Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 459  —  317. mál.
Tillaga til þingsályktunarum siðareglur opinberra starfsmanna.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Árni Þór Sigurðsson.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja siðareglur ætlaðar öllum opinberum starfsmönnum, þ.m.t. þingmönnum og opinberum embættismönnum, í vinnuferðum. Reglurnar mæli svo fyrir að opinberum starfsmönnum sé óheimilt að kaupa kynlífsþjónustu af nokkru tagi eða þiggja kynferðislega greiða í vinnuferðum á erlendri grundu. Siðareglurnar skulu kynntar viðkomandi við upphaf starfstíma og þær staðfestar með undirritun.

Greinargerð.


    Mansal er vaxandi áhyggjuefni á alþjóðavettvangi og hafa ýmsir alþjóðasamningar verið undirritaðir til að hvetja til ábyrgrar afstöðu og aðgerða til að stemma stigu við mansali. Má þar nefna samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) og samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að sporna við skipulagðri fjölþjóðlegri glæpastarfsemi og bókun við hann (Palermó-samninginn). Sá samningur var undirritaður fyrir Íslands hönd hinn 13. desember árið 2000 en bíður enn fullgildingar. Honum er ætlað að taka sérstaklega á mansali, ekki síst í þeim tilfellum þar sem konur og börn eru seld milli landa í kynlífs- og klámiðnaðinn, og að tryggja fórnarlömbunum vernd og aðstoð. Það er miður að íslenskir ráðherrar skuli ekki enn hafa fylgt undirritun samningsins eftir með fullgildingu hans og innleiðingu í íslenska löggjöf.
    Samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18. desember 1979. Hann tók gildi 10. október 1985 og var undirritaður fyrir Íslands hönd 24. júlí 1980 en fullgiltur 18. júlí 1985. Í 6. gr. þess samnings segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að hamla gegn hvers konar verslun með konur og gróðastarfsemi tengdri vændi.
    Töluverð umræða um úrræði gegn mansali hefur líka farið fram á vettvangi Norðurlandanna. Má í því sambandi nefna tilmæli Norðurlandaráðs nr. 9/2003, gegn vændi og mansali, sem eru svohljóðandi:
    „Norðurlandaráð mælir með því við ríkisstjórnir Norðurlanda
     1.      þær beiti sér fyrir því að norrænu löndin móti sameiginlegar aðgerðir gegn vændi og verslun með konur einkum hvað það varðar að vinna gegn eftirspurn eftir konum og börnum til vændis og kynferðislegrar misnotkunar í löndum okkar
     2.      þær móti og framfylgi bindandi siðareglum sem banna opinberum starfsmönnum, starfsmönnum hersins og þróunarhjálparstarfsmönnum að kaupa kynlífsþjónustu. Reglurnar eiga bæði að gilda þegar viðkomandi starfsmenn eru við störf og í frítíma í tengslum við verkefni af þessu tagi. Aðilar vinnumarkaðarins eru hvattir til að setja sambærilegar reglur
     3.      þær beiti sér fyrir samræmingu löggjafar um kaup á kynlífsþjónustu á Norðurlöndum í þeim mæli sem það samræmist mismunandi stefnumótunarviðmiðum í afbrotamálum í löndunum“
    Þá hafa ríkisstjórnir Norðurlandanna sett sér sérstakar aðgerðaáætlanir sem ætlað er að gera baráttuna gegn þessari skipulögðu glæpastarfsemi markvissari. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki séð ástæðu til að innleiða slíka aðgerðaáætlun hér á landi.
    Í anda alþjóðlegrar umræðu og sáttmála hafa fjöldamargar tillögur verið lagðar fram til að Íslendingar megi taka afstöðu og ábyrgð á þeim mikla vanda sem mansal er. Skref í þessa átt væri að setja siðareglur fyrir opinbera starfsmenn í viðskiptaferðum erlendis. Með því að setja slíkar siðareglur stæði hið opinbera vörð um virðingu okkar á alþjóðavettvangi, en það hlýtur að vera mikilvægt fyrir ríkið að starfsfólk þess hagi sér ekki á einhvern þann hátt sem gæti rýrt virðingu samstarfsaðila fyrir okkur. Við værum að taka mikilvægt skref í baráttunni gegn mansali og lýsa því yfir að við öxlum okkar ábyrgð í alþjóðasamfélaginu.
    Ríkisstjórn Noregs samþykkti hinn 17. október 2002 að taka upp siðareglur fyrir opinbera starfsmenn um bann við bæði kaupum á vændi og að þiggja kynlífsþjónustu. Þær reglur eru svohljóðandi:
    „Ákvörðun þessi er tekin í ljósi þess að alþjóðlegt vændi og mansal kvenna og barna með kynferðislega misneytingu fyrir augum er vaxandi vandamál. Grundvöllur þessa mansals er spurn eftir kynlífsþjónustu. Einnig ber að skoða siðareglurnar í ljósi þess starfs sem unnið er í dómsmálaráðuneytinu að aðgerðaáætlun í baráttunni gegn mansali kvenna og barna.
    Sem vinnuveitandi ber hið opinbera ábyrgð á starfsemi og orðspori opinberrar þjónustu og vill þar af leiðandi búa svo um hnútana að opinberir starfsmenn hegði sér ekki á þann hátt að það brjóti gegn mannlegri reisn fólks í þeim löndum sem Norðmenn eru í samstarfi við og senda fulltrúa sína til.
    Ríkið hyggst ganga á undan með góðu fordæmi með því að taka upp siðareglur fyrir opinbera starfsmenn. Yfirvöld og ríki taka þannig sem vinnuveitandi grundvallarafstöðu til þeirrar ábyrgðar sinnar að koma í veg fyrir að brotið sé gegn mannhelgi fólks sem fórnarlamba mansals í kynferðislegum tilgangi.
    Siðareglur um bann við bæði kaupum á vændi og því að þiggja kynlífsþjónustu eru ótvíræð yfirlýsing um það hvaða siðrænar og siðferðilegar væntingar séu gerðar til embættismanna ríkisins og opinberra starfsmanna.
          Kaup á vændi eða önnur kynlífsþjónusta getur falið í sér misneytingu fólks sem býr við erfiðar aðstæður og einkum eru konur og börn í hættu. Jafnframt getur slík hegðun auðveldlega haft neikvæð áhrif á ímynd starfsmannsins og valdið tjóni á orðstír Noregs eða því starfi sem unnið er.
          Starfsmaður á aldrei að hegða sér þannig að brotið sé gegn mannlegri reisn eða á einhvern þann hátt sem getur saurgað orðstír þess starfs sem unnið er eða Noregs.
          Hverjum þeim ríkisstarfsmanni sem ferðast í embættiserindum eða á vegum hins opinbera, hvort heldur innan lands eða á erlendri grundu, er óheimilt að kaupa vændi eða þiggja kynlífsþjónustu af neinu tagi. Þetta á einnig við um frjálsan tíma viðkomandi í þess háttar verkefnum.
          Hið opinbera væntir þess sem vinnuveitandi að starfsmenn þess framfylgi þessum reglum af trúmennsku og setji framferði sínu mjög strangar skorður.
    Sé ekki farið eftir þessum siðareglum getur það leitt til viðurlaga við agabroti samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, 9., 14. og 15. gr.“
    Auk Norðmanna hafa Svíar sett sér svipaðar reglur sem ná yfir starfsfólk í utanríkisþjónustunni. Þetta var gert þegar í ljós kom að töluverður hluti opinberra starfsmanna í Noregi og Svíþjóð keyptu sér kynlífsþjónustu á ferðalagi eða þáðu hana í boði heimamanna. Sömuleiðis hefur mörgum stórfyrirtækjum í Noregi þótt ástæða til að setja starfsfólki sínu svipaðar siðareglur. Því má ætla að kynlífsþjónusta sé á stundum hluti af alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum og nauðsynlegt að Ísland, eins og önnur lönd, taki virka afstöðu gegn slíku. Sömuleiðis ber okkur að sjálfsögðu að virða þá alþjóðasáttmála sem við höfum undirritað og sinna tilmælum frá þeim alþjóðastofnunum sem við tilheyrum.