Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 597. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1029  —  597. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um framkvæmd Dyflinnarsamningsins á Íslandi.

    Ráðuneytið fór þess á leit við Útlendingastofnun að hún tæki saman svör við 1.–4. spurningu. Eftirfarandi eru svör stofnunarinnar auk svara ráðuneytisins við 5. og 6. spurningu:

     1.      Hvað voru margir hælisleitendur á Íslandi frá þriðja ríki sendir til aðildarríkis árin 2003–2007 samkvæmt Dyflinnarsamningnum frá 2001 og viðkomandi EB-reglugerðum frá 2003, í heild og á hverju ári?
    Samtals voru 73 hælisleitendur frá þriðja ríki sendir til aðildarríkis Dyflinnarsamningsins á árunum 2003–2007. Þeir voru 18 talsins árið 2003, 8 árið 2004, 21 árið 2005, 10 árið 2006 og 16 árið 2007.

     2.      Á móti hversu mörgum hælisleitendum frá þriðja ríki tóku íslensk yfirvöld á grundvelli samningsins og reglugerðanna árin 2003–2007, í heild og á hverju ári?

    Íslensk yfirvöld tóku við 3–5 hælisleitendum frá aðildarríkjum Dyflinnarsamningsins á árunum 2003–2007 en mjög fáar slíkar beiðnir berast á ári hverju. Ekki er þó hægt að segja nákvæmlega til um fjölda þeirra sem tekið hefur verið við sökum breytinga á skráningakerfi stofnunarinnar í hælismálum á tímabilinu sem um ræðir og því eru ekki nákvæmar upplýsingar fyrir hendi. Árið 2005 voru þeir tveir, enginn árið 2006 og einn árið 2007.

     3.      Hversu oft hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að senda hælisleitanda frá þriðja ríki ekki til aðildarríkis þótt líklegt mætti telja að það hefði verið heimilt, í heild og á hverju ári?
    Það hefur ekki komið til þess að Útlendingastofnun hafi ákveðið að senda hælisleitanda frá þriðja ríki ekki til annars aðildarríkis samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni þegar það hefur verið heimilt.

     4.      Hversu langan tíma tekur rannsókn á grundvelli samningsins og reglugerðanna að jafnaði?
    Að jafnaði tekur rannsókn á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir um 2–12 vikur. Þetta getur þó dregist og fer það mjög eftir umfangi hvers máls fyrir sig ásamt því að svarfrestur ríkja um endurviðtöku er mismunandi á grundvelli ákvæða samningsins.

     5.      Telur ráðherra réttlætanlegt að endursenda hælisleitanda frá þriðja ríki til aðildarríkis Dyflinnarsamningsins ef líkur eru til þess að hann verði settur þar í varðhald meðan fjallað er um hælisumsókn hans?
    Í þeim ríkjum sem þátt taka í Dyflinnarsamstarfinu eru ekki samræmdar reglur um það að hvaða marki er unnt að skerða frelsi hælisleitenda. Þau Vestur-Evrópuríki sem eiga aðild að þessu samstarfi þurfa því að treysta hvert á annars réttarkerfi . Ekki hefur verið litið svo á að það komi í veg fyrir að unnt sé að senda hælisleitendur frá einu ríki til annars að til greina geti komið að setja þá þar í varðhald af einhverjum ástæðum á meðan um mál þeirra er fjallað.

     6.      Telur ráðherra réttlætanlegt að endursenda hælisleitanda frá þriðja ríki til aðildarríkis Dyflinnarsamningsins ef líkur eru til þess að ekki verði þar fjallað efnislega um hælisumsókn hans?
    Þeim reglum sem gilda í samstarfinu er ætlað að koma í veg fyrir að þessi staða komi upp. Í framkvæmd hafa komið upp vandkvæði varðandi endursendingar til Grikklands, þar sem þarlendar reglur hafa ekki verið taldar tryggja hælisleitendum efnismeðferð um hælisbeiðni sína eftir að þangað væri komið. Það er stefna ráðuneytisins, eins og annarra norrænna yfirvalda í þessum málaflokki, að senda ekki hælisleitendur til ríkja þar sem ekki er tryggt að fjallað verði efnislega um hælisumsókn þeirra.