Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.

Þskj. 385 —  307. mál.



Frumvarp til laga

um brottfall laga nr. 25 27. júní 1921, um einkaleyfi
handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Lög nr. 25/1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks, falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum nr. 25/1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks, er mælt fyrir um einkarétt Háskóla Íslands til að gefa út og selja eða afhenda með öðrum hætti almanök og dagatöl á Íslandi. Í lögunum er enn fremur mælt fyrir um útreikning almanaksins og útgáfu þess, hvernig skuli fara með brot á einkarétti háskólans, enn fremur um gjald af útgáfu og innflutningi dagatala til Háskólans, sem ráðherra ákveður að fengnum tillögum háskólaráðs, og loks ákvæði um heimildir til að leggja hald á almanök sem hingað hafa verið flutt ólöglega, um málsmeðferð við höfðun refsimála og um stofnun Almanakssjóðs, en til hans rennur hreinn arður af útgáfu almanaka ár hvert, auk skaðabóta og sekta fyrir brot á einkarétti háskólans. Enn fremur rennur til sjóðsins andvirði upptækra rita og gjöld vegna sölu og innflutnings almanaka til landsins. Tekið er fram að Háskólaráð stjórni sjóðnum og að tekjum hans skuli varið til eflingar stærðfræðilegum vísindum á Íslandi.
    Almanak Háskóla Íslands á sér merka sögu. Frá 1. mars 1684 hafði Kaupmannahafnarháskóli haft einkarétt til útgáfu almanaka í Danmörku. Með opnu bréfi frá 5. ágúst 1831 var nánar mælt fyrir um refsingar fyrir brot á einkarétti háskólans. Bréfið var leitt í lög á Íslandi með tilskipun 3. febrúar 1836. Þegar Ísland var viðurkennt fullvalda ríki 1918 féll einkaréttur Kaupmannahafnarháskóla niður. Við setningu laganna á Alþingi 1921 er forsaga málsins rakin og tekið fram að það virðist heppilegt að Háskóli Íslands fái einkaréttinn, sem löggjafarvaldi Íslands væri þá tvímælalaust heimilt að ráðstafa. Gera megi ráð fyrir nokkrum tekjum af einkaréttinum „enda er almanaksútgáfan alls kostar áhættulaus, með því að öll samkeppni á því sviði er útilokuð“. Íslands almanakið hefur komið út samfellt síðan 1837. Það er nokkuð eldra en Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags, sem kom út árið 1875. Frá 1923 til 1973 framseldi háskólinn einkaleyfi sitt til almanaksútgáfu til Þjóðvinafélagsins, er annaðist þá útgáfu beggja almanakanna. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Almanaksins eru árlega gefin út hér á landi um 900 þúsund eintök af almanökum og dagatölum af ýmsum gerðum. Þar af munu vera um 100 þúsund almanök sem prentuð eru erlendis. Flest þessara rita sækja upplýsingar í Almanak háskólans, sem kalla má grundvallarrit almanaksútgáfu hér á landi. Almanak Háskólans mun nú vera gefið út í 4.000 eintökum og Almanak Þjóðvinafélagsins í 1.700 eintökum.
    Frá setningu laganna hefur afstaða manna til einkaréttar opinberra aðila sem að hluta eða öllu leyti starfa á samkeppnismarkaði breyst. Koma þar m.a. til reglur er leiða af aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, að víkja beri til hliðar reglum er takmarka samkeppni í atvinnurekstri þar á meðal reglur er takmarka innflutning vara á samkeppnismarkaði. Þá leiða kröfur stjórnarskrárinnar til skattlagningarheimilda til þess að nauðsynlegt er að huga að endurskipulagningu á útgáfu almanaksins.
    Nefnd fjármálaráðuneytisins, er fór yfir og kannaði hvort löggjöf hér á landi uppfyllti þær kröfur sem 40., sbr. 77. gr. stjórnarskrárinnar gerði til skattlagningarheimilda, komst m.a. að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni 3. febrúar 1999 að 6. gr. laga nr. 25/1921 fullnægði ekki þeim kröfum sem stjórnarskráin gerði til skattlagningarheimilda enda fæli ákvæðið í sér algert framsal skattlagningarvalds í hendur framkvæmdarvaldsins. Menntamálaráðuneytið og Háskóli Íslands hafa tekið undir athugasemdir nefndarinnar og fallist á að þær ættu við rök að styðjast. Hefur Háskólinn óskað eftir því að gjaldheimtunni verði komið í lögmætt horf án þess að nauðsynlegar breytingar mundu skerða tekjur Almanakssjóðs. Í bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis 19. apríl 2004 er framangreindum bréfaskiptum ráðuneytisins við Háskóla Íslands lýst og því mati ráðuneytisins að skilyrði séu til þess að fella lögin brott, þar sem lög nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, veittu svigrúm til þess að starfa að útgáfu almanaks með þeim hætti sem stofnunin hefði gert án þess að sækja til þess heimild í sérstök lög um einkarétt stofnunarinnar.
    Með bréfi Eftirlitsstofnunar EFTA 23. apríl 2007 óskaði stofnunin eftir viðhorfi íslenskra stjórnvalda til þess hvort þartilgreind ákvæði í 1., 5. og 6. gr. laga nr. 25/1921, er fjalla um einkarétt Háskólans, um refsingar vegna brota á ákvæðum laganna og gjaldtöku, þar á meðal á innfluttum almanökum, samræmdist 11. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið, er leggja bann við magntakmörkunum á innflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif. Erindi stofnunarinnar hefur ekki verið svarað, en henni tilkynnt um frumvarp það sem hér er komið fram.
    Þegar ákvæði laga nr. 25/1921 eru virt í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og þeirra skuldbindinga sem leiða af samningum um Evrópska efnahagssvæðið er það mat ráðuneytisins að rétt sé að fella lögin úr gildi. Í því felst ekki að Háskóla Íslands beri að láta af útgáfu almanaks. Enda mæla augljós samræmingar- og öryggissjónarmið með því að áfram verði gefið út almanak. Í því sambandi hefur ráðuneytið bent á að lög nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, veita háskólanum svigrúm til þess að starfa að útgáfu almanaks með þeim hætti sem stofnunin hefur gert til þessa án þess að sækja til þess heimild í sérstök lög um einkarétt stofnunarinnar til slíkrar starfsemi. Eðlilegt verður að telja að kostnaði Almanakssjóðs við útgáfu almanaksins verði eftir því sem við á mætt með gjaldtöku skv. 18. gr. laga nr. 41/1999 og samningi menntamálaráðuneytisins og háskólans, dags. 11. janúar 2007.
    Rétt er að miða við það að lögin falli brott 1. janúar 2009, en með þeim hætti gefst svigrúm til þess undirbúa nauðsynlegar breytingar fyrir áframhaldandi útgáfu almanaksins.





Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 25/1921,
um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks.

    Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Háskóla Íslands til útgáfu almanaks falli niður. Tekjur háskólans vegna almanaksútgáfu eru áætlaðar 1,7 m.kr og munu falla niður í fjárlögum 2009. Ef Háskóli Íslands kýs að halda áfram útgáfu almanaks verður að fjármagna það með sértekjum til að tryggja óbreytta fjárheimild.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.