Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 559. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 860  —  559. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um uppbyggingu í málefnum fatlaðra.

Flm: Alma Lísa Jóhannsdóttir, Þuríður Backman, Árni Þór Sigurðsson, Paul Nikolov.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hraða vinnu við fullgildingu sáttmálmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og hrinda í framkvæmd þeirri stefnumótun og sýn um þjónustu við fatlaða sem fyrir liggur í skýrslunni „Mótum framtíð – þjónusta við fötluð börn og fullorðna 2007–2016“.

Greinargerð.


    Síðustu ár hefur verið unnin mjög metnaðarfull stefnumótun í málefnum fatlaðra en því miður hefur núverandi ríkisstjórn ekki fylgt henni. Þegar hafist var handa við stefnumótunina á Evrópuári fatlaðra 2003 var löngu orðið tímabært að endurskoða hugmyndafræðina í málefnum fatlaðra hér á landi. Niðurstöður stefnumótunarinnar voru kynntar í skýrslu á ráðstefnunni „Mótum framtíð“ sem fram fór dagana 29.–30. mars árið 2007, en þar var m.a. fjallað um stefnur og strauma í félagslegri þjónustu.
    Almenn sátt er um skýrsluna og í ljósi þeirrar vinnu sem í hana var lögð af hálfu félagsmálaráðuneytisins, hagsmunaaðila, fatlaðs fólks, aðstandenda og fleiri er með öllu ótækt að hún fari forgörðum. Í skýrslunni er talað um það sem háleit markmið að fatlað fólk á Íslandi njóti sambærilegra lífskjara og lífsgæða og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Flutningsmenn telja það hins vegar vera grundvallarmannréttindi í framsæknu velferðarsamfélagi.
    Í skýrslunni kemur m.a. fram hversu mikilvægt er að styrkja forsendur hvers einstaklings til þátttöku í samfélaginu. Skert færni er ekki eini þátturinn sem hefur áhrif heldur hafa félags- og umhverfisþættir einnig mikil áhrif á möguleika hvers og eins til þess að vera virkur í samfélaginu. Hindranir koma niður á möguleikum til menntunar, vinnu og til að lifa virku félagslegu lífi. Það er því mannréttindamál að skapa aðstæður þar sem allir þegnar samfélagsins hafa sambærilega möguleika til að vaxa og dafna.
    Auka þarf stuðning við fjölskyldur fatlaðra barna. Einstaklingsmiðuð, sveigjanleg þjónusta með þarfir hvers og eins að leiðarljósi hlýtur að vera markmið í allri þjónustu.
    Auðvelda þarf þessum hópi að fylgja eftir réttindum sínum og mikilvægt er að ekki séu teknar ákvarðarnir um hagi einstaklinga án þátttöku þeirra sjálfra. Fólk með fötlun á að hafa möguleika til að hafa áhrif á alla ákvarðanatöku þeim viðkomandi og tryggja verður fullan aðgang að upplýsingum. Þannig á t.d. hver og einn einstaklingur að geta valið búsetuhætti sína sjálfur, enda er grundvallaratriði að geta haft áhrif á hvar og hvernig maður býr.
    Allir hafa þörf fyrir að hafa hlutverk. Það er afar mikilvægt að fatlað fólk fái tækifæri til að stunda vinnu í samræmi við eigin óskir og þarfir. Þá er mikilvægt að tryggja að réttur fatlaðra á vinnumarkaði sé sambærilegur við það sem almennt gerist.
    Mikilvægt er að tryggja faglega þekkingu og gæði í þjónustu við fatlaða. Einn liður í því að geta veitt góða þjónustu er að skapa góðar aðstæður fyrir fagmenntað starfsfólk þar sem samþætting, samvinna og þverfagleg sérfræðiþekking er í fyrirrúmi. Ef metnaðarfull áform í þessum málaflokki eiga að geta gengið eftir er grundvallarskilyrði að hlúa betur að starfsmönnum sem starfa í þjónustu fyrir fatlaða. Til þess að halda í gott starfsfólk verður að borga góð laun en því miður er langt í frá að svo sé í þjónustu við fatlaða hér á landi. Svo dæmi sé tekið er allt að 40–50% starfsmannavelta á ári á einstaka svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra. Slíkt ástand er algjörlega óviðunandi og skerðir alla möguleika á því að tryggja að framsæknar hugmyndir í þessum efnum nái fram að ganga í íslensku samfélagi. Ef kjör starfsfólks sem vinnur að málefnum fatlaðra eru ekki bætt til muna er íslenskt samfélag dæmt til að vera eftirbátur annarra þjóða sem við berum okkur saman við í málaflokki sem þessum, er snertir mannréttindi og jafnræði.
    Ákvæði um réttindi fatlaðra er að finna í fjölþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að. Á ráðstefnunni sem vísað er til hér í upphafi var 30. mars 2007 sýnt myndband frá undirritun Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Samningurinn felur í sér raunsannar réttarbætur og skýrir réttarstöðu fatlaðra og stöðu þeirra sem jafningja á við aðra samfélagsþegna, enda var hann unninn í nánu samráði við fatlaða og hagsmunasamtök þeirra. Samningurinn grundvallast á virðingu fyrir persónufrelsi einstaklingsins, jafnrétti kynjanna, banni við mismunun og óskoruðum rétti allra til þátttöku, aðgengi og virðingar. Einnig er m.a. kveðið skýrt á um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, aðgengi og þátttöku fatlaðs fólks að samfélaginu, rétt til menntunar og atvinnu sem og heilbrigðis- og félagsþjónustu.
    Þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Þór Sigðurðsson, lagði þann 7. nóvember sl. fram fyrirspurn til félagsmálaráðherra um það hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að Alþingi lögfesti sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Fram kemur í svari ráðherra að málið sé í undirbúningi og að hún stefni að því að Ísland verði meðal 20 fyrstu þjóða til að fullgilda samninginn. Flutningsmenn þessarar tillögu taka undir þau orð ráðherra og vonast þeir til að fullgildingin geti átt sér stað þannig að áhrif hans verði raunveruleg. Á árinu 2008 er löngu tímabært að veita einstaklingum með fötlun sömu réttindi og stöðu sem aðrir þegnar þjóðfélagsins telja sjálfsögð. Í þeim efnum er ekki eftir neinu að bíða. Hér er því skorað á ríkisstjórn Íslands að hraða vinnu við fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og hefjast nú þegar handa við að hrinda í framkvæmd þeim framfarasinnuðu markmiðum, sýn og stefnumótun sem þegar liggur fyrir innan félagsmálaráðuneytisins frá fyrri árum, eins og skýrslan sem hér er vitnað til ber vitni um.