga hvort breyta skuli I. viðauka þannig að í honum verði losun frá þessari starfsemi tekin með á samræmdan hátt í öllu Bandalaginu.

25. gr.
Tengsl við önnur kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda

1.     Gera skal samninga við þriðju lönd, sem skráð eru í viðauka B við Kýótóbókunina og hafa fullgilt bókunina, um að koma á gagnkvæmri viðurkenningu á losunarheimildum í kerfi Bandalagsins og öðrum kerfum fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda í samræmi við reglurnar sem settar eru fram í 300. gr. sáttmálans.
2.     Þegar samningurinn, sem um getur í 1. mgr., hefur verið gerður skal framkvæmdastjórnin semja nauðsynleg ákvæði, sem varða gagnkvæma viðurkenningu á losunarheimildum samkvæmt þeim samningi, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr.

26. gr.
Breyting á tilskipun 96/61/EB

Eftirfarandi undirgrein bætist við 3. mgr. 9. gr. tilskipunar 96/61/EB:
    „Sé losun gróðurhúsalofttegundar frá stöð tilgreind í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB ( *) í tengslum við starfsemi sem fram fer í stöðinni skal leyfið ekki fela í sér viðmiðunarmark fyrir losun að því er varðar beina losun á þeirri lofttegund, nema nauðsynlegt sé að tryggja að engin veruleg, staðbundin mengun eigi sér stað.
    Þegar um er að ræða starfsemi, sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB, er það undir aðildarríkjunum komið hvort þau setja kröfur um orkunýtni brennslueininga eða annarra eininga sem losa koltvísýring á staðnum.
    Ef nauðsyn krefur skulu lögbær yfirvöld gera breytingar á leyfinu eftir því sem við á.
    Undirgreinarnar þrjár hér að framan gilda ekki um stöðvar sem falla tímabundið ekki undir kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins í samræmi við 27. gr. tilskipunar 2003/87/EB.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *) Stjtíð. ESB L 275, 25.10.2003, bls. 32.“

27. gr.
Tímabundin útilokun tiltekinna stöðva

1.     Aðildarríkin geta sótt um það til framkvæmdastjórnarinnar að stöðvar séu útilokaðar um tíma, til 31. desember 2007, frá kerfi Bandalagsins. Tilgreina skal allar slíkar stöðvar í umsóknunum sem skulu birtar.
2.     Ákveði framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr. og eftir að hafa tekið til athugunar allar athugasemdir almennings um umsóknina, að stöðvarnar skuli:
a)    takmarka losun sína, samkvæmt landsbundinni stefnu, jafnmikið og þær hefðu gert ef þær féllu undir ákvæði þessarar tilskipunar,
b)    lúta kröfum um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun sem eru jafngildar þeim sem kveðið er á um í 14. og 15. gr. og
c)    sæta viðurlögum, a.m.k. jafngildum þeim sem um getur í 1. og 4. mgr. 16. gr., séu landsbundnar kröfur ekki uppfylltar,
skal hún kveða á um útilokun þessara stöðva um tíma frá kerfi Bandalagsins.
Tryggja verður að engin röskun verði á innri markaðnum.

28. gr.
Myndun hóps

1.     Aðildarríkin geta heimilað rekstraraðilum stöðva, þar sem fram fer starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka, að mynda hóp um stöðvar sem reka sams konar starfsemi á tímabilinu sem um getur í 1. mgr. 11. gr. og/eða á fyrsta fimm ára tímabilinu sem um getur í 2. mgr. 11. gr. í samræmi við ákvæði 2.–6. mgr. þessarar greinar.
2.     Rekstraraðilar, sem hafa með höndum starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka og óska eftir að mynda hóp, skulu sækja um það til lögbærs yfirvalds, tilgreina stöðvarnar og tímabilið sem óskað er eftir að hópurinn taki til og leggja fram sönnun þess að fulltrúi hópsins geti uppfyllt skuldbindingarnar sem um getur í 3. og 4. mgr.
3.     Rekstraraðilar, sem óska eftir því að stofna til hóps, skulu tilnefna fulltrúa hópsins sem:
a)    fær útgefið á sig allar þær heimildir sem reiknaðar hafa verið á hverja stöð rekstraraðilanna, þrátt fyrir ákvæði 11. gr.
b)    ber ábyrgð á innskilum losunarheimilda sem jafngilda heildarlosun stöðvanna í hópnum, þrátt fyrir ákvæði e-liðar 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 12. gr. og
c)    hefur ekki rétt til að annast frekara framsal ef skýrsla rekstraraðila hefur ekki verið sannprófuð og talin fullnægjandi í samræmi við aðra málsgrein 15. gr.
4.     Fulltrúi hópsins skal sæta viðeigandi viðurlögum brjóti hann í bága við kröfur um innskil nægilegra margra losunarheimilda sem svara til heildarlosunar stöðvanna í hópnum, þrátt fyrir ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 16. gr.
5.     Aðildarríki, sem óskar þess að heimila myndun eins eða fleiri hópa, skal leggja umsóknina, sem um getur í 2. mgr., fyrir framkvæmdastjórnina. Innan þriggja mánaða frá móttöku umsóknar getur framkvæmdastjórnin, með fyrirvara um ákvæði sáttmálans, hafnað umsókn sem uppfyllir ekki kröfur þessarar tilskipunar. Rök skulu færð fyrir slíkri ákvörðun. Þegar um synjun er að ræða getur aðildarríkið því aðeins heimilað myndun hópsins að framkvæmdastjórnin samþykki fyrirhugaðar breytingar.
6.     Hlíti fulltrúi hópsins ekki viðurlögunum, sem um getur í 4. mgr., skulu einstakir rekstraraðilar stöðvanna í hópnum bera ábyrgð á losun frá stöðvum sínum skv. 3. mgr. 12. gr. og 16. gr.

29. gr.
Óviðráðanleg atvik

1.     Á tímabilinu, sem um getur í 1. mgr. 11. gr., geta aðildarríkin sótt um það til framkvæmdastjórnarinnar að gefnar verði út viðbótarlosunarheimildir til handa tilgreindum stöðvum ef um er að ræða óviðráðanleg atvik. Framkvæmdastjórnin skal ákvarða hvort sýnt hafi verið fram á að um óviðráðanlegt atvik sé að ræða og reynist svo vera skal hún leyfa úthlutun óframseljanlegra viðbótarlosunarheimilda á vegum aðildarríkisins til rekstraraðila stöðvanna.
2.     Með fyrirvara um sáttmálann skal framkvæmdastjórnin, eigi síðar en 31. desember 2003, semja leiðbeiningar um þær kringumstæður sem teljast vera óviðráðanleg atvik.

30. gr.
Endurskoðun og frekari þróun

1.     Á grundvelli árangurs sem náðst hefur í vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda er framkvæmdastjórninni heimilt að leggja tillögu fyrir Evrópuþingið og ráðið eigi síðar en 31. desember 2004 um breytingar á I. viðauka þannig að hann taki til annarrar starfsemi og losunar á öðrum gróðurhúsalofttegundum sem tilgreindar eru í II. viðauka.
2.     Á grundvelli reynslunnar af beitingu þessarar tilskipunar og þeirra framfara sem orðið hafa við vöktun á gróðurhúsalofttegundum og í ljósi þróunar í alþjóðlegu samhengi skal framkvæmdastjórnin semja skýrslu um beitingu tilskipunarinnar, þar sem fram komi eftirfarandi:
a)    hvort og hvernig breyta skuli I. viðauka þannig að hann nái yfir aðra geira sem máli skipta, m.a. efna- og áliðnað og flutningageirann, aðra starfsemi og losun annarra gróðurhúsalofttegunda sem tilgreindar eru í II. viðauka, með það í huga að auka enn frekar efnahagslega skilvirkni kerfisins,
b)    tengsl kerfis Bandalagsins fyrir viðskipti með losunarheimildir við alþjóðaviðskipti með losunarheimildir sem hefjast á árinu 2008,
c)    frekari samhæfing úthlutunaraðferða (þ.m.t. uppboð fyrir tímabilið eftir 2012) og viðmiðana fyrir landsbundnu úthlutunaráætlanirnar sem um getur í III. viðauka,
d)    nýting inneigna sem tengjast verkefniskerfunum (project mechanisms),
e)    tengsl viðskipta með losunarheimildir við önnur stefnumið og aðrar ráðstafanir sem gerðar eru á vettvangi aðildarríkjanna og Bandalagsins, þ.m.t. skattlagning, þar sem stefnt er að sömu markmiðum,
f)    hvort heppilegt sé að halda eina skrá fyrir allt Bandalagið,
g)    upphæð sekta fyrir umframlosun, þar sem m.a. er tekið tillit til verðbólgu,
h)    starfsemi markaðarins með losunarheimildir, einkum að því er varðar hugsanlega markaðsröskun,
i)    hvernig laga skal kerfi Bandalagsins að Evrópusambandinu eftir stækkun þess,
j)    myndun hóps,
k)    hagkvæmni þess að setja viðmiðanir fyrir allt Bandalagið, sem séu grundvöllur úthlutana, þar sem tillit er tekið til fullkomnustu tækni, sem völ er á, og kostnaðar- og ábatagreiningar. Framkvæmdastjórnin skal leggja þessa skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið eigi síðar en 30. júní 2006, ásamt tillögum eftir því sem við á.
3.     Tenging verkefnismiðuðu kerfanna (project- based mechanisms), þ.m.t. kerfi sameiginlegrar framkvæmdar (JI) og kerfi hreinleikaþróunar (CDM), við kerfi Bandalagsins er æskileg og mikilvæg til að ná bæði þeim markmiðum að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og að kerfi Bandalagsins verði kostnaðarhagkvæmara en áður. Því verður inneign losunarheimilda, sem tengist verkefnismiðuðu kerfunum, viðurkennd til notkunar í þessu kerfi, með fyrirvara um ákvæði sem Evrópuþingið og ráðið hafa samþykktu að tillögu framkvæmdastjórnarinnar sem verða í gildi samhliða kerfi Bandalagsins árið 2005. Notkun kerfanna skal koma til viðbótar aðgerðum heima fyrir í samræmi við viðeigandi ákvæði Kýótóbókunarinnar og Marakess-samninganna.

31. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. desember 2003. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna hinum aðildarríkjunum um þessi lög og stjórnsýslufyrirmæli.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna það hinum aðildarríkjunum.

32. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

33. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Lúxemborg 13. október 2003.
    Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,
    P. COX     G. ALEMANNO
    forseti.     forseti.


I. VIÐAUKI
FLOKKAR STARFSEMI SEM UM GETUR Í 2. GR. (1. MGR.), 3. GR., 4. GR., 14. GR. (1. MGR.), 28. GR. OG 30. GR.

1.    Stöðvar, eða hlutar þeirra, þar sem stundaðar eru rannsóknir, þróun og prófun á nýjum vörum og aðferðum falla ekki undir þessa tilskipun.
2.    Markgildin hér á eftir eiga almennt við um framleiðslugetu eða -afköst. Ef sami aðili rekur margs konar starfsemi, sem fellur undir sama lið, í sömu stöð eða á sama stað er afkastagetan í þessari starfsemi lögð saman.
Starfsemi Gróðurhúsalofttegundir
Orkustarfsemi
Brennslustöðvar með nafnvarmaafli yfir 20 MW (að frátöldum stöðvum þar sem hættulegum úrgangi eða sorpi er brennt) Koltvísýringur
Hreinsistöðvar jarðolíu Koltvísýringur
Koksofnar Koltvísýringur
Framleiðsla og vinnsla járns
Stöðvar þar sem málmgrýti (þ.m.t. brennisteinsgrýti) er hreinsað með bruna eða glæðingu Koltvísýringur
Stöðvar þar sem hrájárn eða stál er framleitt (fyrsta eða önnur bræðsla), með tilheyrandi samfelldri málmsteypu, og sem hafa meiri afkastagetu en 2,5 tonn á klukkustund Koltvísýringur
Jarðefnaiðnaður
Stöðvar þar sem sementsgjall er framleitt í hverfiofnum sem geta afkastað meira en 500 tonnum á dag eða kalk er framleitt í hverfiofnum sem geta afkastað meira en 50 tonnum á dag eða í öðrum ofnum sem geta afkastað meira en 50 tonnum á dag Koltvísýringur
Stöðvar þar sem framleiðsla glers, einnig glertrefja, fer fram og sem geta brætt meira en 20 tonn á dag Koltvísýringur
Stöðvar þar sem framleiðsla leirvara fer fram með brennslu, einkum þakflísa, múrsteina, eldfastra múrsteina, flísa, leirmuna eða postulíns, og sem geta framleitt meira en 75 tonn á dag og/eða rúmtak ofns er meira en 4 m³ og setþéttleiki hans er meiri en 300 kg/m³ Koltvísýringur
Önnur starfsemi
Iðjuver sem framleiða
a)     deig úr viði eða önnur trefjaefni
Koltvísýringur
b)     pappír og pappa og geta framleitt meira en 20 tonn á dag Koltvísýringur

II. VIÐAUKI
GRÓÐURHÚSALOFTTEGUNDIR SEM UM GETUR Í 3. OG 30. GR.

Koltvísýringur (CO 2)
Metan (CH 4)
Nituroxíð (N 2O)
Vetnisflúorkolefni (HFC)
Perflúorkolefni (PFC)
Brennisteinshexaflúoríð (SF 6)

III. VIÐAUKI
VIÐMIÐANIR FYRIR LANDSBUNDNAR ÚTHLUTUNARÁÆTLANIR SEM UM GETUR Í 9., 22. OG 30. GR.

1.    Heildarfjöldi losunarheimilda til úthlutunar á því tímabili sem um ræðir skal vera í samræmi við skuldbindingu aðildarríkisins um að takmarka losun sína samkvæmt ákvörðun 2002/358/EB og Kýótóbókuninni, og skal annars vegar taka tillit til þess hlutfalls heildarlosunar sem þessar losunarheimildir svara til í samanburði við losun frá orkugjöfum sem ekki falla undir þessa tilskipun og hins vegar til landsbundinnar orkustefnu, og skal vera í samræmi við landsbundna áætlun um loftslagsbreytingar. Heildarfjöldi losunarheimilda til úthlutunar skal ekki vera meiri en líklegt er að hann þurfi að vera til að viðmiðunum þessa viðauka sé fylgt af ítrustu nákvæmni. Fyrir tímabilið fram til ársins 2008 skal fjöldinn miðast við þá viðleitni að ná eða fara fram úr því markmiði sem hvert aðildarríki hefur sett sér samkvæmt ákvörðun 2002/358/EB og Kýótóbókuninni.
2.    Heildarfjöldi losunarheimilda til úthlutunar skal vera í samræmi við mat á raunverulegum og áætluðum árangri aðildarríkjanna við að uppfylla skuldbindingarnar sem Bandalagið tókst á hendur samkvæmt ákvörðun 93/389/EB.
3.    Fjöldi losunarheimilda til úthlutunar skal vera í samræmi við getu starfseminnar, m.a. tæknilega getu, sem fellur undir þetta kerfi, til að draga úr losun. Aðildarríkjum er heimilt að byggja dreifingu losunarheimilda á meðallosun gróðurhúsalofttegunda fyrir hverja framleiðsluvöru í hverri starfsemi og þann árangur sem unnt er að ná í hverri starfsemi.
4.    Áætlunin skal vera í samræmi við aðra lagagerninga og stefnumótandi gerninga Bandalagsins. Taka skal tillit til óhjákvæmilegrar aukningar á losun í kjölfar nýrra, lagalegra krafna.
5.    Í samræmi við kröfur sáttmálans, einkum 87. og 88. gr., skal í áætluninni hvorki mismuna fyrirtækjum né geirum þannig að tilteknum fyrirtækjum eða tegundum starfsemi sé ívilnað á óréttmætan hátt.
6.    Í áætluninni skulu koma fram upplýsingar um það hvernig nýir þátttakendur geta gerst aðilar að kerfi Bandalagsins í viðkomandi aðildarríki.
7.    Í áætluninni er heimilt að taka tillit til fyrri aðgerða og í henni skulu koma fram upplýsingar um hvernig það er gert. Við gerð landsbundinnar úthlutunaráætlunar er aðildarríkjunum heimilt að nota viðmiðanir úr tilvísunarskjölum um fullkomnustu tækni sem völ er á og þær viðmiðanir geta falið í sér þætti úr fyrri aðgerðum sem tillit er tekið til.
8.    Í áætluninni skulu koma fram upplýsingar um hvernig skuli tekið tillit til hreinnar tækni, m.a. orkunýtinnar tækni.
9.    Í áætluninni skulu vera ákvæði um það hvernig almenningur getur komið athugasemdum á framfæri og upplýsingar um það hvernig viðeigandi tillit verður tekið til þeirra áður en ákvörðun um úthlutun losunarheimilda er tekin.
10.    Í áætluninni skal vera skrá yfir stöðvar sem falla undir þessa tilskipun ásamt fjölda losunarheimilda sem ætlunin er að úthluta hverri þeirra.
11.    Í áætluninni geta komið fram upplýsingar um hvernig skuli tekið tillit til samkeppni frá löndum eða aðilum utan Sambandsins.

IV. VIÐAUKI
MEGINREGLUR UM VÖKTUN OG SKÝRSLUGJÖF SEM UM GETUR Í 1. MGR. 14. GR.

Vöktun á losun koltvísýrings
Vakta skal losun, annaðhvort með útreikningum eða á grundvelli mælinga.
Útreikningar
Losunin skal reiknuð út með eftirfarandi formúlu:

Gögn um starfsemi . losunarstuðull . oxunarstuðull

Gögn um starfsemi (notað eldsneyti, framleiðsluafköst o.s.frv.) skulu vöktuð á grundvelli gagna um aðföng eða mælinga.
Nota skal viðurkennda losunarstuðla. Fyrir allt eldsneyti má nota losunarstuðla sem eru sértækir fyrir tiltekna starfsemi. Nota má sjálfgefna stuðla fyrir allt eldsneyti nema það sem ekki er notað í atvinnuskyni (úrgangseldsneyti á borð við hjólbarða og gas frá iðnframleiðslu). Útfæra skal nánar lagbundna stuðla fyrir kol og ESB-sértæka stuðla eða sértæka stuðla framleiðslulands fyrir jarðgas. Fyrir afurðir frá hreinsunarstöðvum má nota sjálfgefna stuðla milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar (IPCC). Losunarstuðull fyrir lífmassa skal vera núll.
Ef ekki er tekið tillit til þess í losunarstuðlinum að hluti kolefnisins oxast ekki skal einnig nota oxunarstuðul. Hafi losunarstuðlar, sem eru sértækir fyrir tiltekna starfsemi, verið reiknaðir út og tillit hefur verið tekið til oxunar þarf ekki að nota oxunarstuðul.
Nota skal sjálfgefna oxunarstuðla samkvæmt tilskipun 96/61/EB nema rekstraraðilinn geti sýnt fram á að stuðlar, sem eru sértækir fyrir tiltekna starfsemi, séu nákvæmari.
Sérstakir útreikningar skulu gerðir fyrir hverja starfsemi, hverja stöð og hverja tegund eldsneytis.
Mæling
Við mælingar á losun skal nota staðlaðar eða viðurkenndar aðferðir og skulu mælingarnar studdar útreikningum á losun.
Vöktun á losun annarra gróðurhúsalofttegunda
Nota skal staðlaðar eða viðurkenndar aðferðir sem þróaðar hafa verið af framkvæmdastjórninni í samstarfi við alla viðkomandi hagsmunaaðila og samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr.
Skýrslugjöf um losun
Hver rekstraraðili skal láta eftirfarandi upplýsingar koma fram í skýrslu um stöð:
A.     auðkennisgögn um stöðina, þ.m.t.:
    —     heiti stöðvarinnar,
    —     heimilisfang hennar, þ.m.t. póstnúmer og land,
    —     tegund og númer starfsemi í I. viðauka sem fram fer í stöðinni,
    —     heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og netfang tengiliðar og
    —     heiti eiganda stöðvarinnar og móðurfélags, ef við á,
B.    fyrir hverja starfsemi, sem tilgreind er í I. viðauka, sem fram fer á staðnum og þar sem losun er reiknuð út:
    —     gögn um starfsemi,
    —     losunarstuðlar,
    —     oxunarstuðlar,
    —     heildarlosun og
    —     óvissa,
C.     fyrir hverja starfsemi, sem tilgreind er í I. viðauka, sem fram fer á staðnum og þar sem losun er mæld:
    —     heildarlosun,
    —     upplýsingar um áreiðanleika mæliaðferðanna og
    —     óvissa,
D.    að því er varðar losun frá brennslu skal oxunarstuðullinn einnig koma fram í skýrslunni nema þegar hafi verið tekið tillit til oxunar þegar sértæki losunarstuðullinn fyrir tiltekna starfsemi var ákvarðaður.
Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að samræma kröfur um skýrslugjöf öllum öðrum gildandi kröfum er varða skýrslugjöf í því skyni að halda skýrslugjafarbyrði fyrirtækja í lágmarki.


V. VIÐAUKI
VIÐMIÐANIR FYRIR SANNPRÓFUN SEM UM GETUR Í 15. GR.

Almennar meginreglur
    1.    Sannprófa skal losun frá allri starfsemi sem skráð er í I. viðauka.
    2.    Í sannprófunarferlinu skal taka tillit til skýrslunnar sem samin var skv. 3. mgr. 14. gr. og til vöktunar á fyrra ári. Það skal byggjast á áreiðanleika, trúverðugleika og nákvæmni vöktunarkerfanna og þeim gögnum og upplýsingum sem lögð hafa verið fram um losun, einkum:
        a)    gögnum, sem gefin eru upp um viðkomandi starfsemi, og tilheyrandi mælingum og útreikningum,
        b)    vali og notkun losunarstuðla,
        c)    útreikningum til ákvörðunar á heildarlosun og
        d)    hversu viðeigandi valið sé og notkun mæliaðferða, ef mæling er notuð.
    3.    Einungis má fullgilda uppgefna losun ef unnt er að ákvarða hana með mjög mikilli vissu út frá áreiðanlegum og trúverðugum gögnum og upplýsingum. Mjög mikil vissa felur í sér að rekstraraðilinn þarf að sýna fram á:
        a)    að ekkert ósamræmi sé í uppgefnum gögnum,
        b)    að gagna hafi verið aflað í samræmi við viðeigandi vísindalegar kröfur og
        c)    að viðeigandi skrár um stöðina séu innbyrðis samkvæmar og ekkert vanti í þær.
    4.    Sannprófandinn skal hafa aðgang að öllum stöðum og upplýsingum sem varða viðfangsefni sannprófunarinnar.
    5.    Sannprófandinn skal taka tillit til þess hvort stöðin er skráð samkvæmt umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS).
Aðferðafræði
Skipuleg greining
    6.    Sannprófunin skal byggjast á skipulegri greiningu á allri starfsemi sem fram fer í stöðinni. Sannprófandinn verður þar af leiðandi að hafa sýn yfir alla starfsemi og mikilvægi hennar í tengslum við losun.
    Greining á vinnsluferli
    7.    Sannprófun á upplýsingunum, sem lagðar eru fram, skal fara fram á staðnum þar sem stöðin er, eftir því sem við á. Sannprófandinn skal beita skyndikönnunum til að ákvarða áreiðanleika uppgefinna gagna og upplýsinga.
    Áhættugreining
    8.    Sannprófandinn skal meta upptök allrar losunar í stöðinni til að meta áreiðanleika gagnanna um hlutdeild hverra upptaka í heildarlosun stöðvarinnar.
    9.    Á grundvelli þessarar greiningar skal sannprófandinn tilgreina á skýran hátt þau upptök þar sem hætta á skekkju er mikil og aðra þætti vöktunar- og skýrslugjafarferlisins sem geta stuðlað að skekkju við ákvörðun á heildarlosuninni. Þetta á sérstaklega við um val á losunarstuðlum og nauðsynlega útreikninga til að ákvarða losun frá hverjum upptakastað. Sérstakri athygli skal beint að upptökum þar sem hætta á skekkju er mikil og að fyrrnefndum þáttum vöktunarferlisins.
    10.    Sannprófandinn skal taka tillit til hvers kyns skilvirkra áhættustjórnunaraðferða sem rekstraraðilinn hefur beitt í því skyni að draga úr óvissu eins og framast er kostur.
    Skýrsla
    11.    Sannprófandinn skal skrifa skýrslu um fullgildingarferlið þar sem fram kemur hvort skýrslan skv. 3. mgr. 14. gr. er fullnægjandi. Í skýrslunni skal tilgreina öll atriði sem varða það starf sem unnið er. Heimilt er gefa yfirlýsingu þess efnis að skýrslan skv. 3. mgr. 14. gr. sé fullnægjandi ef sannprófandinn telur að ekki sé um að ræða rangfærslur að því er varðar heildarlosunina.
Lágmarkskröfur um hæfni sannprófanda
    12.    Sannprófandinn skal vera óháður rekstraraðilanum, sinna starfi sínu á traustan og fagmannlegan hátt og kunna skil á eftirfarandi:
        a)    ákvæðum þessarar tilskipunar, svo og tilheyrandi stöðlum og leiðbeiningum sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt skv. 1. mgr. 14. gr.,
        b)    lagalegum kröfum, kröfum samkvæmt reglum og stjórnsýslukröfum sem varða þá starfsemi sem sannprófuð er og
        c)    öflun allra upplýsinga sem tengjast einstökum upptökum losunar í stöðinni, einkum um söfnun, mælingu og útreikninga gagna og skýrslugjöf um þau.
Fylgiskjal III.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2004/101/EB
frá 27. október 2004
um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins að því er varðar verkefniskerfi Kýótóbókunarinnar
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 13 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 14 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Með tilskipun 2003/87/EB ( 15 ) er komið á fót kerfi til að eiga viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins (kerfi Bandalagsins) til að stuðla að því að dregið verði úr losun þeirra á kostnaðarhagkvæman og efnahagslega skilvirkan hátt og þar er viðurkennt að þegar til lengri tíma er litið þurfi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum um u.þ.b. 70% miðað við gildi ársins 1990. Markmiðið með tilskipuninni er að stuðla að því að uppfylla skuldbindingar Bandalagsins og aðildarríkja þess um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum samkvæmt Kýótóbókuninni sem var samþykkt með ákvörðun ráðsins 2002/358/EB frá 25. apríl 2002 um samþykki Kýótóbókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, fyrir hönd Evrópubandalagsins, og sameiginlega uppfyllingu á skuldbindingum samkvæmt þeim ( 16 ).
2)          Í tilskipun 2003/87/EB er því lýst yfir að viðurkenning á inneignum frá verkefnismiðuðum kerfum (project-based mechanisms) til að uppfylla skuldbindingar frá og með árinu 2005 muni auka kostnaðarhagkvæmni þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og að setja skuli reglur um að tengja saman verkefnismiðuð kerfi Kýótóbókunarinnar, þ.m.t. kerfi sameiginlegrar framkvæmdar (JI) og kerfi hreinleikaþróunar (CDM), við kerfi Bandalagsins.
3)          Með því að tengja verkefnismiðuð kerfi Kýótóbókunarinnar við kerfi Bandalagsins, og vernda jafnframt heilleika síðarnefnda kerfisins í umhverfislegu tilliti, gefst tækifæri til að nýta inneignir losunarheimilda, sem til urðu skv. 6. og 12. gr. Kýótóbókunarinnar, í því skyni að uppfylla skuldbindingar aðildarríkjanna í samræmi við 3. mgr. 12. gr. tilskipunar 2003/87/EB. Þannig fjölgar kostunum í kerfi Bandalagsins um að uppfylla skuldbindingar án mikils kostnaðar og þar með minnkar heildarkostnaðurinn við að fara að Kýótóbókuninni en jafnframt batnar aðgengi að heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda á markaði Bandalagsins. Með því að auka spurn eftir inneignum vegna kerfis sameiginlegrar framkvæmdar munu fyrirtæki í Bandalaginu fjárfesta í þróun og miðlun háþróaðrar og umhverfisvænnar tækni og verkkunnáttu. Spurn eftir inneign í kerfi hreinleikaþróunar kemur einnig til með að aukast og stuðlar þannig að því að þróunarlönd, þar sem verkefni á því sviði eru unnin, nái markmiðum sínum um sjálfbæra þróun.
4)          Verkefnismiðuð kerfi Kýótóbókunarinnar, sem Bandalagið og aðildarríki þess nota, auk fyrirtækja og einstaklinga utan kerfis Bandalagsins, skulu tengjast kerfi Bandalagsins þannig að tryggt sé að kerfin séu í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og Kýótóbókunina og síðari ákvarðanir sem hafa verið samþykktar samkvæmt þeim, og þau skulu auk þess samræmast markmiðum og uppbyggingu kerfis Bandalagsins og ákvæðum sem mælt er fyrir um í tilskipun 2003/87/EB.
5)          Aðildarríkin geta heimilað rekstraraðilum að nota einingar vottaðrar losunarskerðingar (CER) frá 2005 og losunarskerðingareiningar (ERU) frá 2008 innan kerfis Bandalagsins. Rekstraraðilum er heimilt að nýta einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar frá 2008 að tilteknum hundraðshluta af úthlutun hverrar stöðvar og skal hvert aðildarríki tilgreina þann hluta í landsbundinni úthlutunaráætlun sinni. Notkunin á sér stað við útgáfu og tafarlaus innskil einnar losunarheimildar í skiptum fyrir eina einingu vottaðrar losunarskerðingar eða eina losunarskerðingareiningu. Losunarheimild, sem gefin er út í skiptum fyrir eina einingu vottaðrar losunarskerðingar eða losunarskerðingareiningu, svarar til þeirrar einu einingu vottaðrar losunarskerðingar eða losunarskerðingareiningarinnar.
6)          Í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um staðlað og tryggt skráningarkerfi, sem samþykkja skal skv. 3. mgr. 19. gr. tilskipunar 2003/87/ EB og 1. mgr. 6. gr. ákvörðunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB frá 11. febrúar 2004 um kerfi til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda í Bandalaginu og um framkvæmd Kýótóbókunarinnar ( 17 ), verður kveðið á um viðeigandi starfshætti og vinnu- og verklagsreglur í skráningarkerfinu að því er varðar notkun eininga vottaðrar losunarskerðingar á tímabilinu 2005 til 2007 og tímabilunum þar á eftir og notkun losunarskerðingareininga á tímabilinu 2008 til 2012 og tímabilunum þar á eftir.
7)          Hvert aðildarríki ákvarðar takmörk fyrir notkun eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga frá starfsemi sem er rekin á grundvelli verkefnistengdu aðgerðanna (project activities), að teknu tilhlýðilegu tilliti til viðeigandi ákvæða Kýótóbókunarinnar og Marakess-samninganna, til að fullnægja kröfum um að notkun kerfanna (mechanisms) komi til viðbótar aðgerðum heima fyrir. Aðgerðir heima fyrir verða þar með umtalsverður þáttur átaksins sem hrundið verður í framkvæmd.
8)          Í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókunina og síðari ákvarðanir, sem hafa verið samþykktar samkvæmt þeim, skulu aðildarríkin ekki nota einingar vottaðrar losunarskerðingar eða losunarskerðingareiningar frá kjarnorkustöðvum til að uppfylla skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. 3. gr. Kýótóbókunarinnar og samkvæmt ákvörðun 2002/258/EB.
9)          Í ákvörðunum 15/CP.7 og 19/CP.7, sem samþykktar voru samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar og Kýótóbókuninni, er áhersla lögð á að heilleika verði náð í umhverfislegu tilliti, m.a. með traustu fyrirkomulagi, reglum og leiðbeiningum um kerfin, og með traustum og ströngum meginreglum og reglum um landnotkun, breytta notkun lands og skógræktarstarfsemi og að taka skuli tillit til vandamála í tengslum við óstöðugleika, viðbótargildi (additionality), lekafar (leakage) og óvissu og félagshagfræðileg og umhverfisleg áhrif, þ.m.t. áhrif á líffræðilega fjölbreytni og náttúruleg vistkerfi, sem tengjast verkefnismiðuðum aðgerðum á sviði nýskógræktar og endurræktunar skóga. Við endurskoðun tilskipunar 2003/87/EB skal framkvæmdastjórnin hafa í huga tækniákvæði um að inneignir skuli vera til bráðabirgða og um 1% mörk aðgangs að verkefnismiðuðum aðgerðum á sviði landnotkunar, breyttrar notkunar lands og skógræktar sem fastsett voru í ákvörðun 17/CP.7, auk ákvæða um niðurstöðu mats á hugsanlegri áhættu sem tengist notkun erfðabreyttra lífvera og framandi tegunda lífvera sem gætu verið ágengar í verkefnismiðuðum aðgerðum í nýskógrækt og endurræktun skóga, til að gera rekstraraðilum kleift að nýta einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar frá verkefnismiðuðum aðgerðum á sviði landnotkunar, breyttrar notkunar lands og skógræktar í kerfi Bandalagsins frá 2008 í samræmi við ákvarðanir sem samþykktar eru samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eða Kýótóbókuninni.
10)          Til þess að komast hjá því að tvíreikna skal ekki gefa út einingar vottaðrar losunarskerðingar eða losunarskerðingareiningar frá verkefnismiðuðum aðgerðum innan Bandalagsins sem einnig verða til þess að draga úr eða takmarka losun frá stöðvum, sem falla undir tilskipun 2003/87/EB, nema jafnmargar losunarheimildir séu afturkallaðar af skrá aðildarríkisins þar sem einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningarnar eru upprunnar.
11)          Í samræmi við viðeigandi aðildarsáttmála skal tekið tillit til réttarreglna Bandalagsins þegar fastsettar eru grundvallarviðmiðanir fyrir verkefnismiðaðar aðgerðir sem fram fara í löndum sem gerast aðilar að Sambandinu.
12)          Aðildarríki, sem heimilar einkaaðila eða opinberum aðila að taka þátt í verkefnismiðuðum aðgerðum, ber ábyrgð á því að skuldbindingar þess samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókuninni séu uppfylltar og skal því sjá til þess að slík þátttaka sé í samræmi við tilheyrandi viðmiðunarreglur, fyrirkomulag og verklagsreglur sem samþykktar hafa verið samkvæmt rammasamningnum eða Kýótóbókuninni.
13)          Í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, Kýótóbókunina og síðari ákvarðanir, sem hafa verið samþykktar til framkvæmdar þeim, skulu framkvæmdastjórnin og aðildarríkin styðja aðgerðir til uppbyggingar færni í þróunarlöndum og löndum með umbreytingarhagkerfi í því skyni að aðstoða þau við að nýta sér kerfi sameiginlegrar framkvæmdar og kerfi hreinleikaþróunar til fulls á þann hátt sem hæfir áætlunum þeirra um sjálfbæra þróun. Framkvæmdastjórnin skal endurskoða hvers kyns frumkvæði sem gert er í þessu skyni og leggja fram skýrslu um það.
14)          Í skýrslu sinni „Dams and Development A New Framework for Decision-Making“ frá því í nóvember 2000 hefur heimsnefndin um stíflur (World Commission on Dams), ásamt Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og Alþjóðabankanum, sett viðmiðanir og viðmiðunarreglur sem skipta máli við mat á því hvort verkefni á sviði vatnsorkuframleiðslu hafi neikvæð umhverfisáhrif eða félagsleg áhrif.
15)          Þar eð þátttaka í kerfi sameiginlegrar framkvæmdar og kerfi hreinleikaþróunar er frjáls skal auka umhverfis- og félagslega ábyrgð og skyldur fyrirtækja í samræmi við 17. mgr. áætlunarinnar um framkvæmd leiðtogafundarins um sjálfbæra þróun. Í þessu samhengi skulu fyrirtæki hvött til að bæta árangur, með tilliti til umhverfis og félagslegra þátta, af verkefnunum í kerfi sameiginlegrar framkvæmdar og kerfi hreinleikaþróunar sem þau taka þátt í.
16)          Upplýsingar um verkefnismiðaðar aðgerðir, sem aðildarríki tekur þátt í eða heimilar einkaaðilum eða opinberum aðilum að taka þátt í, skulu gerðar aðgengilegar almenningi í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál ( 18 ).
17)          Framkvæmdastjórninni er heimilt að nefna áhrif á rafmagnsmarkaðinn í skýrslum sínum um viðskipti með heimildir til losunar og notkun inneigna úr verkefnismiðuðum aðgerðum.
18)          Eftir gildistöku Kýótóbókunarinnar skal framkvæmdastjórnin kanna hvort unnt sé að gera samning við lönd, sem tilgreind eru í viðauka B við Kýótóbókunina og hafa enn ekki fullgilt bókunina, um gagnkvæma viðurkenningu á því að koma megi á viðskiptum með losunarheimildir milli kerfis Bandalagsins og bindandi kerfa um viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda sem takmarka heildarlosunina sem hefur verið fastsett fyrir þessi lönd.
19)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð því markmiði hvert fyrir sig sem fyrirhugaðar aðgerðir fela í sér, þ.e. að koma á fót tengingu milli verkefnismiðaðra kerfa Kýtótóbókunarinnar og kerfis Bandalagsins, og þar eð auðveldara er að ná markmiðunum á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, sem sett er fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi því markmiði.
20)          Breyta ber tilskipun 2003/87/EB til samræmis við þetta,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Breytingar á tilskipun 2003/87/EB

Tilskipun 2003/87/EB er breytt sem hér segir:
1.     Eftirfarandi liðir bætast við 3. gr.:
    „k)    „aðili að I. viðauka“: aðili sem er tilgreindur í I. viðauka við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og hefur fullgilt Kýótóbókunina eins og tilgreint er í 7. mgr. 1. gr. Kýótóbókunarinnar,
    l)    „verkefnistengd aðgerð“: aðgerð í tengslum við verkefni sem einn eða fleiri aðilar, sem eru tilgreindir í I. viðauka í samræmi við 6. eða 12. gr. Kýótóbókunarinnar, hafa samþykkt og ákvarðanirnar sem samþykktar eru samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eða Kýótóbókuninni,
    m)    „losunarskerðingareining (emission reduction unit, ERU)“: eining sem gefin er út skv. 6. gr. Kýótóbókunarinnar og ákvörðununum sem samþykkar eru samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eða Kýótóbókuninni,
    n)    „eining vottaðrar losunarskerðingar (certified emission reduction, CER)“: eining sem gefin er út skv. 12. gr. Kýótóbókunarinnar og ákvörðununum sem samþykktar eru samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eða Kýótóbókuninni.“
2.     Eftirfarandi greinar bætist við á eftir 11. gr.:
     „11. gr. a
     Notkun eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga frá verkefnisaðgerðum í kerfi Bandalagsins
    1.     Á hverju þeirra tímabila, sem um getur í 2. mgr. 11. gr., geta aðildarríkin, með fyrirvara um 3. mgr., heimilað rekstraraðilum að nota einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar frá verkefnisaðgerðum í kerfi Bandalagsins sem nemur tilteknum hundraðshluta af þeim losunarheimildum sem hverri stöð er úthlutað og skal hvert aðildarríki tilgreina þann hluta í landsbundinni úthlutunaráætlun sinni fyrir það tímabil. Þetta skal gert með útgáfu og tafarlausum innskilum einnar losunarheimildar aðildarríkisins í skiptum fyrir eina einingu vottaðrar losunarskerðingar eða losunarskerðingareiningu sem rekstraraðilinn er skráður fyrir í landsskrá aðildarríkisins.
    2.     Á tímabilinu, sem um getur í 1. mgr. 11. gr., geta aðildarríkin, með fyrirvara um 3. mgr., heimilað rekstraraðilum að nota einingar vottaðrar losunarskerðingar frá verkefnisaðgerðum í kerfi Bandalagsins. Þetta skal gert með útgáfu og tafarlausum innskilum einnar losunarheimildar aðildarríkisins í skiptum fyrir eina einingu vottaðrar losunarskerðingar. Aðildarríkin skulu afturkalla einingar vottaðrar losunarskerðingar sem aðrir rekstraraðilar hafa notað á tímabilinu sem um getur í 1. mgr. 11. gr.
    3.     Í kerfi Bandalagsins er heimilt að nota allar einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar sem gefnar eru út og heimilt er að nota í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókunina og síðari ákvarðanir sem hafa verið samþykktar samkvæmt þeim:
    a)    þó þannig að rekstraraðilar skulu láta vera að nota einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar frá kjarnorkustöðvum í kerfi Bandalagsins á tímabilinu sem um getur í 1. mgr. 11. gr. og fyrsta fimm ára tímabilinu sem um getur í 2. mgr. 11. gr. í ljósi þess að aðildarríkin skulu, í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókunina og síðari ákvarðanir sem hafa verið samþykktar samkvæmt þeim, láta vera að nota einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar frá slíkum stöðvum til að uppfylla skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. 3. gr. Kýótóbókunarinnar og í samræmi við ákvörðun 2002/358/EB
        og
    b)    þó að frátöldum einingum vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningum frá aðgerðum í tengslum við landnotkun, breytingum á notkun lands og skógrækt.
     11. gr. b
    Verkefnistengdar aðgerðir
    1.     Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að grundvallarviðmiðanir fyrir verkefnistengdar aðgerðir, eins og þær eru skilgreindar í síðari ákvörðunum sem hafa verið samþykktar samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna eða Kýótóbókuninni, sem fara fram í löndum sem hafa undirritað aðildarsáttmála við Evrópusambandið, séu fullkomlega í samræmi við réttarreglur Bandalagsins, þ.m.t. tímabundnu undanþágurnar sem mælt er fyrir um í aðildarsáttmálanum.
    2.     Ef ekki er kveðið á um annað í 3. og 4. mgr. skulu aðildarríki, þar sem verkefnistengdar aðgerðir fara fram, sjá til þess að hvorki séu gefnar út losunarskerðingareiningar né einingar vottaðrar losunarskerðingar fyrir skerðingu eða takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá stöðvum sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar.
    3.     Til 31. desember 2012 er því aðeins heimilt að gefa út losunarskerðingareiningar og einingar vottaðrar losunarskerðingar fyrir verkefnistengdar aðgerðir í kerfi sameiginlegrar framkvæmdar og kerfi hreinleikaþróunar, sem skerða eða takmarka með beinum hætti losun stöðvar sem fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar, að rekstraraðili stöðvarinnar afturkalli jafnmargar losunarheimildir.
    4.     Til 31. desember 2012 er því aðeins heimilt að gefa út losunarskerðingareiningar fyrir verkefnistengdar aðgerðir í kerfi sameiginlegrar framkvæmdar og kerfi hreinleikaþróunar, sem skerða eða takmarka með beinum hætti losun stöðvar sem fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar, að afturkallaðar séu jafnmargar losunarheimildir af landsskrá aðildarríkisins þar sem losunarskerðingareiningarnar eða einingar vottaðrar losunarskerðingar eru upprunnar.
    5.     Aðildarríki, sem heimilar einkaaðila eða opinberum aðila að taka þátt í verkefnistengdum aðgerðum, skal bera ábyrgð á því að skuldbindingar þess samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókuninni séu uppfylltar og tryggja að slík þátttaka sé í samræmi við tilheyrandi viðmiðunarreglur, fyrirkomulag og verklagsreglur sem samþykktar hafa verið samkvæmt rammasamningnum eða Kýótóbókuninni.
    6.     Við samþykkt verkefnistengdra aðgerða á sviði raforkuframleiðslu með vatnsafli, þar sem framleiðslugetan er meiri en 20 MW, skulu aðildarríkin sjá til þess að tilheyrandi, alþjóðlegar viðmiðanir og viðmiðunarreglur, þ.m.t. þær sem er að finna í skýrslu heimsnefndarinnar um stíflur frá því í nóvember 2000, „Dams and Development – A New Framework for Decision-Making“, verði virtar á meðan þróun slíkra verkefnistengdra aðgerða stendur yfir.
    7.     Ákvæði um framkvæmd 3. og 4. mgr., einkum að því er varðar að komast hjá því að tvíreikna, og öll ákvæði sem nauðsynleg eru til að framkvæma 5. mgr., skulu samþykktar í samræmi við 2. mgr. 23. gr. í þeim tilvikum þegar heimaaðili uppfyllir allar hæfiskröfur um verkefnisaðgerðir í kerfi sameiginlegrar framkvæmdar.“
3.     Í stað 17. gr. komi eftirfarandi:
     „17. gr.
     Aðgangur að upplýsingum
    Ákvarðanir um úthlutun losunarheimilda, upplýsingar um verkefnistengdar aðgerðir, sem aðildarríki tekur þátt í eða heimilar einkaaðilum eða opinberum aðilum að taka þátt í, og skýrslur um losun, sem krafist er samkvæmt leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda og eru í umsjá lögbærs yfirvalds, skulu vera aðgengilegar almenningi í samræmi við tilskipun 2003/4/EB.“
4.     Í 18.gr. bætist eftirfarandi undirgrein við:
    „Aðildarríkin skulu einkum tryggja samræmingu milli miðstöðvarinnar, sem tilnefnd er til að samþykkja verkefnistengdar aðgerðir skv. a-lið 1. mgr. 6. gr. Kýótóbókunarinnar, og tilnefndra, landsbundinna yfirvalda sem hafa umsjón með framkvæmd 12. gr. Kýótóbókunarinnar en tilnefningarnar eru í samræmi við síðari ákvarðanir sem samþykktar hafa verið samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eða Kýótóbókuninni.“
5.     Eftirfarandi málsliður bætist við 3. mgr. 19. gr.:
    „Í reglugerðinni skulu einnig vera ákvæði um notkun og greiningu eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga í kerfi Bandalagsins og um vöktun á notkuninni.“
6.     Ákvæðum 21. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað annars málsliðar 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „Í skýrslunni skal sérstakur gaumur gefinn tilhögun við úthlutun losunarheimilda, notkun losunarskerðingareininga og eininga vottaðrar losunarskerðingar í kerfi Bandalagsins, skráahaldi, framkvæmd viðmiðunarreglna um vöktun og skýrslugjöf, sannprófun og málum sem varða það hvort farið er að ákvæðum tilskipunarinnar og skattalega meðferð losunarheimilda, sé um slíkt að ræða.“
    b)    eftirfarandi komi í stað 3. mgr.:
        „3.     Framkvæmdastjórnin skal skipuleggja skipti á upplýsingum milli lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum um þróun mála sem varða úthlutun, notkun losunarskerðingareininga og eininga vottaðrar losunarskerðingar í kerfi Bandalagsins, skráahald, skýrslugjöf, sannprófun og eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar tilskipunar.“
7.     Eftirfarandi grein bætist við á eftir 21. gr.:
     „21. gr. a
     Stuðningur við aðgerðir í tengslum við uppbyggingu færni
    Í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, Kýótóbókunina og allar síðari ákvarðanir, sem samþykktar hafa verið vegna framkvæmdar á þeim, skulu framkvæmdastjórnin og aðildarríkin kappkosta að styðja aðgerðir í tengslum við uppbyggingu færni í þróunarlöndum og löndum með umbreytingarhagkerfi til að auðvelda þeim að notfæra sér til fulls kerfi sameiginlegrar framkvæmdar og kerfi hreinleikaþróunar á þann hátt sem styður við áætlanir þeirra um sjálfbæra þróun og stuðla að þátttöku aðila í þróun og framkvæmd aðgerða í kerfi sameiginlegrar framkvæmdar og kerfi hreinleikaþróunar.“
8.     Ákvæðum 30. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað d-liðar 2. mgr. komi eftirfarandi:
        „d)    nýting inneigna úr verkefnistengdum aðgerðum, þ.m.t. nauðsyn þess að samræma heimilaða notkun losunarskerðingareininga og eininga vottaðrar losunarskerðingar í kerfi Bandalagsins,“
    b)    eftirfarandi liðir bætist við 2. mgr.:
        „l)    áhrif verkefniskerfa á gistilönd, einkum þróunartengd markmið þeirra, hvort verkefnistengdar aðgerðir hafi verið samþykktar í tengslum við kerfi sameiginlegrar framkvæmdar og kerfi hreinleikaþróunar að því er varðar raforkuframleiðslu með vatnsafli, þar sem framleiðslugetan er meiri en 500 MW, og neikvæð umhverfistengd eða félagsleg áhrif og framtíðarnotkun eininga vottaðrar losunarskerðingar eða losunarskerðingareininga frá einhverjum slíkum verkefnistengdum aðgerðum í kerfi Bandalagsins á sviði raforkuframleiðslu með vatnsafli,
        m)    stuðningur við átak í tengslum við uppbyggingu færni í þróunarlöndum og löndum með umbreytingarhagkerfi,
        n)    fyrirkomulag og verklagsreglur um samþykki aðildarríkjanna fyrir verkefnistengdum aðgerðum innanlands og um útgáfu losunarheimilda að því er varðar skerðingu eða takmarkanir á losun í kjölfar slíkra aðgerða frá og með árinu 2008,
        o)    tækniákvæði um að inneignir skuli vera til bráðabirgða og um 1% mörk aðgangs að verkefnisaðgerðum á sviði landnotkunar, breytinga á notkun lands og skógræktar, sem fastsett voru í ákvörðun 17/CP.7, auk ákvæða um niðurstöðu mats á hugsanlegri áhættu sem tengist notkun erfðabreyttra lífvera og framandi tegunda lífvera sem gætu verið ágengar í verkefnismiðuðum aðgerðum í nýskógrækt og endurræktun skóga, til að gera rekstraraðilum kleift að nýta einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar frá verkefnismiðuðum aðgerðum á sviði landnotkunar, breyttrar notkunar lands og skógræktar í kerfi Bandalagsins frá 2008, í samræmi við ákvarðanir sem samþykktar eru samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eða Kýótóbókuninni.“
    c)    eftirfarandi komi í stað 3. mgr.:
        „3.     Áður en hvert þeirra tímabila, sem um getur í 2. mgr. 11. gr., hefst skal aðildarríki tilgreina í landsbundinni úthlutunaráætlun sinni fyrirhugaða notkun á losunarskerðingareiningum og einingum vottaðrar losunarskerðingar ásamt því hversu mikið rekstraraðilar geta fengið að nota að hámarki af losunarskerðingareiningum og einingum vottaðrar losunarskerðingar í kerfi Bandalagsins á tímabilinu miðað við hundraðshluta úthlutunar til hverrar stöðvar. Heildarnotkun losunarskerðingareininga og eininga vottaðrar losunarskerðingar skal vera í samræmi við tilheyrandi viðbótarskuldbindingar samkvæmt Kýótóbókuninni og rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og allar ákvarðanir sem samþykktar hafa verið samkvæmt þeim.
        Í samræmi við 3. gr. ákvörðunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB frá 11. febrúar 2004 um aðferð til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda í Bandalaginu og um framkvæmd Kýótóbókunarinnar ( *) skulu aðildarríkin gefa framkvæmdastjórninni skýrslu annað hvert ár um hversu umtalsverður þáttur landsbundnar aðgerðir séu í raun í þeirri viðleitni sem fram fer á landsvísu, að hve miklu leyti verkefniskerfin komi í raun til viðbótar landsbundnum aðgerðum og um hlutfallið á milli þeirra, í samræmi við viðeigandi ákvæði Kýótóbókunarinnar og ákvarðanir sem samþykktar hafa verið samkvæmt henni. Framkvæmdastjórnin skal gefa skýrslu um þetta í samræmi við 5. gr. fyrrgreindrar ákvörðunar. Í ljósi skýrslunnar skal framkvæmdastjórnin, eftir því sem við á, leggja fram lagafrumvörp eða aðrar tillögur til fyllingar ákvæðum sem samþykkt hafa verið af aðildarríkjunum til að tryggja að beiting aðferðanna komi til viðbótar landsbundnum aðgerðum í Bandalaginu.
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)     Stjtíð. ESB L 49, 19.2.2004, bls. 1.
9.     Eftirfarandi liður bætist við III. viðauka:
    „12.     Í áætluninni skal tilgreina hámarksfjölda eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga sem rekstraraðilum í kerfi Bandalagsins er heimilt að nota sem miðast við hundraðshluta úthlutaðra losunarheimilda til hverrar stöðvar. Hundraðshlutinn skal vera í samræmi við viðbótarskuldbindingar aðildarríkisins samkvæmt
    Kýótóbókuninni og ákvörðunum sem samþykktar hafa verið samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótóbókuninni.“

2. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 13. nóvember 2005. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna það hinum aðildarríkjunum.

3. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 27. október 2004.
    Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,
    J. BORRELL FONTELLES     A. NICOLAI
     forseti.     forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Hefur ekki enn verið birt.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 275, 25.10.2003, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 338, 13.11.2004, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. ESB L 386, 29.12.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. ESB L 59, 26.2.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. ESB L 316, 16.11.2006, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. ESB L 49, 19.2.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. EB C 75 E, 26.3.2002, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 10
(2)    Stjtíð. EB C 221, 17.9.2002, bls. 27.
Neðanmálsgrein: 11
(3)    Stjtíð. EB C 192, 12.8.2002, bls. 59.
Neðanmálsgrein: 12
(4)     Álit Evrópuþingsins frá 10. október 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB), sameiginleg afstaða ráðsins frá 18. mars 2003 (Stjtíð. ESB C 125 E, 27.5.2003, bls. 72), ákvörðun Evrópuþingsins frá 2. júlí 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 22. júlí 2003.
Neðanmálsgrein: 13
(5)     Stjtíð. EB L 242, 10.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(6)     Stjtíð. EB L 33, 7.2.1994, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 15
(7)     Stjtíð. EB L 130, 15.5.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 16
(8)    Stjtíð. EBE L 167, 9.7.1993, bls. 31. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 1999/ 296/EB (Stjtíð. EB L 117, 5.5.1999, bls. 35).
Neðanmálsgrein: 17
(9)    Stjtíð. ESB L 41, 14.2.2003, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 18
(10)    Stjtíð. EBE L 377, 31.12.1991, bls. 48.
Neðanmálsgrein: 19
(11)        Stjtíð. EB L 257, 10.10.1996, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 20
(12)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 21
(13)    Stjtíð. ESB C 80, 30.3.2004, bls. 61.
Neðanmálsgrein: 22
(14)    Álit Evrópuþingsins frá 20. apríl 2004 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 13. september 2004 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 23
(15)    Stjtíð. ESB L 275, 25.10.2003, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 24
(16)    Stjtíð. EB L 130, 15.5.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 25
(17)    Stjtíð. ESB L 49, 19.2.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 26
(18)    Stjtíð. ESB L 41, 14.2.2003, bls. 26.