Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 344. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 580  —  344. mál.
Tillaga til þingsályktunarum stofnun háskólaseturs á Akranesi.

Flm.: Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun háskólaseturs á Akranesi með áherslu á iðn- og tæknigreinar auk almennra grunngreina háskólanáms. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir undirbúningsstarfinu og tillögum sínum um uppbyggingu háskólastarfs á Akranesi fyrir 1. september 2008.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var síðast lögð fram á 133. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram aftur lítið breytt.
    Efling menntastofnana og rannsóknasetra sem víðast um landið er eitt brýnasta mál landsbyggðarinnar. Reynslan hefur sýnt fram á kosti þess að heimamenn stjórni slíkri starfsemi að sem mestu leyti sjálfir og byggi þá á tækniþekkingu, menningu, atvinnulífi og auðlindum hvers héraðs um sig. Nægir í því sambandi að horfa til háskólanna á Hvanneyri, Bifröst og Hólum sem hafa með sjálfstæði sínu, frumkvæði og sveigjanleika fyllilega staðist þær kröfur sem gerðar eru til háskólanáms. Fáir efast heldur um það nú orðið að sjálfstæði Háskólans á Akureyri var ein meginforsenda þess að hann næði að vaxa og dafna. Hins vegar er samstarf sjálfstæðra menntastofnana ávallt af hinu góða, hvort heldur er samstarf við skóla í öðrum landshlutum eða erlendis.
    Blómlegt mannlíf byggist á menntun, fjölbreyttri atvinnu og góðri almannaþjónustu. Enginn einn þessara þátta nægir þar til. Íbúum Akraness fjölgaði um 1.220 á árunum 1997– 2007 og eru nú um 6.345. Ef með eru taldir íbúar Hvalfjarðarsveitar í árslok 2007 er heildarfólksfjöldinn á svæðinu um 7.015 manns. Uppbygging atvinnulífs þar hefur að stórum hluta hvílt á aukinni stóriðju og atvinnugreinum henni tengdri. Það er því er afar mikilvægt að auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu, efla menntunarmöguleika og almenna þjónustu við íbúana.
    Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum könnunar sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi létu gera á viðhorfum fólks til búsetuskilyrða á Vesturlandi er ljóst að menntamálin eru mörgum þar ofarlega í huga. Á svæðinu sunnan Skarðsheiðar lentu möguleikar á að afla sér háskólamenntunar í öðru sæti yfir þá þætti sem íbúarnir töldu helst ábótavant á svæðinu. Sama könnun leiddi í ljós brýna þörf fyrir iðnaðarmenn með framhaldsmenntun og ákveðnar vísbendingar um að skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki hamlaði vexti almenns iðnaðar á Akranesi.
    Þótt ekki sé orðið ýkja langt að fara milli Akraness og Reykjavíkur, þar sem þegar eru starfræktar deildir sem bjóða upp á háskólanám í iðn- og tæknigreinum, má ætla að aðstæður fólks til að sækja slíkt nám þangað séu alls ekki alltaf nógu góðar. Það á einkum við um fólk sem þegar er starfandi í iðnaðinum, hefur verið á vinnumarkaði um allnokkurt skeið og komið sér þar fyrir til frambúðar. Það gefur augaleið að háskólasetur, sem mundi færa námið til fólksins í stað hefðbundinnar skólasóknar sem hugsanlega hefði atvinnumissi og daglegan akstur frá heimili til skóla, ef ekki búferlaflutninga, í för með sér, mundi gerbreyta aðstæðum fólks til að sækja sér slíka menntun.
    Ekki er vafi á því að stofnun háskólaseturs á Akranesi yrði kærkomin viðbót við Fjölbrautaskóla Vesturlands sem þar er fyrir. Slíkar menntastofnanir mundu styðja vel hvor við aðra, og ekki bara á sviði menntunar þótt sú samvinna yrði hvað dýrmætust. Ásókn fólks, sem komið er af framhaldsskólaaldri, í nám við Fjölbrautaskólann fer stöðugt vaxandi. Vel má hugsa sér að háskólasetur á Akranesi gæti samnýtt ýmiss konar húsnæði með Fjölbrautaskólanum og þannig mætti dreifa stofn- og rekstrarkostnaðinum á fleiri hendur. Áratugahefð er fyrir öflugri og fjölbreyttri iðnmenntun á Akranesi. Iðnnámið hefur þó átt undir högg að sækja síðustu missiri vegna þess að slíkt nám krefst almennt meiri kostnaðar á hvern nemanda en hefðbundið bóknám. Fjölbrautaskólinn hefur einmitt þurft að heyja stöðuga baráttu fyrir iðnnámi sínu og þeirri sérstöðu sem hann hefur haft á því sviði.
    Sókn er besta vörnin og áðurnefnd könnun sýnir mjög sterka löngun íbúanna á svæðinu eftir auknu framboði á háskólamenntun í heimabyggð. Háskólarnir á Bifröst og Hvanneyri hafa náð sterkri stöðu á sínum sviðum. Háskólasetur með kennslu og rannsóknir á þeim sviðum sem hér eru lögð til mundi auka enn fjölbreytni í tækni- og háskólanámi í héraðinu. Háskólasetur á Akranesi mundi styrkja þessa heildarmynd menntunar og bæta enn frekar búsetuskilyrðin og koma þar með til móts við eindregnar óskir íbúanna í þessu ört vaxandi byggðarlagi. Því er lagt til að menntamálaráðherra skipi nú þegar nefnd með heimamönnum sem vinni tillögur að stofnun háskólaseturs á Akranesi og skili hún áliti fyrir 1. september 2008 svo að hægt sé að taka tillögur hennar inn í gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2009.


Fylgiskjal I.

Jón Bjarnason:

Háskólasetur á Akranes.
(Skessuhorn, 2. maí 2007.)


    Íbúar á Akranessvæðinu hafa með afdráttarlausum hætti lýst því að það sem skiptir hvað mestu máli fyrir búsetuskilyrði séu menntamálin. Möguleikar til að afla sér framhaldsmenntunar eins og háskólanáms var í 2. sæti yfir þá þætti sem íbúarnir töldu helst ábótavant samkvæmt könnun sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi létu gera. Sama könnun leiddi í ljós brýna þörf fyrir iðnaðarmenn með framhaldsmenntun.

Fjölbreytni er forsenda öflugs samfélags.
    Þótt samgöngur verði stöðugt greiðari milli Akraness og Reykjavíkur má ætla að aðstæður fólks til að sækja nám eða vinnu þangað geti verið mismunandi. Það á t.d. við um fólk sem þegar er í starfi og komið með fjölskyldu. Háskólasetur, sem færir námið til fólksins í stað hefðbundinnar skólasóknar, myndi gerbreyta aðstæðum til að sækja sér slíka menntun. Möguleikar til að stunda fjarnám fara sífellt vaxandi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að sérhvert samfélag geti stöðugt sótt fram á sviði menntunar. Þróun hátækniiðnaðar framtíðarinnar sem er baráttumál okkar krefst öflugs menntunarkjarna í hverju byggðarlagi. Fjölgun starfa hér á Akranessvæðinu hefur að mestu hvílt á aukinni stóriðju. Sú mikla áhersla sem lögð er á þann iðnað getur leitt samfélagið út í einhæfni í störfum sem höfða til afmarkaðs hóps á tilteknum aldri. Því er afar brýnt að auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu og efla framboð á möguleikum til menntunar.

Vagga iðnmenntunar.
    Áratuga hefð er fyrir öflugri iðnmenntun á Akranesi. Fjölbrautaskólinn er flaggskip Vesturlands á því sviði. Iðnnámið hefur þó átt undir högg að sækja í tíð ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. En það nám krefst meiri kostnaðar en hefðbundið bóknám.
Þarf skólinn að heyja stöðuga baráttu fyrir iðnnámi sínu og þeirri sérstöðu sem hann hefur haft á því sviði.
    Íbúum Akraness og nágrannabyggða mun fjölga ört á næstu árum, en um þessar mundir eru þeir um 6.500. Háskólasetur með kennslu og rannsóknir í iðngreinum, sem hér er lagt til, mun auka enn á fjölbreytni í tækni- og háskólanámi í héraðinu. Háskólasetur á Akranesi mun styrkja þessa heildarmynd menntunar og bæta enn frekar búsetuskilyrðin og koma þar til móts við eindregnar óskir íbúanna í þessu ört vaxandi byggðarlagi.

Sóknarfæri Akraness.
    Sókn er besta vörnin og áðurnefnd könnun sýnir mjög sterka þrá íbúanna eftir auknu framboði á háskólamenntun í heimabyggð. Hver landshluti, hvert byggðarlag verður stöðugt að sækja fram í menntunarmálum annars er hætta á stöðnun. Menntun, fjölbreytt atvinna, blómlegt mannlíf og hagvöxtur fara saman. Þar liggja sóknarfæri Akraness. Ég hef flutt tillögu á Alþingi um stofnun háskólaseturs á Akranesi, en nú þurfa heimamenn að taka frumkvæðið og setja málið í gang. Ég heiti því að gera mitt til að fylgja þessu máli eftir af fullum þunga á Alþingi.Fylgiskjal II.

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir:

Það eiga allir að hafa aðgang að góðri menntun óháð efnahag og búsetu.


(Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Norðvesturkjördæmi, 27. mars 2007.)    Aðgangur að menntun í heimabyggð er ein af meginforsendum þess að styrkja búsetu, lífskjör og atvinnulíf á landsbyggðinni. Framboð á góðri menntun í leikskólum og grunnskólum, öflugar metnaðarfullar stofnanir á framhaldsskólastigi, verkmenntun auk uppbyggingar háskólastarfs er grundvöllur framfara og þróunar. Í skólakerfinu þarf einnig að ríkja faglegt frelsi til að starfsfólk hafi svigrúm til að vinna að blómlegu og skapandi skólastarfi. Skólakerfið á að vera lifandi samfélag skólafólks, nemendanna sjálfra og fjölskyldna þeirra. Innan þess verður að mæta þörfum nemendanna í samræmi við þarfir og þroska hvers og eins. En til þess að skólastarfið geti blómstrað þarf að ríkja sátt um verklag, kjör og aðbúnað innan skólanna. Því er nauðsynlegt að sveitarfélögunum séu tryggðir tekjustofnar til að mæta þeim kröfum sem lagalega eru gerðar til skólastarfsins.

Efling háskólanna.
    Landsbyggðin þarf á frumkvæði og bjartsýni að halda og hvoru tveggja fæst með ábyrgð og sjálfstæði heimamanna. Framhaldsnám á háskólastigi felur í sér mikinn samfélagslegan ávinning. Í Norðvesturkjördæmi hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingu háskólanáms s.s. á Bifröst, á Hvanneyri og að Hólum þar sem frumkvæði og sveigjanleiki er styrkur skólanna. Þessum skólastofnunum þarf að skapa tækifæri á að vaxa áfram og dafna á sínum forsendum. Miklar vonir eru bundnar við að Háskólasetrið á Ísafirði verði eflt og það gert að formlegum háskóla. einnig þarf að huga að stofnun háskólaseturs á Akranesi með séráherslu á iðnnám og njóta þar samstarfs við iðnfyrirtækin á svæðinu. Annað brýnt verkefni framundan er frekari uppbygging háskólastarfs á Sauðárkróki.

Framhaldsskólanám á sunnanverðum Vestfjörðum.
    Undanfarið hef ég fengið að taka þátt í því sem verkefnisstjóri ásamt kröftugu fólki fyrir vestan að koma á framhaldsskólanámi á sunnanverðum Vestfjörðum í samvinnu við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Það sem gerir verkefni sem þetta ekki síst mögulegt er tilkoma nýrra kennsluaðferða á sviði dreifmenntunar, og fjarkennslu. Við sem höfum unnið að kynningu þessa náms á svæðinu höfum fundið fyrir miklum áhuga og bjartsýni samfara því að þetta verkefni verði að veruleika. Foreldrar sjá fyrir sér að geta stutt lengur við bakið á börnum sínum heima í héraði og barnmargar fjölskyldur þurfa ekki að flytja burt til annarra staða þar sem viðeigandi nám er í boði.

Mennt er máttur.
    Skólauppbyggingu og mótun hennar er aldrei lokið, sífellt þarf að leita nýrra og framsækinna leiða til að gefa fólki kost á eins góðri grunn, -framhalds-, og háskólamenntun sem völ er á. Það sama á við um endur- og símenntun. Metnaðarfullt starf allra er að skólastarfinu koma er leiðin að því markmiði. Við höfum fólk sem hefur vilja og þor og við þurfum stjórnvöld sem styðja við hugmyndir þeirra og frumkvæði.Fylgiskjal III.


Háskóli fyrir alla á nýrri öld.

(Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Menningar- og menntamál, 27. mars 2007.)


Háskólanám um land allt.
    Stuðla verður að uppbyggingu fræðasetra og námsvera um land allt þannig að landsmenn allir geti átt kost á því að stunda fjarnám á háskólastigi. Miklu skiptir að slíkt fjarnám sé félagslega uppbyggt en ekki velt yfir á hvern einstakling sem stundi það í sínu horni.

Nám í heimabyggð
.
    Tryggja þarf rekstrargrundvöll símenntunarmiðstöðva. Símenntunarmiðstöðvar landsbyggðarinnar eru oft eini aðgengilegi fræðsluaðilinn í dreifðum byggðum landsins og því þarf að styrkja stoðir þeirra þannig að nám í heimabyggð fyrir fullorðna verði raunverulegur og aðgengilegur kostur í fullorðinsfræðslu og hvers konar endur- og símenntun. Einnig þarf að tryggja framboð á náms- og starfsráðgjöf hjá sömu aðilum þannig að hægt verði að bjóða upp á slíka þjónustu, m.a. í samstarfi við atvinnurekendur.