Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 298. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 533  —  298. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Auðar Lilju Erlingsdóttur um rafbyssur í lögreglustarfi.

     1.      Er í undirbúningi að lögreglan taki í notkun svonefndar rafbyssur sem gefa frá sér 50.000 volt og valda miklum sársauka auk þess sem þekkt er að slíkur rafstraumur truflar vöðva- og taugastarfsemi?
    Embætti ríkislögreglustjóra hefur til skoðunar hvort æskilegt og rétt sé að rafstuðtækjum (orðið „byssa“ gefur ekki rétt mynd af þessu tæki) verði bætt við þau valdbeitingartæki sem lögregla hefur yfir að ráða í dag. Sérfræðingar hjá ríkislögreglustjóra eru nú að afla nauðsynlegra gagna, m.a. um hættu sem getur stafað af tækinu auk læknisfræðilegra rannsókna sem gerðar hafa verið um tækið. Að lokinni ítarlegri úttekt á tækinu mun embætti ríkislögreglustjóra senda dóms- og kirkjumálaráðherra greinargerð með rökstuðningi um gagnsemi tækisins í löggæslu. Tekið skal fram að úttekt á rafstuðtækinu er á frumstigi og engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort eða í hvaða tilvikum slík tæki yrðu notuð.

     2.      Hvaða tilgangi mundi beiting á rafbyssum þjóna við löggæslu?
    Miklu máli skiptir að auka öryggi lögreglumanna við hættumikil störf. Á síðustu árum hafa dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóri og Landssamband lögreglumanna leitað leiða við að bæta starfsumhverfi og öryggi lögreglumanna. Fyrir liggur að lögreglumenn verða ítrekað fyrir líkamstjóni í starfi og mikilvægt er að kanna allar leiðir til að auka öryggi þeirra. Í rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands árið 2004 fyrir Landssamband lögreglumanna, Lögregluskóla ríkisins, ríkislögreglustjóra, Sýslumannafélag Íslands og dómsmálaráðuneytið kom m.a. fram að 64% lögreglumanna höfðu orðið fyrir hótunum í starfi, 54% höfðu orðið fyrir líkamsmeiðingum í starfi og 41% fjölskyldna lögreglumanna hafði orðið fyrir hótunum. Niðurstaða þessarar rannsóknar sýnir að leita verður allra skynsamlegra úrræða til að auka öryggi lögreglumanna. Það að meta hvort rafstuðtæki skuli vera hluti af varnarbúnaði lögreglumanna er liður í þessari viðleitni löggæsluyfirvalda.

     3.      Hefur ráðherra kynnt sér þá hættu sem stafar af notkun á rafbyssum, m.a. í ljósi þess að samkvæmt Amnesty International má rekja um 200 dauðsföll til beitingar þeirra?
    Eins og fyrr segir mun embætti ríkislögreglustjóra afla læknisfræðilegra gagna um tækið. Ákvörðun um hvort rafstuðtæki verði hluti af valdbeitingarbúnaði lögreglu verður ekki tekin nema að höfðu nánu samráði við heilbrigðisyfirvöld.

     4.      Hafa verið mótaðar reglur hjá lögreglunni eða ráðuneytinu um beitingu og burð slíkra vopna, þ.m.t. hvernig þeim skuli skipt milli lögregluumdæma eða löggæslusveita?
    Þar sem málið er á frumstigi er ekki tímabært að útfæra slíkar reglur né taka ákvörðun um skiptingu milli lögregluumdæma né löggæslusveita. Verði tekin ákvörðun um notkun rafstuðtækja verður það að sjálfsögðu gert.

     5.      Hver er stefna ríkisstjórnarinnar um vopnaburð íslenskra lögreglumanna?

    Lögreglan skal alla jafna ekki vera búin skotvopnum við skyldustörf, en ef sérstakar aðstæður krefjast þess hefur lögreglan heimild til vopnaburðar. Heimildir fyrir þeim valdbeitingartækjum lögreglu eiga sér stoð í lögreglulögum, nr. 90/1996, og reglugerð nr. 774/1998 um sérsveit ríkislögreglustjórans.
    Af hálfu dómsmálaráðherra og ráðuneytis hans er fylgst náið með þróun alls öryggisbúnaðar sem getur gagnast lögreglu. Nýlegt atvik í miðborg Reykjavíkur, þar sem af tilefnislausu var ráðist á starfsmenn fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir enn frekar nauðsyn slíkra öryggisráðstafana að mati dómsmálaráðherra.