Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 563. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 926  —  563. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um dragnótaveiðar.

     1.      Hvaða takmarkanir sem varða dragnótaveiðar hafa verið settar síðustu fimm ár á stærðir báta, aflvísi, stærð veiðarfæris eða gerð þess, annan útbúnað, dragnótagerð eða þunga fótreipis og leyfilega lengd dragtóga? Óskað er eftir að svarið verði sundurliðað eftir eftirfarandi svæðum sem skilgreind eru í reglugerð um dragnótaveiðar:
                  a.      Suður- og Norðurland,
                  b.      Breiðafjörður og Vestfirðir,
                  c.      Norðurland,
                  d.      Norðausturland og Austfirðir.

    Samkvæmt 5. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, eru dragnótaveiðar heimilar bátum þar sem þeim er heimilt að stunda veiðar með botnvörpu. Síðan segir í 6. gr. sömu laga að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. sé heimilt að leyfa veiðar með dragnót nær landi samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu en aðeins skipum styttri en 42 m, enda séu þau með aflvísi sem er lægri en 2.500. Síðan er í lagagreininni nokkuð víðtæk heimild til setningar nánari reglna í reglugerð og leyfisbréfum. Í reglugerð og leyfisbréfum hafa síðan verið settar nánari reglur um stærðarmörk þeirra báta sem heimilt er að stunda dragnótaveiðar á fjörðum inni, t.d. er aðeins heimilt að veita bátum leyfi sem eru styttri en 22 m að mestu lengd í Faxaflóa tímabundið og á Austfjörðum. Enn fremur eru aðeins bátum styttri en 20 m heimilar tímabundnar veiðar innan fjarða á sunnanverðum Vestfjörðum. Ekki hafa verið settar sérstakar reglur um stærð dragnótar, þunga fótreipis eða lengd dragnótatóga. Hins vegar er að finna í reglugerð um dragnótaveiðar ákvæði um lágmarksmöskvastærðir, gerð og frágang á legggluggum sé áskilin notkun þeirra í leyfisbréfum. Óheimilt er að nota steinastiklur (rockhoppara) í Faxaflóa.

     2.      Hvaða aðgerðir eða breytingar varðandi dragnótaveiðar síðustu fimm ár hafa falið í sér tímabundna lokun til að vernda hrygningarsvæði
                  a.      þorsks,
                  b.      annarra botnfiska,
                  c.      loðnu, síldar eða sandsílis?

    Almennar reglur um friðun hrygningarfisks gilda jafnt um notkun dragnótar sem annarra veiðarfæra. Aðeins ein sértæk aðgerð hefur verið gerð á undanförnum árum umfram almennu friðunina, stækkað hefur verið hrygningarsvæðið á Húnafirði og friðunartíminn lengdur í einn mánuð. Þessi aðgerð var að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar þar sem talið er að þorskhrygning fari fram á ákveðnum blettum í firðinum.

     3.      Hvaða tillögur hafa ráðherra borist um friðunarsvæði innan flóa og fjarða fyrir veiðum með dragnót? Hefur ráðherra fengið áskorunarlista íbúa vegna aðgerða eða tilhögunar veiða með dragnót í einstökum flóum eða fjörðum og ef svo er, hvernig hefur verið brugðist við?
    Alltaf eru skiptar skoðanir á því hvar megi stunda dragnótaveiðar og hvar ekki og berast ráðuneytinu oft óskir um að rýmka dragnótaheimildir annars vegar og hins vegar að takmarka þær. Oft er reynt að leysa þessi mál með því að fara bil beggja eða heimila breytingar eða synja. Nú liggja fyrir óskir og undirskriftalistar frá fólki við Skagafjörð, með stuðningi sveitarstjórnar, þess efnis að dragnótaveiðar verði bannaðar á stórum hluta Skagafjarðar. Beiðni þessi er studd þeim rökum að veiðarfærið fari illa með botnlíf og botngróður. Einnig liggur fyrir tilsvarandi ósk frá Seyðisfirði. Þar sem hér er um að ræða líffræðilegar röksemdir sem færðar hafa verið fram hefur ráðuneytið falið Hafrannsóknastofnuninni að rannsaka áhrif dragnótaveiða á sjávarbotninn og lífríkið við sjávarbotninn. Að þeirri rannsókn lokinni, sem væntanlega verður á þessu ári, og þegar niðurstöður liggja fyrir mun ráðuneytið taka afstöðu til framangreindra erinda.