Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 178. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 456  —  178. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Helgu Björnsdóttur um tillögur refanefndar og endurgreiðslu á kostnaði við veiðar á ref og mink.

     1.      Hver hefur verið framgangur tillagna nefndar um áhrif refs í íslenskri náttúru sem skipuð var af umhverfisráðherra og skilaði niðurstöðum sínum 23. júní 2004?
    Tillögur meiri hluta refanefndar, sbr. skýrslu nefndarinnar frá 23. júní 2004, voru settar fram í fimm liðum auk kostnaðaráætlunar vegna tillagna nefndarinnar. Tillögum nefndarinnar um refaveiðar, sbr. lið 6.1 í skýrslunni, hefur verið fylgt eftir. Fyrirkomulag refaveiða nú er svipað og verið hefur, stjórn þeirra er hjá sveitarfélögunum og grenjavinnsla er með líku sniði og áður. Um vetrarveiðar gilda almennar reglur um útburð ætis vegna hollustuhátta. Sveitarfélögin hafa heimild til að ákveða að ráðnir veiðimenn tilkynni útburð ætis en landeiganda er frjálst að veiða á landareign sinni svo lengi sem hann á veiðikort og veiði utan grenjatíma.
    Umhverfisstofnun hefur undanfarin ár unnið að því að útbúa miðlægan gagnagrunn þar sem skráðar verða upplýsingar frá veiðimönnum um greni og tjón af völdum refa í landbúnaði. Útbúa þarf ný eyðublöð fyrir veiðimenn til að færa inn upplýsingarnar á samræmdu formi og gerir stofnunin ráð fyrir að grunnurinn verði tekinn í notkun næsta vor. Umhverfisstofnun bar ábyrgð á að framfylgja hluta af þeim tillögum sem nefndin lagði til vegna rannsókna, sbr. lið 6.2 í skýrslunni. Umhverfisstofnun hefur eins og áður segir unnið að undirbúningi á uppsetningu miðlægs gagnagrunns þar sem m.a. verður aflað betri upplýsinga um tjón af völdum refa til að hægt verði að nýta þær upplýsingar þegar ákvörðun um fyrirkomulag refaveiða verður tekin til endurskoðunar eins og nefndin lagði til að gert yrði innan fimm ára frá því að hún lagði fram tillögur sínar árið 2004. Þá lagði nefndin til að gert yrði stofnstærðarlíkan fyrir íslenska refastofninn og yrði með slíku líkani hægt að meta áhrif veiða á refastofninn, m.a. hvað kynni að gerast ef dregið yrði verulega úr veiðum. Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur nú að gerð stofnstærðarlíkans og er þess vænst að því verki ljúki á árinu 2008.
    Hvað varðar tillögur nefndarinnar um veiðar í friðlöndum, sbr. lið 6.3 í skýrslunni, vísast í svar við næstu spurningu. Nefndin gerði jafnframt tillögur, sbr. lið 6.4 í skýrslunni, um að unnið verði námsefni fyrir veiðimenn, m.a. um aðferðir við grenjavinnslu, vetrarveiði, skothúsveiði og líffræði refsins. Umhverfisstofnun hefur unnið að gerð þessa námsefnis og hefur það verið samþætt inn í bók sem nýlega hefur verið gefin út fyrir veiðinámskeið veiðikorthafa. Stofnunin áætlar einnig að gefa sérstaklega út bækling um framangreint á árinu 2008 og dreifa til sveitarfélaganna.

     2.      Hvernig hefur verið fylgt eftir tillögu nefndarinnar um að veiðar á ref verði efldar við jaðra friðlandsins á Hornströndum?
    Þeim tilmælum var beint til þeirra sveitarfélaga sem liggja næst friðlandinu á Hornströndum að efla veiðar við jaðar þess. Í því sambandi má benda á tillögur vinnuhóps Fjórðungssambands Vestfirðinga að aðgerðum og reglum um refa- og minkaveiðar sem voru gerðar í febrúar 2007. Árétta skal að það er á ábyrgð einstakra sveitarfélaga að ákveða hve mikið veiðiálagið skuli vera innan sveitarfélagsins. Í þjóðgörðum fylgist Umhverfisstofnun skipulega með viðgangi refsins.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að sveitarfélögunum verði tryggð endurgreiðsla á 50% af kostnaði við veiðar á ref og mink?
    Tillaga nefndarinnar var að endurgreiðsluhlutfall ríkissjóðs við refaveiðar yrði 50% af verðlaunum samkvæmt viðmiðunartaxta næstu fimm árin meðan aflað yrði frekari upplýsinga um refastofninn og tjón af völdum refa. Komið var til móts við þessa tillögu og framlagið aukið í fjáraukalögum ársins 2005 um 5,5 millj. kr. til að hækka endurgreiðsluhlutfall ríkisins við kostnað sveitarfélaga við refaveiðar og sama upphæð var veitt á fjárlögum fyrir árið 2006 tímabundið til ársins 2009. Eðlilegt er að endurskoða framlög ríkisins til refaveiða í lok þessa tímabils enda liggur þá fyrir nýtt stofnstærðarlíkan og mat á tjóni af völdum refs.

     4.      Með hvaða hætti telur ráðherra unnt að samræma og skipuleggja betur veiðar á ref og mink þannig að nágrannasveitarfélög leggi jafnmikla áherslu á veiðarnar og árangurinn verði viðunandi?
    Mikill eðlismunur er á markmiðum um refa- og minkaveiðar. Markmið með refaveiðum er að koma í veg fyrir tjón, sbr. 12. gr laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Sveitarfélagi er skylt að ráða kunnáttumann til grenjavinnslu en hversu mikið veiðiálagið á að vera fellur undir ákvörðunarvald hvers sveitarfélags og ber sveitarfélagi að meta slíkt, m.a. með tilliti til þess tjóns sem verður af völdum refa í sveitarfélaginu. Með því að verja æðarvörp og elta uppi dýrbíta sem leggjast á sauðfé er hægt minnka tjón af völdum refa.
    Minkar njóta ekki friðunar samkvæmt lögum nr. 64/1994. Markmiðið með minkaveiðum er að halda stofninum niðri og jafnvel útrýma. Árið 2007 hófst tilraunaverkefni á tveimur svæðum á landinu þar sem veiðiálag var aukið til mikilla muna og mjög nákvæm skráning á veiðiaðferðum og árangri veiða tekin upp. Tilgangur verkefnisins er m.a. að kanna hvort mögulegt væri að útrýma mink úr íslensku lífríki. Þessi tvö tilraunasvæði eru annars vegar á Snæfellsnesi og hins vegar í Eyjafirði. Allir minkar af þessum svæðum verða krufnir og nú þegar hafa mjög athyglisverðar niðurstöður litið dagsins ljós. Í lok árs verður unnin skýrsla um minkaveiðiátakið og í framhaldi af því verður ákveðið hvernig því verður háttað næstu árin. Í þessu veiðiátaki er einmitt horft fram hjá mörkum sveitarfélaga og veiðarnar skipulagðar af einum aðila yfir stórt landfræðilega afmarkað svæði. Reynslan af verkefninu mun án efa marka þá framtíðarskipan sem tekin verður upp við minkaveiðar.

     5.      Telur ráðherra koma til greina að sveitarfélögin verði undanþegin virðisaukaskatti eða fái hann endurgreiddan af verðlaunum fyrir refa- og minkaveiði á grundvelli reglugerðar nr. 248/1990 þar sem um samfélagslega þjónustu sé að ræða?
    Nefndin lagði til að verðlaun vegna refaveiða yrðu undanþegin virðisaukaskatti eða virðisaukaskatturinn endurgreiddur, sbr. reglugerð nr. 248/1990, eins og af ýmiss konar samfélagslegri þjónustu sem sveitarfélögin inna af hendi, sbr. lið 6.5 í skýrslunni. Innan stjórnkerfisins hefur verið andstaða við að veita frekari undanþágur frá greiðslu virðisaukaskatts og kom tillagan því ekki til álita.