Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 435. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 692  —  435. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum.

Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir,


Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir,


Ögmundur Jónasson, Atli Gíslason.



1. gr.

    Við 12. lið 2. viðauka við lögin bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Heræfingar, þar með talið lágflugsæfingar, utan varnar- og öryggissvæða.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Heræfingar hafa verið algengar á undanförnum árum á íslensku landi og lögsögu. Þróun þessa ber að harma og væri íslenskum stjórnvöldum sæmst að taka með öllu fyrir hernaðarbrölt hér á landi. Þar til því markmiði hefur verið náð telja flutningsmenn hins vegar rétt að reynt verði með öllum tiltækum ráðum að takmarka þann skaða sem af slíkum æfingum kann að hljótast.
    Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna. Þar kemur fram að þeim er ætlað að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda, stuðla að samvinnu þeirra sem hagsmuna hafa að gæta eða láta sig málið varða og tryggja sem besta upplýsingamiðlun til almennings vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Allir ættu að geta samþykkt ágæti þessara markmiða.
    Nú er það kunn staðreynd að starfsemi af hernaðarlegum toga, þ.m.t. heræfingar, getur haft í för með sér mikil og neikvæð umhverfisáhrif. Hernaðarstarfsemi er oftar en ekki afar mengandi, má í því samhengi benda á mengunarsvæði á og við gömlu herstöðina á Miðnesheiði og gömul skotæfingasvæði bandaríska hersins á Reykjanesskaga.
    Auk olíu- og þungmálmamengunar geta heræfingar haft í för með sér umtalsvert ónæði og truflun. Dæmi eru um að lágflugsæfingar herþotna hafi raskað ró fólks og komið styggð að dýrum. Mönnum er í fersku minni þegar tvær herþotur í lágflugi fældu allan fugl úr Látrabjargi á varptíma vorið 2002. Einnig hafa aðilar í ferðaþjónustu gagnrýnt harðlega lágflugsæfingar sem skapað hafa stórhættu í hestaferðum með ferðamenn, má nefna gagnrýni framkvæmdastjóra Íshesta í tengslum við heræfingar nokkurra NATO-þjóða hér á landi sumarið 2007. Þá má nefna kvartanir frá hvalaskoðunarfyrirtækjum og aðilum sem láta sér annt um arnarvarp við Breiðafjörð.
    Með því að fella heræfingar undir lög um mat á umhverfisáhrifum er tryggt að hagsmunaaðilar á borð við sveitarfélög, landeigendur, ferðaþjónustufyrirtæki og útivistarfólk geti komið að athugasemdum varðandi framkvæmd og staðarval heræfinga og vonandi minnkað líkurnar á skaða vegna þeirra.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nýjum staflið verði bætt í 12. lið 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum. Færa má rök fyrir því að heræfingar ættu allt eins heima í 11. lið, þar sem m.a. er fjallað um prófunaraðstöðu fyrir vélar og hreyfla og geymslu brotajárns. Niðurstaða flutningsmanna er þó sú að 12. liðurinn, Ferðalög og tómstundir, sé betur lýsandi fyrir stríðsleiki fullorðins fólks.