Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 735  —  462. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2007.

1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2007 vill Íslandsdeildin leggja áherslu á eftirfarandi atriði, en þau tengjast öll markmiðum sambandsins, þ.e. að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna breytingar sem hafa orðið á skipulagi funda IPU, en á vorþingi 2007 var fyrirkomulagi haustþinga sambandsins breytt í þá veru að lögð verður áhersla á störf nýrrar nefndar IPU um málefni Sameinuðu þjóðanna. Haustfundir fastanefnda IPU fá í þess stað minna vægi og leggja áherslu á opnar umræður og samræður við sérfræðinga til undirbúnings umræðu fastanefndanna á komandi vorþingum. Þá var einnig ákveðið að lengja fundi ráðsins á haustþingum, m.a. til að auka áhrif þingmanna á ákvarðanir um starfsemi IPU.
    Í öðru lagi má nefna umræðu um friðsamlega sambúð ólíkra trúarbragða, en segja má að sjaldan hafi verið meiri þörf á umræðum og skoðanaskiptum á milli menningarheima en nú. 1. fastanefnd IPU um frið og alþjóðleg öryggismál lagði fram skýrslu um málið og var ályktun samþykkt á grundvelli hennar. Segja má að IPU sé eini vettvangurinn þar sem þingmenn frá nær öllum ríkjum heims geta rætt saman, skipst á skoðunum og reynt að ná sameiginlegri niðurstöðu um málefni. Á slíkum fundum takast kynni með fólki frá ólíkum þingum og mikilsverð tækifæri til að efla tengsl og samvinnu við þing frá öðrum menningarsvæðum.
    Í þriðja lagi ber að nefna starf IPU til að efla lýðræði. Mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Þingmenn frá slíkum þingum kynnast lýðræðislegum vinnubrögðum á þingum IPU, en jafnframt vinnur sambandið mjög mikilvægt starf í þessa veru á milli þinga. Námskeið eru haldin fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbraut um ýmsa þætti þingstarfsins, stundum í samvinnu við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðra alþjóðastofnun. Sem dæmi um námskeið sem haldin voru árið 2007 má nefna námsstefnu í Burkina Faso fyrir þjóðþing í frönskumælandi Afríku um hlutverk þjóðþinga við innleiðingu alþjóðlegra og svæðisbundinna mannréttinda, námsstefnu fyrir asísk þjóðþing um sjálfbæra þróun sem haldin var í Laos og svæðisbundið málþing um úrræði þinga á sviði barnaverndar í Suðaustur-Asíu sem haldið var í Pakistan. IPU veitir jafnframt einstökum þingum tæknilega aðstoð og þjálfun.
     Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2007 má nefna atvinnusköpun og atvinnuöryggi á tímum hnattvæðingar, umræðu um hvernig stuðla megi að fjölbreytni og jafnrétti með sameiginlegum lýðræðis- og kosningastöðlum og brýna nauðsyn þess að stöðva víðtæk mannréttindabrot í Myanmar og koma aftur á lýðræðislegum réttindum í landinu.
    
2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 147 þing en aukaaðilar að sambandinu eiga sjö svæðisbundin þingmannasamtök. Hlutverk IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum og hlúa að samstarfi þeirra. IPU fjallar um alþjóðamál og samþykkir ályktanir um þau og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem haldið er í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
    1. nefnd: friðar- og öryggismálanefnd,
    2. nefnd: nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
    3. nefnd: nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur sautján manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi lönd, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til einhver niðurstaða fæst. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og nýjar hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Fram að Alþingiskosningum 12. maí voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Ásta Möller formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingar og Hjálmar Árnason varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jóhann Ársælsson, þingflokki Samfylkingar og Guðjón Ólafur Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks. Ný Íslandsdeild var kosin 31. maí. Samkvæmt breytingum á þingsköpum gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn voru Ásta Möller, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingar og Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingar og Atli Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Á fundi Íslandsdeildar 4. júní var Ásta Möller kosin formaður og Ágúst Ólafur varaformaður.
    Fyrri hluta árs var Belinda Theriault ritari Íslandsdeildar en frá miðjum júlí tók Arna Gerður Bang við sem ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.

4. Starfsemi Íslandsdeildar og yfirlit yfir fundi.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt mjög virk í starfi IPU á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir fundum á árinu og starfsemi Íslandsdeildar.

Tólfplús-hópurinn.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings hittist Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þing stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Á þeim fundum eru jafnframt fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU valdir. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.
    Á vorþinginu náðist samstaða um að styðja breytingar á starfi IPU sem voru til afgreiðslu á fundi ráðs IPU, en þær gengu m.a. út á að gera nokkrar breytingar á fyrirkomulagi haustþingsins og stofna sérstaka nefnd innan IPU um málefni Sameinuðu þjóðanna. Þá var síðari hluta vikunnar mikil umræða um utandagskrárumræðuefni þingsins og í því sambandi störf forseta indónesíska þingsins, sem hafði samkvæmt hefð verið kjörinn forseti IPU-þingsins á Balí. Töldu fulltrúar Tólfplús-hópsins þingforsetann ekki vinna samkvæmt reglum IPU við afgreiðslu á neyðarályktun þingsins.
    Á haustþinginu voru Serbar boðnir velkomnir en þeir eru nýir meðlimir Tólfplús-hópsins. Formaður upplýsti fundarmenn um að forseti namibíska þingsins, Theo-Ben Gurirab, hafi verið tilnefndur sem eftirmaður forseta IPU-þingsins, en kosningar fara fram í október 2008. Kynnt var fjárhagsáætlun IPU fyrir 2008 og rætt um skýrslu um fjármál sambandsins. Ásta Möller lagði fram spurningu um frjáls framlög til samtakanna og hvers vegna markmiðum varðandi þau hafi ekki verið náð fyrir síðasta ár. Svarið var að búið væri að skilgreina sérverkefnin áður en farið væri af stað með fjáröflun og því erfitt að áætla hversu vel fjáröflunin gengi.
    Finn Martin Vallersnes, formaður norsku landsdeildarinnar, situr í ráðgjafarnefnd um nýja nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og fræddi hann fundargesti um helstu markmið nefndarinnar. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að styrkja sambandið milli SÞ og þjóðþinga í gegnum starfsemi IPU. Ráðgjafarnefndin hafði komist að samhljóða niðurstöðu um fjögur málefni sem nefndin leggur áherslu á. Í fyrsta lagi friðargæslu SÞ og hlutverk þjóðþinga við enduruppbyggingu eftir stríðsátök. Í öðru lagi skýrslu aðalritara SÞ um kerfisbundið samræmi í störfum stofnana SÞ hvar sem er í heiminum. Í þriðja lagi þúsaldarmarkmiðin séð út frá þingræðislegu sjónarmiði, og í fjórða lagi fjármagn SÞ við gerð þróunarskýrslna, staðfestingu og framkvæmd mannréttindasáttmála og dreifingu upplýsinga, sérstaklega sem snerta fjárhagsáætlanir.
    Framkvæmdastjóri IPU, Anders Johnson, sat fyrir svörum á fundi hópsins og fór yfir breytingar á starfsreglum þingsins og fjárhagsáætlun næsta árs. Formaður hópsins, John Austin, óskaði eftir tilnefningum í sérstakan hóp sem hefði það hlutverk að meta þær breytingar sem samþykktar höfðu verið á síðasta haustþingi sambandsins og komu til framkvæmda í fyrsta sinn á umræddu þingi. Hópurinn var skipaður og mun gefa skýrslu að ári.
    Kosningar fóru fram um eftirmann Austin í stöðu Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU. Tveir þingmenn voru í framboði, þeir Donald Oliver frá Kanada og Robert del Picchia, franskur öldungadeildarþingmaður. Leynileg kosning fór fram á morgunfundi hópsins og var del Picchia kjörinn fulltrúi hópsins í framkvæmdastjórninni og tók við eftir lok þingsins í Genf. Þess má geta að íslensku þingmennirnir studdu del Picchia, en hvert aðildarríki hefur tvö atkvæði í hópnum.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Íslendingar í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Reykjavík 20. mars og sá síðari í Stykkishólmi 5. september 2007. Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar og Hjálmar Árnason sóttu fundinn í Reykjavík auk Belindu Theriault ritara. Fundinn í Stykkishólmi sóttu Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður, Þuríður Backman og Björk Guðjónsdóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar og Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara.

116. þings IPU í Nusa Dua 28. apríl–4.maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Hjálmar Árnason varaformaður, Drífa Hjartardóttir og Jón Gunnarsson auk Belindu Theriault ritara. Við setningu þingsins fluttu eftirfarandi aðilar ávörp: H.R. Agung Laksono, forseti indónesíska þingsins, P. Casini, forseti IPU, S. Kakakhel, aðstoðarframkvæmdastjóri umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna og dr. Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu. Síðar á þinginu fluttu utanríkisráðherra Indónesíu, Hassan Wirayudha, og fjármálaráðherra Indónesíu, dr. Budiono, erindi. Tvær pallborðsumræður fóru fram á þinginu, annars vegar um loftslagsbreytingar og hins vegar um ofbeldi gegn börnum.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Jón Gunnarsson tók þátt í störfum 1. nefndar um frið og alþjóðleg öryggismál, en þar var rætt um friðsamlega sambúð ólíkra trúarbragða. Drífa Hjartardóttir tók þátt í störfum 2. nefndar um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál. Nefndin fjallaði um atvinnusköpun og atvinnuöryggi í hnattvæddum heimi. Jón tók jafnframt þátt í störfum 3. nefndar um lýðræði og mannréttindi, en hún fjallaði um hvernig mætti stuðla að fjölbreytni og jafnrétti með sameiginlegum lýðræðis- og kosningastöðlum. Þá fóru fram almennar stjórnmálaumræður á þinginu um loftslagsbreytingar; ástandið tíu árum eftir samþykkt Kyoto-bókunarinnar. Hjálmar Árnason tók þátt í umræðunum og fjallaði í ræðu sinni um mikilvægi endurnýjanlegrar orku til þess að stemma stigu við loftslagsbreytingum, stöðu Íslands á þessu sviði og leiðir til að auka notkun endurnýjanlegrar orku á heimsvísu. Yfirlýsing um loftslagsbreytingar var samþykkt á þinginu.
    Nokkrar tillögur um neyðarályktun eða utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Nokkrir drógu tillögur sínar til baka, en samstaða náðist um að sameina líkar tillögur og fjalla um alþjóðlegt samstarf til að berjast gegn hryðjuverkum, rótum þeirra og fjármögnun. Aðrar tillögur voru dregnar til baka, þar á meðal tillaga frá Íran um að ræða Írak. Það gerðist síðan að nefnd sem var sett saman til að vinna ályktun um utandagskrármálið setti inn málsgreinar um Írak og er þar m.a. farið fram á að allur erlendur her fari tafarlaust frá landinu en að Sameinuðu þjóðirnar taki við friðargæslu þar eftir þörfum. Framkvæmdastjóri IPU benti á að ekki væri rétt að taka Íraksmálið fyrir í ályktuninni þar sem það hefði ekki verið samþykkt af þinginu. Aðeins mætti taka eitt mál fyrir samkvæmt reglum þingsins og annað efni hefði verið valið. Forseti IPU studdi þessa túlkun á reglum IPU og kom þeim skilaboðum til forseta þingsins, sem var indónesíski þingforsetinn, að ályktunin væri ekki tæk til afgreiðslu með Írakshlutann innan borðs. Forseti IPU þurfti því miður að yfirgefa þingið snemma og gat því ekki fylgt málinu eftir, en stjórnarnefnd þingsins tók í sama streng. Afstaða Indónesa til málsins var nokkurn veginn á þá leið að embætti forseta þingsins væri í þeirra höndum og því gætu þeir gert það sem þeim sýndist. Tólfplús-hópurinn átti þrjá fulltrúa í nefndinni og lögðust þeir gegn því að Íraksmálið væri tekið fyrir í ályktuninni á grundvelli þess að það hefði ekki verið samþykkt af þinginu. Danskur þingmaður sem sat í nefndinni tók t.d. fram að hann hefði ávallt verið andvígur Íraksstríðinu, en afstaða hans til málsins réðist af því að hann vildi fylgja reglum IPU. Fulltrúar Tólfplús-hópsins gerðu margar tilraunir til að ná fram einhverri málamiðlun og lögðu áherslu á að afstaða þeirra grundvallaðist á reglum þingsins en ekki efnislegri afstöðu til Íraksstríðsins, en fulltrúar annarra ríkja voru fastir fyrir og ályktunin var afgreidd úr nefndinni með umfjöllun um Íraksstríðið innan borðs. Tólfplús-hópurinn gaf út yfirlýsingu á síðasta degi þingsins þar sem hann harmaði það að nefndin sem undirbjó ályktun utan dagskrár hefði ekki farið að ráðum framkvæmdastjóra IPU sem benti á að ályktunin væri ekki unnin í samræmi við reglur IPU. Bent var á að forseti IPU væri sammála framkvæmdastjóranum og að stjórnarnefnd ráðstefnunnar hefði tekið undir með þeim. Þá var því lýst yfir að ef forseti ráðstefnunnar fengist ekki til að fara eftir tilmælum forseta IPU og lýsti ályktunina ótæka til afgreiðslu í óbreyttu formi tækju aðildarríki Tólfplús-hópsins ekki þátt í afgreiðslu hennar. Skemmst er frá því að segja að ályktunin var samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu á þinginu, en aðildarríki Tólfplús- hópsins tóku ekki þátt í afgreiðslu hennar.

Ráðsfundir í tengslum við 116. þing.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Þingið í Afganistan fékk inngöngu í IPU og Úsbekistan var vikið úr sambandinu vegna vangoldinna árgjalda. Þá var ákveðið að víkja Fídjí-eyjum úr IPU þar sem þing landsins var leyst upp eftir valdarán hersins.
    Breytingar á starfi IPU voru samþykktar sem ganga aðallega út á breytt fyrirkomulag á haustþingi sambandsins. Þá var samþykkt fjögurra ára áætlun um samstarf IPU og UNICEF. Stofnanirnar hafa unnið saman að ýmsum verkefnum en nú þótti tímabært að gera samstarfið formlegt. Markmið samstarfsins er að auka þekkingu þingmanna á barnaverndarmálum og fjölga þeim úrræðum sem þingmenn geta beitt í þágu málstaðarins, að auka aðgengi þingmanna að nýjustu upplýsingum og rannsóknum um barnaverndarmál, að auka þátttöku þingmanna í aðgerðum til barnaverndar og styrkja framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Meðal verkefna verður að stofna ráðgjafarhóp þingmanna á sviði barnaverndar, halda svæðisbundnar námsstefnur fyrir þingmenn og auka aðkomu þeirra að lagagerð á sviði barnaverndar, fylgja eftir skýrslu Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum með ýmsum aðgerðum og vinna að afnámi umskurðar kvenna með því að virkja betur þingmenn í þágu málstaðarins.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti á ráðsfundinum skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Bangladess, Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kólumbía, Ekvador, Erítrea, Hondúras, Líbanon, Malasía, Mongólía, Búrma, Pakistan, Palestína/Ísrael, Filippseyjar, Rúanda, Sri Lanka, Tyrkland og Simbabve.
    Þess má geta að 26,5% þingfulltrúa á 116. þingi IPU voru konur, sem er lakari staða en á 115. þingi (30,5%) og á 114. þingi (28,4%). Fimmtán sendinefndir, eða 14% sendinefnda með fleiri en einn fulltrúa, voru einungis skipaðar körlum, en síðast voru þær 11, eða 9,4%.

117. þing IPU í Genf 7.–10. október.
    Fyrir hönd Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Ásta Möller formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður og Þuríður Backma auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Við setningu þingsins flutti forseti IPU, Pier Ferdinando Casini, ræðu en Christine Egerszgei-Obrist, forseti svissneska þingsins, J. Somavia, framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálastofnunar (ILO) og A. Steiner, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) ávörpuðu einnig þingið.
    Þrjár tillögur um neyðarályktun eða utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Íranska sendinefndin lagði fram tillögu um ástandið í Írak, Indónesar lögðu til að fjallað yrði um ástandið í Myanmar og Bretar lögðu fram tillögu um loftslagsbreytingar en drógu hana síðan til baka til að styðja tillögu indónesísku sendinefndarinnar. Því voru greidd atkvæði á milli tveggja tillagna. Ákveðið var í Tólfplús-hópnum að styðja tillögu Indónesíu og var hún samþykkt með meiri hluta atkvæða. Ásta Möller tók þátt í umræðu um neyðarályktunina og lagði áherslu á mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið og sérstaklega nágrannaríki Myanmar legði sitt af mörkum til að stöðva þau mannréttindabrot sem þar ættu sér stað. Þingið samþykkti samhljóða ályktun er ber yfirskriftina: Brýn nauðsyn þess að stöðva víðtæk mannréttindabrot í Myanmar og koma aftur á lýðræðislegum réttindum í landinu. Stjórnvöld í Myanmar eru eindregið hvött til að láta strax af frekari brotum og ofbeldi gegn mótmælendum og íbúum landsins sem eiga fullan rétt á að nota málfrelsi sitt friðsamlega.
    Ný nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna tók til starfa á þinginu og var skýrsla G. Versnick (Belgía) um samband SÞ og þjóðþinga samþykkt sem formlegt stefnumótunarskjal IPU. D. Costea, sendiherra frá Rúmeníu og forseti mannréttindaráðs SÞ, gaf yfirlit yfir helstu tækifæri og áskoranir sem horfðu við nýskipaðri nefnd og ræddi um leiðir sem þing aðildarríkjanna gætu farið til aukins samstarfs við stofnanir SÞ. Skýrsla Finn Martin Vallersnes (Noregur) af fundi ráðgjafarhóps nefndarinnar vakti djúpa umræðu um störf og hagnýti nefndarinnar í framtíðinni. Niðurstöður og hugmyndir umræðunnar voru útfærðar af tillögunefnd stýrðri af Ben Gurirab (Namibía) og var Vallersnes skipaður skýrsluhöfundur hennar. Eftir miklar og gagnlegar umræður í nefndinni var skýrsla nefndarinnar samþykkt á þinginu við lof viðstaddra.
    Breyting á starfi fastanefnda IPU var gerð á vorþingi 2007 og felst í því að nefndirnar munu ekki lengur flytja skýrslur og samþykkja ályktanir á grundvelli þeirra á hverju þingi heldur einungis á vorþingi. Umræður um skýrslur fastanefndanna þriggja fóru því í fyrsta sinn fram sem pallborðsumræður þar sem efni skýrslnanna var kynnt af skýrsluhöfundum og sérfræðingum og í framhaldinu tóku þingmenn þátt í umræðum um málefnin. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var rætt um hlutverk þinga við að ná jafnvægi milli þjóðaröryggis, öryggi þegnanna og frelsi einstaklingsins, ásamt því að koma í veg fyrir að lýðræði sé ógnað. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá framgangi vinnu nefndarinnar við undirbúning skýrslunnar sem flutt verður á vorþinginu í Cape Town. Sérfræðingar frá SÞ og Amnesty International héldu fyrirlestra um samspil öryggis og frelsis einstaklingsins og bentu á viðurkenndar aðgerðir sem þingmenn gætu tileinkað sér til að ábyrgjast að virðing sé borin fyrir mannréttindum samhliða því að þjóðaröryggi sér tryggt. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var fjallað um þingræðislega umsjón með stefnu stjórnvalda varðandi þróunaraðstoð. Í umræðu um drög að skýrslu nefndarinnar var lögð áhersla á gæði og magn aðstoðarinnar og mikilvægt hlutverk þingmanna við umsjón með framlögunum. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, voru tekin fyrir mál innflytjenda, mansal, útlendingahatur og mannréttindi. Sérfræðingar frá skrifstofu SÞ um eiturlyf og glæpi (UNODC) og alþjóðastofnun innflytjenda (IOM) héldu fyrirlestra og fræddu fundarmenn um stöðu mála varðandi innflytjendur og mansal og bentu á leiðir til að bæta kjör þeirra.

Ráðsfundir í tengslum við 117. þing.
    Ráð IPU kom þrisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Gíneu var vikið úr IPU vegna vangoldinna árgjalda. Nýrri handbók fyrir þingmenn um sáttmála um réttindi fatlaðra og siðareglur var dreift til fundargesta. Bókin ber yfirskriftina Frá útilokun til jafnréttis: að skilja réttindi fatlaðra. Unnu IPU og SÞ að gerð og útgáfu hennar. Hægt er að nálgast bókina rafrænt á slóðinni: (www.ipu.org/English/handbks.org). Ráðið hélt sérstaklega upp á tíu ára afmæli alþjóðlegrar yfirlýsingar um lýðræði sem samþykkt var á þingi IPU í Kaíró 1997. Að því tilefni ávörpuðu þingið, auk forseta og framkvæmdastjóra IPU, þingforsetar Suður-Afríku og Georgíu. Í ræðum sínum fóru þeir yfir þær framfarir sem náðst hafa síðan yfirlýsingin var samþykkt og lögðu áherslu á mikilvægi þess að halda efni hennar á lofti, ekki síst hvað varðar lýðræðislegar kosningar.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Bangladess, Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kólumbía, Ekvador, Erítrea, Hondúras, Líbanon, Malasía, Mongólía, Búrma, Pakistan, Palestína/Ísrael, Filippseyjar, Rúanda, Sri Lanka, Tyrkland og Simbabve. Þess má geta að 31,1% þingfulltrúa á 117. þingi IPU voru konur, sem er betri staða en á 116. þingi (26,5%).
    
5. Ályktanir IPU árið 2007.
Ályktanir 116. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
       1.      Að tryggja gagnkvæma virðingu og friðsamlega sambúð samfélaga með ólík trúarbrög í hnattvæddum heimi.
       2.      Atvinnusköpun- og öryggi á tímum hnattvæðingar.
       3.      Að stuðla að fjölbreytni og jafnrétti með sameiginlegum lýðræðis- og kosningastöðlum.
Ályktanir 117. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
          1.      Brýna nauðsyn þess að stöðva víðtæk mannréttindabrot í Myanmar og koma aftur á lýðræðislegum réttindum í landinu.

Alþingi, 27. febr. 2008.



Ásta Möller,


form.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


varaform.


Þuríður Backman.