Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 514. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 813  —  514. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stefnumörkun í málefnum kvenfanga og stofnun deildaskipts fangelsis fyrir konur.

Flm.: Alma Lísa Jóhannsdóttir, Álfheiður Ingadóttir,     Ögmundur Jónasson, Paul Nikolov.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu í málefnum kvenfanga og undirbúa byggingu deildaskipts fangelsis fyrir konur sem yrði á höfuðborgarsvæðinu.

Greinargerð.


    Fangelsismál hafa verið í brennidepli undanfarin ár. Nýverið skilaði nefnd undir forustu Margrétar Frímannsdóttur skýrslu um framtíðarrekstur fangelsis að Litla-Hrauni, en í skýrslunni var einnig komið inn á núverandi aðstöðu kvenfanga og framtíðarsýn fangelsisyfirvalda í þeim efnum.
    Niðurstaða nefndarinnar var m.a. sú að það sé mikilvægt að konur eigi möguleika á að afplána refsivist í sérstöku kvennafangelsi. Einnig var talið mikilvægt að móta heildstæða stefnu um vistun kvenfanga. Til þess að bjóða konum sambærileg úrræði og karlföngum þarf að mati nefndarinnar deildaskipt kvennafangelsi, þ.e. konur þurfa að eiga möguleika á vistun eftir eðli brots og ýmist í öryggisgæslu eða almennri fangavist. Jafnframt þarf að tryggja kvenföngum aðstöðu til náms og þroska eins og best verður á kosið meðan á afplánun stendur.
    Rannsóknir hafa sýnt að ein helsta ástæðan fyrir þunglyndi kvenna í fangelsi eru áhyggjur og söknuður eftir börnum. Góð samskipti við börn geta verið forsenda betri líðunar og mikilvægur þáttur í allri meðferð í fangelsinu. Skapa verður aðstæður í fangelsum sem gera konum kleift að viðhalda og helst styrkja þessi fjölskyldutengsl á meðan þær eru í afplánun. Því er mikilvægt að konur hafi möguleika á að taka út fangavist eins nálægt heimabyggð og kostur er og því skiptir máli að þær hafi möguleika á vistun á fleiri en einum stað á landinu. Hærra hlutfall kvenna en karla í fangelsum eiga börn og þarf að taka tillit til þess að konur hafa sterk tengsl við fjölskyldur sínar og þurfa á þeim að halda. Það má ekki gleymast að þegar mæður eru dæmdar í fangelsisvistun eru börn að sama skapi dæmd í aðskilnað. Okkur ber því að vanda okkur í þessum málum.
    Þarfir kven- og karlfanga eru ólíkar. Konur eru í ýmsum tilvikum verr staddar en karlar vegna andlegra eða líkamlegra sjúkdóma þegar þær koma til vistunar. Sökum þessa eru kvenfangar oftar atvinnulausar áður en þær hefja afplánun. Oft eiga þær einnig í meiri félags- og heilbrigðisvanda en karlarnir. Í mörgum tilvikum hafa þær átt erfiða æsku sem einkennist af líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hlúa þarf vel að heilsufari kvenna í fangavist og þar þurfa að vera aðstæður sem bjóða upp á að því sé sinnt á góðan máta.
    Yfirlýst stefna Fangelsismálastofnunar er að konum skuli bjóðast sömu tækifæri í afplánun og körlum. Konur eru að meðaltali 6% fanga á hverjum tíma en þær vilja gleymast þrátt fyrir að ákveðnar vísbendingar séu um að konum sem brjóta af sér sé að fjölga. Þetta er í samræmi við alþjóðlega þróun en kvenföngum hefur til að mynda fjölgað um 200% í Kanada á síðasta áratug.
    Á undanförnum árum hafa verið 6–7 konur samtímis í fangelsum á Íslandi, flestar 10 í senn. Kvenfangar eru nú vistaðir í fangelsinu í Kópavogi og á Kvíabryggju. Fangelsið við Kópavogsbraut hefur verið rekið sem blandað fangelsi og hafa karlfangar sem þar hafa verið vistaðir verið valdir sérstaklega með tilliti til þess að þeir afplána í kynjablönduðu fangelsi. Til stendur að loka Kópavogsfangelsinu en gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir kvenfanga í endurnýjuðu fangelsi á Akureyri.
    Í frumteikningum að framtíðarhúsnæði Litla-Hrauns er gert ráð fyrir sérstakri kvennadeild. Samkvæmt þeim hugmyndum verða kvenfangar vistaðir í sama húsi og karlar en á sér gangi. Ekki er gert ráð fyrir nauðsynlegum breytingum á aðstöðu til náms, vinnu, útivistar og líkamsræktar fanga sem taka mið af mismunandi þörfum kvenna og karla. Í skýrslu vinnuhóps um fyrirhugað fangelsi á Hólmsheiði segir í drögum að þarfagreiningu að gera skuli ráð fyrir lítilli íbúðareiningu fyrir kvenfanga með fjórum fangaklefum, en ekki er gert ráð fyrir að fangelsið á Hólmsheiði verði afplánunarfangelsi til langs tíma, heldur einungis til skemmri tíma vistunar.
    Þegar litið er til skipanar mála í löndum sem talin eru framarlega í þessum málum er misjafn hátturinn á. Í Svíþjóð eru kvenfangar vistaðir í sérstökum kvennafangelsum. Danir hafa vistað karla og konur í sameiginlegum fangelsum og það sama á við um Noreg en Norðmenn eru einnig með sérstök kvennafangelsi. Bretar hafa ekki verið með blandaða fangelsisvist né heldur Kanadamenn.
    Konur eru að jafnaði dæmdar fyrir önnur brot en karlar. Brot þeirra er ekki eins ofbeldisfull og þær tengjast frekar smávægilegum þjófnaðarbrotum og skjalafalsi en karlar harðari ofbeldisbrotum, ránum og innbrotum. Það sem bæði kynin virðast eiga sameiginlegt eru fíkniefnabrotin en um 30% eru að afplána fangelsisvist fyrir slík brot. Rannsóknir hafa einnig sýnt að mjög hátt hlutfall kvenna neytir fíkniefna fyrir afplánun og hafa þær í mörgum tilvika mun lengri meðferðarsögu á bak við sig en karlar í fangelsum. Konur í fangavist þurfa því góð meðferðarúrræði og í mörgum tilvikum aðstoð frá aðilum eins og Stígamótum og Kvennaathvarfi.
    Auðvitað ber að fagna því að tekið hefur verið skref fram á við í jafnréttisbaráttunni með því að bjóða upp á fleiri vistunarmöguleika fyrir konur en áður hafa verið í boði hér á landi. Í starfi nefndarinnar um framtíð Litla-Hrauns kom fram í athugasemdum frá starfsmönnum og sérfræðingum að taka þarf tillit til sérþarfa kvenna við endurskipulagningu fangelsanna. Þær séu aðrar en karla vegna þess m.a. sem er talið upp hér að framan. Flestir þeirra sem nefndin talaði við töldu heppilegra að vista konur í sérstöku kvennafangelsi. Þá var dregið í efa að fyrirhuguð staðsetning kvennadeildar á Litla-Hrauni væri heppileg með tilliti til sérþarfa kvenna. Þetta kemur heim og saman við reynslu margra sérfræðinga erlendis. Svíar hafa til dæmis ekki góða reynslu af sameiginlegri vistun kven- og karlfanga en þar jókst ofbeldi gegn konum innan fangelsisins þegar sú stefna var tekin. Hér á landi hefur sameiginleg vistun gengið vel en hafa ber í huga að karlfangar voru sérvaldir í hvert sinn. Slíkt mun ekki vera möguleiki á Litla-Hrauni sem er á vera öryggisfangelsi fyrst og fremst ætlað körlum. Í ljósi smæðar þjóðarinnar getur sameiginleg vistun kven- og karlfanga haft í för með sér erfiðleika vegna hugsanlegra fyrri tengsla þessara hópa. Í ýmsum tilvikum hafa konurnar einmitt orðið fyrir ofbeldi af hendi þessara sömu manna.
    Lengi hefur verið bent á að brýnt sé að veita kvenföngum sömu vistunarúrræði og karlföngum en þrátt fyrir umræður um þetta á Alþingi hefur lítið verið gert. Staðan er þannig nú í málefnum kvenfanga að þau þola enga bið og er því afar mikilvægt að þessi tillaga verði samþykkt svo að hægt sé að hlúa að málefnum kvenfanga á mannsæmandi hátt.