Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 88. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 327  —  88. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á siglingalögum, nr. 34 19. júní 1985, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svanhvíti Axelsdóttur og Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Valgeir Pálsson frá Tryggingamiðstöðinni og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Verði. Einnig bárust umsagnir um málið frá Sjómannasambandi Íslands, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Hafnasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Siglingastofnun og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að takmörkunarfjárhæðir skv. IX. kafla siglingalaga um ábyrgð útgerðarmanns og takmörkun ábyrgðar verði uppfærðar í samræmi við bókun frá 1996 við alþjóðasamþykkt um takmörkun ábyrgðar frá 19. nóvember 1976.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að æskilegt væri að sá tími sem ætlaður er til að laga ný vátryggingaákvæði að breyttum aðstæðum væri lengdur, en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2008. Fram kom að áhrifin kynnu að verða nokkur hvað varðar vátryggingar fyrir skip sem stunda farþegaflutninga á sjó vegna mikillar hækkunar á farþegaábyrgð. Í ljósi þess að breytingarnar geta haft ákveðin áhrif á endurtryggingarsamninga, og þar með iðgjöld, auk þess sem tryggingafélög eru með útistandandi tryggingar fram á næsta ár, telur nefndin eðlilegt að fresta gildistöku laganna um eitt ár, þ.e. til 1. janúar 2009.
    Auk þess leggur nefndin til tæknilega lagfæringu á 2. gr. frumvarpsins þar sem sömu breytingarnar eru í raun tvíteknar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með ofangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Herdís Þórðardóttir, Árni Johnsen og Ármann Kr. Ólafsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. nóv. 2007.Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Ólöf Nordal.


Karl V. Matthíasson.Paul Nikolov.


Guðni Ágústsson.


Guðjón A. Kristjánsson.