Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 277. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 311  —  277. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf milli slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í vestnorrænu löndunum.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,


Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Jón Gunnarsson.



     Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að stuðla að og styrkja samstarf slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í löndunum þremur.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 4/2007 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. ágúst 2007 í Nuuk á Grænlandi. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um að stuðla að og styrkja samstarf slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í löndunum þremur.

Rökstuðningur.
    Vestnorrænu löndin eiga margt sameiginlegt þegar kemur að veðurfari, landfræðilegum aðstæðum og búsetu. Veður geta verið válynd og löndin eru harð- og strjálbýl með fjölda afskekktra og fámennra byggðarlaga þar sem samgöngur eru erfiðar auk víðáttumikils hálendis. Auk þess er mikil sjósókn í öllum löndunum.
    Löndin eiga því við sambærilegar aðstæður að glíma þegar kemur að viðbúnaði og viðbrögðum við slysum og náttúruhamförum. Til dæmis eru leitarsvæði stundum afar stór, hvort sem er á sjó eða landi, aftakaveður getur gert björgunaraðgerðir erfiðar og fleira mætti telja. Fátt er því þýðingarmeira en að björgunarsveitir séu ætíð í viðbragðsstöðu og hljóti eins góða þjálfun og kostur er.
    Sambærilegar aðstæður í löndunum kalla á sams konar sérhæfingu á sviði land- og sjóbjörgunar. Þekking, reynsla og geta í slysa- og björgunarmálum er hins vegar mislangt á veg komin í vestnorrænu löndunum. Slysavarnafélög og björgunarsveitir eru starfræktar á Íslandi og Færeyjum. Á Íslandi eru björgunar- og slysavarnasveitir byggðar upp á sjálfboðaliðum, sem hefur gefið mjög góða raun, og í áranna rás hefur byggst upp mikil þekking, reynsla og geta. Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að auka þekkingu og getu á sviði slysavarna og björgunar bæði í Færeyjum og á Grænlandi.
    Gagnkvæm kynning og innbyrðis samstarf milli aðila á sviði slysavarna og björgunar í vestnorrænu löndunum er hafið upp að vissu marki. Það er allra hagur að slíkt samstarf sé aukið enn frekar í ljósi þess hversu mikið löndin geta lært hvert af öðru. Aukin samvinna milli slysavarnafélaga og björgunarsveita í vestnorrænu löndunum væri því allra hagur. Markmið slíks samstarfs yrði einkum að miðla þekkingu og reynslu á sviði slysavarna og björgunarmála, koma á samvinnu um uppbyggingu slysavarnafélaga og björgunarsveita, auk þjálfunar og útgáfu fræðsluefnis.
    Stjórnvöld landanna eru því hvött til að veita björgunarsveitum og slysavarnafélögum í löndunum stuðning til frekari samvinnu, ekki síst á sviði uppbyggingar björgunarsveita þar sem þeirra er þörf.“