Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 159. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 642  —  159. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar og Þuríðar Backman um ný störf á vegum ríkisins.


     1.      Hvað er áætlað að mörg ný störf verði til á vegum ríkisins á næstu fjórum árum
                  a.      vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins,
                  b.      af öðrum ástæðum?

    Við breytingar á verkaskiptum innan Stjórnarráðsins var unnið út frá því markmiði að fjöldi starfa yrði óbreyttur og gekk það eftir í fjárlögum 2008. Störfum fækkaði um þrjú vegna sameiningar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins. Á móti kemur að störfum fjölgaði um þrjú við að viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu var skipt upp.
    Ekki er mögulegt að áætla fjölgun starfsmanna ríkisins næstu fjögur árin fyrr en langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum liggur fyrir.

     2.      Um hvers konar störf er þar að ræða og hvar á landinu verða þau unnin?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru m.a. áform um að efla þjónustu við aldraða með aukinni þjónustu í heimahúsum, fjölgun hjúkrunarrýma o.fl. Má því búast við að störfum fjölgi á þessum sviðum.
    Reynsla síðustu ára er að fjölgun hefur verið á þeim stöðum þar sem íbúum fjölgar mest, t.d. vegna fjölgunar nemenda í framhaldsskólum og aukinnar heilsugæslu. Segja má að þjónusta á vegum ríkissjóðs hafi komið í kjölfarið á breytingum í mannfjölda og mati á þörf fyrir aukna þjónustu. Það er þó ekki algilt og í því sambandi má benda á að í gildandi fjárlögum eru framlög til sjúkrahúsa utan Reykjavíkur aukin talsvert til að létta af Landspítala og færa verkefni frá spítalanum og létta þannig af legudeildum þar.