Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 348  —  76. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50/1987, og lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994 (ábyrgðartrygging ökutækja, EES-reglur).

Frá viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Guðjón Rúnarsson og Ólaf Pál Gunnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, William Thomas Möller frá Umferðarstofu og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust einnig umsagnir um frumvarpið.
    Með frumvarpinu eru leidd í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2005/14/EB um breytingu á fjórum EB-tilskipunum og tilskipun 2000/26/EB um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja, svonefnd „fimmta tilskipun um ökutækjatryggingar“. Í tilskipuninni er kveðið á um aukna vernd fyrir tjónþola sem verður fyrir tjóni af völdum vélknúins ökutækis.
    Hluta þeirra reglna sem kveðið er á um í tilskipuninni er þegar að finna í íslenskri löggjöf. Hluta reglnanna er unnt að innleiða í íslenskan rétt með setningu stjórnvaldsfyrirmæla, ýmist frá samgönguráðherra eða viðskiptaráðherra. Aðra hluta tilskipunarinnar þarf að innleiða með breytingum á settum lögum og er kveðið á um þær breytingar í frumvarpi þessu. Annars vegar er í 1. gr. frumvarpsins mælt fyrir um að viðskiptaráðherra setji reglur um skyldu vátryggingafélaga til að gefa tjónsvottorð fyrir vátryggt ökutæki vátryggingartaka. Hins vegar felur frumvarpið í sér að Alþjóðlegar bifreiðatryggingar sf. fá, sem upplýsingamiðstöð, heimild til að safna og miðla grundvallarupplýsingum fyrir meðferð tjónamáls. Í athugasemdum með 2. gr. frumvarpsins er tilgreint hvaða upplýsingar teljist til grundvallarupplýsinga.
    Nefndin telur mikilvægt að hlutaðeigandi hagsmunaaðilar hafi aðkomu að gerð þeirra stjórnvaldsfyrirmæla sem stjórnvöldum verður heimilt að setja.
    Jón Magnússon er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.
    Atli Gíslason sat fund fyrir Jón Bjarnason.
    Árni Páll Árnason, Björk Guðjónsdóttir og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 27. nóv. 2007.Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Atli Gíslason.Birgir Ármannsson.


Birkir J. Jónsson.


Höskuldur Þórhallsson.