Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 549. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 850  —  549. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bætta hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði.

Flm.: Þuríður Backman, Guðbjartur Hannesson, Siv Friðleifsdóttir,
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Magnús Stefánsson,
Alma Lísa Jóhannsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það verkefni að leita leiða til að tryggja að erilshávaði í skólarýmum verði innan þeirra marka að geta talist hættulaus fyrir rödd og heyrn nemenda og kennara. Í þeim tilgangi verði hópnum falið að kanna hvort ástæða er til að semja reglugerð eða gera tillögur að lagabreytingum. Einnig skal hann setja fram tillögur um hvernig opinberu eftirliti verði fyrir komið svo að ákvæðum laga og reglugerða verði framfylgt.
    Starfshópurinn verði skipaður einum fulltrúa heilbrigðisráðuneytis, einum fulltrúa félags- og tryggingamálaráðuneytis, einum fulltrúa menntamálaráðuneytis, einum fulltrúa umhverfisráðuneytis, tveimur fulltrúum tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa tilnefndum af Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Niðurstöður hópsins verði kynntar Alþingi fyrir árslok 2008.

Greinargerð.


    9. nóvember 2006 gaf félagsmálaráðherra út reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum, nr. 921/2006. Í 2. gr. segir að reglugerðinni sé ætlað „að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna sem eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna hávaða við störf sín, einkum álagi er kann að leiða til heyrnarskaða“.
    Eins þörf og setning þessarar reglugerðar var, þá tekur hún aðeins til hluta þess hóps sem á það á hættu að verða fyrir heyrnarskaða, þ.e. starfsmanna og vinnuumhverfis þeirra, en ekki til þess fjölmenna hóps sem eru börn og kennarar á öllum skólastigum. Sá hávaði sem sá hópur býr við hefur vakið athygli sérfræðinga og veldur þeim áhyggjum, sbr. fylgiskjal III en þar kemur fram að 60% 7 ára barna í Gautaborg telja sig þjást af eyrnasuði (tinnitus). Eyrnasuð er vaxandi heyrnarsjúkdómur meðal barna en talið er að hann stafi af hávaðatengdu álagi. Einkum er um að ræða svonefndan „erilshávaða“, þ.e. hávaða sem þeir sem sækja skóla til vinnu eða náms valda sjálfir en hann hefur oft reynst fara yfir hættumörk fyrir heyrn þeirra. Ýmis úrræði eru til þess að draga úr honum eins og fram kemur í fylgiskjali II, en skoða þarf þó með heildstæðum og faglegum hætti hvernig megi bregðast við með sérstakri lagasetningu eða reglugerð. Þannig er einnig líklegra að raunverulegur árangur verði af aðgerðum gegn erilshávaða.
    Önnur hlið á þessum vanda snýr að röddinni og þeim skaða sem hún getur hæglega orðið fyrir við þær aðstæður sem einkenna jafnan hljóðvist í kennsluhúsnæði. Þá hugmynd þarf að taka alvarlega að líta á röddina sem atvinnutæki kennara og að því beri að huga að henni út frá vinnuverndarsjónarmiðum. Í því felast ekki aðeins aðgerðir til þess að draga úr erilshávaða í skólabyggingum heldur þarf einnig að huga að réttri raddbeitingu sem hluta af kennaranáminu.
    Enda þótt efni þessarar tillögu kunni að virðast einfalt tekur hún til ýmissa úrræða á mismunandi sviðum. Eins og fram kemur í fylgiskjali I þarf aðkomu fjögurra ráðuneyta til þess að setja fram lausnir á þessum vanda en einnig er lagt til að nefndina skipi fulltrúar úr fagfélagi talkennara og talmeinafræðinga og Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Þar eð aðstæður á þessu sviði eru með öllu óviðunandi á Íslandi, sbr. fylgiskjöl IV og V, þarf starfshópurinn einnig að kynna sér endurbætur skólahúsnæðis og endurskoðun reglugerða með tilliti til hljóðvistar annars staðar á Norðurlöndum.
    Í fylgiskjali I er grein eftir dr. Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur sem fjallar um þörfina fyrir að löggjafarvaldið láti sig málið varða og þar bent á hvaða aðilar þurfi einnig að eiga aðkomu að því. Í fylgiskjali II er lokakafli skýrslu dr. Valdísar um raddheilsu leikskólakennara, eyrnasögu leikskólabarna og hljóðvist í þremur leikskólum Hjallastefnunnar þar sem nefnd eru dæmi um úrræði sem grípa má til innan veggja leikskóla til lausnar þessa vanda. Í fylgiskjali III er frétt sem er til marks um skaðann sem hlýst af umræddum vanda. Fylgiskjal IV er bréf Vinnueftirlitsins til Skipulagsstofnunar um mikilvægi þess að „draga úr hávaðaálagi bæði fyrir starfsfólk og börn í skólum, leikskólum, við tómstundaiðkun og á öðrum stöðum þar sem brýnt er að skilja talað mál“. Síðasta fylgiskjalið er bréf Ólafs Hjálmarssonar verkfræðings til umboðsmanns barna sama efnis en umboðsmaður tók málið í kjölfarið upp í erindi til menntamálaráðherra 28. júní 2007.



Fylgiskjal I.


Valdís Ingibjörg Jónsdóttir:

Raddskaðar eru alvarlegt þjóðfélagslegt vandamál. Þörf á lagasetningu.


(Talfræðingurinn, 20. árgangur, 2007.)


Löggjöf er þörf.

    Vorið 2006 komu saman í Reykjavík nokkrir norrænir vísindamenn á sviði raddar, bæði læknar og þjálfarar. Markmiðið var að bera saman bækur sínar og finna leið til þess að beina sjónum yfirvalda að ólestri í þessum málum og þeirri brýnu þörf að sett verði í löggjöf ákvæði sem vernda röddina sem atvinnutæki. Um leið yrðu tryggð ásættanleg hlustunarskilyrði fyrir áheyrendur. Eins og sjá má af meðfylgjandi töflu er löggjöf um hlustunarskilyrði misjöfn í þessum fimm löndum og greinilegt að Finnar standa þar fremstir. Skýringin gæti verið sú að þeir hafa á að skipa vísindamönnum sem hafa beitt sér mikið fyrir bættum umhverfisskilyrðum þar sem munnleg tjáskipti eiga sér stað. Hins vegar hefur komið í ljós að málið er nokkuð snúið hvað þessi mál varðar. Ekki færri en fjögur ráðuneyti bera ábyrgð á hljóðvist, t.d. í kennslustofu. Þannig heyrir velferð barnanna undir heilbrigðisráðuneytið. Vinnuvernd fullorðinna, t.d. kennara, heyrir undir félagsmálaráðuneytið. Menntamálaráðuneytinu ber að sjá til þess að kennsla skili sínu og að lokum heyrir húsnæði undir umhverfisráðuneytið. Málið er því ekki einfalt og í mörg horn að líta þegar kemur að löggjöf sem tryggja myndi hlustunarskilyrði í húsnæði þar sem fræðsla og upplýsingastarfsemi á sér stað eins og t.d. í kennslustofum. Fyrst og fremst þarf að huga að því í lögum og reglugerðum hvernig bregðast eigi við erilshávaða, þ.e. þeim hávaða sem fólk sjálft veldur og getur farið vel yfir hættumörk fyrir heyrn eins og ótal dæmi sýna. Í því sambandi þarf að huga að skólastefnu, hönnun húsnæðis, gerð húsbúnaðar og leikmuna svo dæmi séu tekin. Í dag fyrirfinnst reglugerð sem nær til mikilvægis munnlegra samskipta, þ.e. „Á skrifstofum og öðrum stöðum þar sem gerðar eru miklar kröfur til einbeitingar og samræður eiga að geta átt sér stað óhindrað skal leitast við að hávaði fari ekki yfir 50dB(A) að jafnaði á vinnutíma.“ (Reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum nr. 921/2006). Hér er ekki minnst á erilshávaða heldur utanaðkomandi hávaða sem telst þá koma frá t.d. umferð, umgangi eða tækjum og tólum. Löggjafinn þarf að endurskoða þessi mál með tilliti til erilshávaða. Það hlýtur að vera krafa framsegjanda að þurfa ekki að ofreyna röddina við slíkar aðstæður og krafa áheyranda að geta heyrt hið talaða mál.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    *    sá tími sem það tekur 60dB hljóð að deyja út
    **    hljóð sem líkja eftir því hvernig mannseyrað nemur talhljóð
    ***    miðað við að enginn sé í vistarverunni.

Fylgiskjal II.

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir:

Skýrsla um raddheilsu leikskólakennara, eyrnasögu leikskólabarna
og hljóðvist í þremur leikskólum Hjallastefnunnar.

(Talmeinastofan „Það er málið“, Akureyri, 2006.)

10. Hvað er til ráða.
10.1 Kennarinn.
     *      Forvarnarstarf hefur sýnt sig í að skila árangri með fækkun veikindadaga. Strax í kennaranámi þarf að koma til fræðsla um rödd eins og:
        a)     að skilja líkamsfræðina sem þar er á bak við,
        b)     hvernig rödd getur brugðist og hvers vegna,
        c)     hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir misnotkun raddar,
        d)     hvaða þættir það eru í umhverfinu sem geta orðið rödd skeinuhættir og hvers vegna. Það er t.d. umhugsunarefni að 20% af kennaranemum skuli þegar vera komnir með raddveilueinkenni ÁÐUR en þeir fara út í starfið (Simberg, 2000).
     *      Starfandi leikskólakennurum standi til boða regluleg námskeið um raddbeitingu og raddvernd.
     *      Leikskólakennurum sem hafa söngrödd og hafa fengið raddþjálfun séu notaðir til að syngja með börnunum. Öðrum sé hlíft við það eins og hægt er.
     *      Fylgst sé með raddheilsu og heyrn leikskólakennara og þeir eigi greiðan aðgang að hjálp eins og að fara til talmeinafræðings sér að kostnaðarlausu.
     *      Notkun magnarakerfis. Notkun magnarakerfis í skólum og leikskólum er að ryðja sér til rúms enda hefur það sýnt sig að sé það notað og notað rétt þá bæði gagnast það rödd kennara svo og hlustun nemenda þannig að meiri athygli, einbeiting og ró hefur fengist.

10.2 Nemendur.
     *      Leikskólakennurum þarf að vera kunnugt um eyrnasögu leikskólabarnanna og geta fylgst með því ef þau fá í eyrun. Það er ekki hægt að ætlast til að börn sem fá ítrekað eyrnabólgur heyri það sem er sagt við þau, jafnvel þó fjarlægðin sé stutt milli þeirra og viðmælenda. Leikskólakennurum þarf líka að vera kunnugt um með hvoru eyranu barnið heyrir betur.

10.3 Húsnæði.
10.3.1 Hávaði og hljómburður.
     *      Gætt sé að því að hljómburður sé góður og a.m.k. innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í byggingareglugerðum. Þessa þarf vitanlega að gæta strax við hönnun húsnæðis. Finnar hafa rannsakað (Pekkarinen, Viljanen, 1990) hvernig hægt er að bæta hljómburð með því að þekja loft og veggina að einum þriðja niður með hljóðeinangrunarefni og/eða þekja loft og 2 veggi alveg með hljóðeinangrunarefni.
     *      Stærð vistarvera. Stór rými eða rými með þunnum skilveggjum, sem ná jafnvel ekki alveg upp í loft, hleypa hljóði yfir í aðrar vistarverur. Raddir og/eða önnur hljóð eru eins og lykt. Þau berast um allt ef ekki er reynt að stoppa þau af með nægilega lokuðum rýmum.
     *      Að gólfflötur sé mjúkur þannig að hann valdi ekki hávaða þegar eitthvað er dregið eftir honum eða skellt á hann. Þetta þýðir að þekja þarf gólf með mjúkum dúkum EKKI teppum sem valda rykmyndun.
     *      Húsgögn valdi ekki óþarfa hávaða eins og t.d. pinnastólar gera. Séu tréhúsgögn með sverum fótum þarf að setja hljóðeinangrandi efni neðan á fæturna eins og á fætur pinnastólanna.
     *      Þó tréleikföng eins og kubbar séu skemmtileg valda þau oft óþarfa hávaða þegar verið er að henda þeim til eða skella þeim í gólf. Ef hægt er að fá kubba úr gæðaplasti væri það æskilegra.
     *      Gengið sé um á mjúkum sólum sem ekki valda hávaða.
     *      Það hefur sýnt sig að hávaði stafar aðallega frá börnunum sjálfum (Shield og Dockrell, 2002). Þetta gefur tilefni til þess að hugleiða fjölda barna í hóp.
     *      Eyra sem lýsir þegar hávaði er kominn yfir æskileg mörk getur verið gagnlegt ef því er fylgt eftir að börn fylgist með því hvernig það lýsir. Annars er hætta á að eyrað hætti að vekja athygli.

10.3.2     Andrúmsloft og hitastig.
     *      Reynt sé að koma í veg fyrir mishita. Það þarf t.d. að gæta þess að hitastillar á ofni séu ekki í trekk frá gluggum.
     *      Halda góðum loftskiptum. Það hefur t.d. verið gert með loftrifum í gluggapóstum sem hægt er að loka með lokum.
     *      Vera með teppi. Dönsk rannsókn (Bach, 1994) sýndi samband á milli heimila með teppum á gólfi og astma barna. Vera heldur með mottur þegar verið er að láta börn leika sér með kubba. Hægt er að fá mottur úr mjúku efni, fjaðrandi plastefni.
     *      Reyna að halda ryki í andrúmslofti í lágmarki, t.d. með því að vera ekki með mikið af lausum pappír.
     *      Ozon sem ertir öndunarveg kemur frá leiserprenturum og ljósritunarvélum. Reyna að vera ekki mikið yfir slíkum vélum þegar verið er að nota þær. Samkvæmt byggingareglugerð er ætlast til að ljósritunarvélar séu utan vinnsvæðis fólks í vel loftræstu rými.
     *      Stórar grænar plöntur hafa sýnt sig í að bæta gæði andrúmslofts.

11. LOKAORÐ
    Leikskólar hljóta að teljast menntastofnanir þar sem fræðsla og uppeldisstarf er meginþráðurinn í starfseminni. Niðurstöður þessarar könnunar benda til að:
    a)    Rödd leikskólakennara sé almennt ekki í góðu ásigkomulagi og sé í hættu vegna óvistvænna umhverfisþátta.
    a)    Stór hluti barna geti átt við heyrnarvandamál að stríða.
    b)    Hávaði geti verið það mikill að hann komi í veg fyrir eðlileg munnleg samskipti. Auk þess geti augnablikshávaði orðið það mikill að hann skaði heyrn.
    Niðurstöðurnar gefa því í skyn að starfsemi leikskóla sem menntastofnana sé gert verulega erfitt fyrir. Þær benda til nauðsynjar þess að byggingareglugerðir séu samdar að þeirri starfsemi sem þarna á sér stað. Hingað til hefur engin relgugerð beinst sérstaklega að raddvernd og/eða nemendur geti heyrt það sem fer fram í kennslurými. Það verður að miða endurómunartíma við getu barna til að geta heyrt en þar hefur ASHA (1995) bent á að endurómun megi ekki vera meiri en 0,4 sekúndur. Ef ekki er hægt að minnka hávaði niður í þann hávaða sem reglugerðir gera ráð fyrir að eigi að vera til þess að samtal og einbeiting geti átt sér stað, þ.e. um 50–60 dB þá hlýtur magnarakerfi að vera sú lausn sem sér til þess að börn heyri það sem kennarinn er að segja. Jafnframt myndi magnarakerfi hlífa rödd kennara eins og rannsóknir hafa eindregið bent til (Roy o.fl. 2002, Valdís I. Jónsdóttir, 2003) og sjá til þess að nemendur heyri mun betur til kennara síns, einbeiting þeirra aukist og agavandamál minnki (Palmer, 1998, Sapienza, 1999, Valdís I. Jónsdóttir, 2003). Hins vegar ef hljómburður er ekki góður þá gæti magnarakerfi gert meira ógagn en gagn þar sem það myndi auka við bergmál. Ódýr og óvönduð hljóðkerfi valda þreytandi gjallanda.



Fylgiskjal III.


Fleiri börn þjást af eyrnasuði.
(Frétt á heimasíðu Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, 16. nóvember 2005.)


    Eyrnasuð er vaxandi vandamál hjá börnum. Rúmlega 60% sjö ára barna segist hafa eða hafa haft suð fyrir eyrum. Fyrir sjö árum sögðust 12% prósent barna á sama aldri vera með eyrnasuð. Þegar borin eru saman svör við spurningum sem lagðar voru fyrir 950 sjö ára börn á árinu 1997 og 750 sjö ára börn á árinu 2004 kemur fram mikil aukning á eyrnasuði.
    Spurningarnar voru lagðar fyrir börnin í Gautaborg í tengslum við heyrnarpróf í skólum sem öll börn fara í gegnum. Að sögn þeirra sem að rannsókninni stóðu leiðir hún í ljós að mikill hávaði og streita er í umhverfi barna. Hávaðinn í skólunum leiðir til streituviðbragða í heilanum sem hefur þau áhrif að hann á erfiðara með að sía burt eyrnasuðið. Börnin verða þannig meðvitaðri um hljóðin sem trufla. Aukningin úr 12 í 61 prósent á við um sjö ára börn sem segjast í einstaka tilfellum eða endurtekið fá suð eða hringjandi hljóð í eyrun.
    Börnin voru einnig spurð hvort þau hefðu fengið suð fyrir eyrun eftir að hafa hlustað á tónlist eða verið í miklum hávaða. Þessari spurningu svöruðu 40 prósent barnanna játandi í fyrra en aðeins 2,5 prósent árið 1997. Dr. Kajsa-Mia Holgers yfirlæknir á Sahlgrenskasjúkrahúsinu í Gautaborg sem leiddi rannsóknina segir að í flestum tilfellum sé um tímabundið eyrnasuð að ræða. Hún telur hugsanlegt að börn séu meðvitaðri en áður um hvað eyrnasuð er en það sé aðeins lítill hluti af hópnum sem sú skýring eigi við.
    Aukning heyrnarskerðingar meðal kennara. Þeir sem starfa með börnum segja aukinn hávaða vera í umhverfi þeirra. Leikskóladeildir hafa stækkað og bekkjardeildir einnig sem veldur meiri hávaða. Þannig hefur heyrnarskerðing af völdum hávaða meðal kvenna aukist og má rekja það til starfa þeirra. Á vinnustöðum sem flokkast sem hefðbundnir karlavinnustaðir hefur mikið áunnist í því að draga úr hávaða og auka hávaðavarnir meðan að skólar og leikskólar þar sem konur eru í meiri hluta starfsmanna hafa ekki fengið næga athygli.
    (Byggt á frétt í Dagens Nyheter 10. nóvember 2005.)



Fylgiskjal IV.


Bréf til Skipulagsstofnunar frá Vinnueftirliti ríkisins.


(8. desember 2006.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Bréf til umboðsmanns barna frá Ólafi Hjálmarssyni verkfræðingi.

(Reykjavík, 30. maí 2007.)


Málefni: Hljóðvist í leik- og grunnskólum.

    Ég þakka enn á ný góðan fund um ofanskráð málefni á skrifstofu þinni þann 9. maí sl. Í kjölfar hans sendi ég þessar línur með umræddum áhyggjum mínum af hávaða í skólum. Það eru ekki síst yngstu börnin sem eru í hættu. Hér er að stórum hluta byggt á erindi sem ég sendi umhverfis- og menntamálanefnd Alþingis þann 1. febrúar í ár. Hvorug nefndin sá ástæðu til þess að taka málið á dagskrá eða svara erindi mínu.
    Á ráðstefnu sem haldin var á vegum Umhverfisstofnunar um hávaða í umhverfi barna þann 1. apríl 2005 birti fulltrúi Vinnueftirlitsins sláandi niðurstöður um hávaða í leik- og grunnskólum. Niðurstöður ómtímamælinga sýna svo ekki verður um villst að skólahúsnæði hefur verið byggt í stórum stíl án þess að virða lágmarksákvæði núgildandi byggingarreglugerðar um hljóðvist. Meðfylgjandi ástandsskýrsla Vinnueftirlitsins sem unnin var fyrir Skipulagsstofnun í lok síðasta árs sýnir stöðuna glöggt (fskj. 1). Opinbert eftirlit virðist í molum. Dæmi eru um nýjar skólabyggingar, í hverjum mæld hljómlengd rýma eða svokallaður ómtími reynist meira en þrisvar sinnum yfir leyfilegum mörkum. Og þau eru of rúm enda löngu úrelt með hliðsjón af nýjum kennsluháttum. Við erum þegar einum til tveimur áratugum á eftir nágrannaþjóðum okkar í rannsóknum og löggjöf í þessu efni. Leiðbeiningar alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar virðast ekki hafa náð eyrum íslenskra embættismanna.
    Frá því að mér varð ljóst hversu alvarlegt ástandið er hér á landi, hef ég af veikum mætti í liðlega tvö ár verið að hvetja arkitekta, sveitarfélög, umhverfisráðuneyti og nú síðast Skipulagsstofnun og Alþingi til þess að hraða úrbótum og endurskoðun byggingarreglugerðar í þessu efni. Eftirtekjan er of rýr. Reykjavíkurborg og Kópavogsbær hafa sýnt lofsvert framtak og byrjað að horfast í augu við vandann með aðgerðum. Tómlæti ríkisvaldsins veldur hins vegar verulegum áhyggjum. Í bréfi til mín hinn 22. janúar sl. segir skipulagsstjóri orðrétt: „Mín skoðun er sú að forsendur fyrir hvatningarbréfi sem við ræddum um á fundi okkar í október séu breyttar. Það er meginmálið og því sé ég ekki að ástæða sé til þess að taka þetta mál sérstaklega út þegar það er mikill fjöldi mála sem full ástæða er til að benda sveitarstjórnum á.“ Aðspurður hvort þetta væri niðurstaða Skipulagsstofnunar eða umhverfisráðuneytis, sagðist skipulagsstjóri hafa haft samráð við ráðuneytið, sem hefði lofað honum tveimur nýjum stöðugildum á sviði byggingarmála. Þar með tel ég einsýnt, með hliðsjón af fyrri samskiptum mínum við umhverfisráðuneyti, að engra aðgerða sé að vænta ur þeirri átt fyrr en með nýjum byggingar- og skipulagslögum og endurskoðaðri byggingarreglugerð i kjölfarið; ef að líkum lætur eftir tvö til þrjú ár. Það er langur tími í lífi barna í vondum aðstæðum. Á meðan tala skólastjórnendur leik- og grunnskóla fyrir of daufum eyrum um nauðsynlegar úrbætur. Vandséð er að ástandið verði bætt nógu hröðum skrefum án aðkomu ríkisvaldsins.
    Framangreind niðurstaða er því óviðunandi. Mælingar Vinnueftirlitsins sýna ítrekað hávaða í grunn- og leikskólum yfir hættumörkum (sbr. fskj. 1). Væri farið að settum reglum fyrir vinnustaði ættu börn og starfsmenn fjölmargra leikskóla að bera heyrnarskjól. Með ófullnægjandi aðbúnaði er of víða verið að valda börnum, kennurum og öðrum starfsmönnum skóla óbætanlegu heyrnartjóni, sem mögulega fyrst kemur í ljós á efri árum. Hávaðanum fylgja aðrir kvillar svo sem streita, höfuðverkur og námsörðugleikar. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á samband hávaða og hegðunarvandamála. Við lítum of oft á börnin sem vandamál og gefum þeim ritalín og geðlyf í meira magni en þekkist á byggðu bóli, í stað þess að byrja á því að bæta allsendis ófullnægjandi kennsluumhverfi. Þessar staðreyndir tel ég siðferðilega óverjandi að horfa upp á aðgerðalaus.
    Nágrannaþjóðir okkar eru hröðum skrefum að bæta hljóðið í sínum skólum. Eins og mönnum er sjálfsagt kunnugt, var Kolding Kommune í Danmörku veitt sérstök viðurkenning fyrir átaksverkefni til bættrar hljóðvistar m.a. í skólum undir lok síðasta árs. Það væri mögulega til þess vinnandi að leita í smiðju þeirra. Miklu víðar hafa þjóðir verið að vinna kerfisbundið í rannsóknum og lausnum á umræddum vanda. Samanburður íslenskra og erlendra reglugerðarkrafna kemur fram í töflu 1.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 1    Hljóðvist í almennum kennslustofum. Samanburður íslenskra reglugerðarákvæða við kröfur og leiðbeiningar í öðrum löndum. Leiðbeiningargildi eða æskileg gildi eru innan sviga.

Ný byggingarreglugerð í Danmörku (Bygningsreglement 07) er í þessu efni samhljóða leiðbeiningunum frá 2004. Danir og Svíar hafa ekki gengið svo langt að gera kröfu um eða mælast til þess að ómtími almennra kennslustofa sé innan við 0,4 sekúndur, eins og Nýsjálendingar virðast stefna að. Hljóðflokkur A, sem er besti flokkur sænska staðalsins, heggur þó nærri með ómtíma skemmri en 0,5 sekúndur. Núverandi reglugerðarkröfur hér á landi ná ekki fyllilega hljóðflokki D, þ.e. lakasta flokki sænska staðalsins. Dönsku leiðbeiningarnar bera glöggt með sér að hér togast á tvö sjónarmið; annars vegar að tryggja áheyrileika fyrirlesturs og að hann berist af nægum styrk til þeirra nemenda sem fjærst sitja og hins vegar að tryggja sem allra lægst hljóðstig í kennslustofu. Með auknu vægi einstaklingsmiðaðs náms er ekki óeðlilegt að síðara sjónarmiðið hafi ríkara vægi. Fyrir leikskóladeildir eru þessar þjóðir á einu máli um að æskileg ómtímamörk séu ómtími innan við 0,4 sekúndur. Það sama gæti átt við yngstu bekki grunnskóla. Frekari rannsókna er þörf til þess að renna stoðum undir þá niðurstöðu.
    Til frekari upplýsingar eru meðfylgjandi fyrirlestrarslæður frá hljóðráðstefnu sem haldin var 30. nóvember á nýliðnu ári (fskj. 3). Ég er boðinn og búinn til þess að veita frekari upplýsingar ef eftir verður leitað.
    Með von um þessar línur fái nokkru hnikað.