Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 501. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1030  —  501. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Bjarna Harðarsonar um skattlagningu á starf björgunarsveita.

     1.      Hverjar voru tekjur ríkissjóðs árið 2007 af beinni og óbeinni skattlagningu á starf björgunarsveita í landinu?
    Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um það hverjar séu árlegar tekjur ríkissjóðs af starfi björgunarsveita í landinu.

     2.      Eru áform um breytingar á því fyrirkomulagi að björgunarsveitir verða að greiða umtalsverðar fjárhæðir í gjöld af eldsneyti þegar farið er í útköll, staðgreiðslu af launum björgunarsveitarmanna þegar þeir sinna launuðum verkefnum í fjáröflunarskyni og virðisaukaskatt af rekstrarkostnaði sínum?
    Víða í lögum er að finna sértækar undanþágur á skattskyldu vegna starfsemi björgunarsveita, svo sem á sviði olíugjalds, vörugjalds, virðisaukaskatts og tekjuskatts, sbr. eftirfarandi:
     *      Ökutæki þau sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita eru undanþegin vörugjaldi. Skilyrði er að fyrir liggi staðfesting landssamtaka björgunarsveita að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita, sbr. m-lið 1. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
     *      Olíufélögum er heimilt að selja eða afhenda dísilolíu án innheimtu olíugjalds til nota á bifreiðar í eigu björgunarsveita, sbr. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Er hér um að ræða svokallaða „litaða“ gjaldfrjálsa olíu.
     *      Bifreiðar í eigu björgunarsveita eru undanþegnar bifreiðagjaldi, sbr. b-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald.
     *      Björgunarsveitir eru undanþegnar greiðslu tekjuskatts, sbr. 4. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
     *      Endurgreiða skal virðisaukaskatt af innflutningi eða kaupum á ökutækjum sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á því að viðkomandi ökutæki verði einungis notað í þágu björgunarsveita, sbr. 8. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
     *      Endurgreiða skal toll af björgunarbúnaði og björgunartækjum liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita um að viðkomandi ökutæki verði einungis notað í þágu björgunarsveita, sbr. 12. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005.
     *      Í 4. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, segir að endurgreiða skuli sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á björgunarstörfum og öryggisgæslu vegna náttúruhamfara og almannavarna.
     *      Dráttur á skipum og björgun skipa, millilandafara, er undanþeginn skattskyldri veltu, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt.
     *      Rekstur björgunarskóla Landsbjargar er undanþeginn virðisaukaskattsskyldu og fellur undir 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra 698/95.
    Af framangreindum undanþágum má leiða að tekjur ríkisins af starfsemi björgunarsveita, í formi skattlagningar, eru takmarkaðar. Ekki eru að svo stöddu uppi áform um að lögfesta frekari undanþágur í skattlagningu björgunarsveita.