Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 434. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 691  —  434. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir,


Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir,


Ögmundur Jónasson, Atli Gíslason.1. gr.

    Við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarstjórn skal taka ákvörðun um hvort heræfingar verði samþykktar á viðkomandi stað.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 27. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Notkun lands til heræfinga, þ.m.t. til lágflugsæfinga, utan varnar- og öryggissvæða er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar að fenginni umsögn viðkomandi svæðisskipulagsnefndar. Framkvæmdaleyfi vegna slíkra æfinga skal gefið út til tiltekins tíma þar sem gerð er grein fyrir afmörkun svæðis, upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaaðila á svæðinu, grunnvatnsvernd, æfingatíma og frágangi svæðis.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að nýting lands til heræfinga, þ.m.t. til lágflugsæfinga, verði háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar að fenginni umsögn hlutaðeigandi svæðisskipulagsnefndar. Þar er sérstaklega kveðið á um upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaaðila á svæðinu, en mikill misbrestur hefur verið á slíku í tengslum við þær heræfingar sem haldnar hafa verið hér á landi á síðustu árum og áratugum.
    Að mati flutningsmanna hafa heræfingar engu jákvæðu hlutverki að gegna fyrir íslenskt samfélag og æskilegast væri að stjórnvöld úthýstu þeim með öllu. Þar til það hefur verið gert er hins vegar mikilvægt að gera sveitarfélögum og skipulagsyfirvöldum kleift að sporna við helstu hættum sem stafað geta af slíkum æfingum.
    Mörg dæmi eru um árekstra milli sveitarstjórna og umsjónaraðila heræfinga. Lágflugsæfingar herþotna hafa margoft valdið umtalsverðu ónæði og skaða. Dæmi eru um stórtjón loðdýraræktenda vegna hávaða af lágflugi og ferðaþjónustuaðilar hafa sömuleiðis lýst andstöðu sinni við slíkar æfingar, ekki síst á hálendinu.
    Sveitarstjórn Hvalfjarðarstrandarhrepps hefur gert harðorðar athugasemdir við að haldnar hafi verið heræfingar í gömlu herstöðinni í Hvalfirði í litlu eða engu samráði við stjórnendur hreppsins. Á það hefur verið bent að slíkar æfingar geti verið afar skaðlegar fyrir ferðaþjónustu, sem leggur áherslu á friðsælt umhverfi og náttúruvernd.
    Heræfingar kunna sömuleiðis að ganga gegn þeim samfélagslegu og menningarlegu markmiðum sem einstök sveitarfélög hafa sett sér. Dæmi um þetta er Friðarstofnun Reykjavíkur, sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, beitti sér fyrir að komið væri á fót síðla árs 2006. Að því tilefni sagði borgarstjóri: „Ísland er herlaust land og engin hefð er hér fyrir hernaðaruppbyggingu né herrekstri. Því er Reykjavík einstakur vettvangur til viðræðna um friðsamlega úrlausn margvíslegra alþjóðlegra deilumála.“
    Augljóslega samrýmast heræfingar í borgarlandinu ekki þessari stefnu borgaryfirvalda um Reykjavík sem miðstöð friðar.
    Markmið frumvarpsins er því öðrum þræði að gefa sveitarstjórnum kost á að standa gegn heræfingum á landi sínu. Reynslan sýnir að sveitarstjórnir hafa ekki talið sér stætt á að andæfa heræfingum. Má í því sambandi nefna heræfingar sem ætlunin var að halda á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins sumarið 2000 og ætlaðar heræfingar í Hljómskálagarðinum í Reykjavík sumarið 1999, sem íbúar komu í veg fyrir með mótmælum sínum.
    Í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram það markmið laganna að tryggja að þróun byggðar og landnotkunar skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi. Í ljósi þessara markmiða liggur beint við að ákvæði varðandi heræfingar eigi heima í skipulagslögum.