Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 534. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Nr. 17/135.

Þskj. 1225  —  534. mál.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2010.


    Alþingi ályktar, sbr. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, að eftirfarandi framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum skuli gilda fyrir árið 2008 og fram til sveitarstjórnarkosninga árið 2010.

1.     Inngangur.
    Félags- og tryggingamálaráðherra og Barnaverndarstofa skulu vinna samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem hér er sett fram með það að markmiði að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Í því augnamiði skal ráðuneytið og Barnaverndarstofa hafa eftirtalin fimm meginmarkmið að leiðarljósi:
     1.      Að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis.
     2.      Að efla barnaverndarstarf á vegum Barnaverndarstofu.
     3.      Að efla þjónustu Barnaverndarstofu.
     4.      Að bæta hæfni, getu og þekkingu starfsfólks Barnaverndarstofu og þeirra sem starfa á vegum stofnunarinnar.
     5.      Að hámarka nýtingu og virðisauka fjármuna sem lagðir eru til stofnunarinnar.

    Áætlunin skiptist niður í eftirfarandi þætti:

2.     Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfi á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
    Til að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins skal unnið að því að tryggja nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins, að unnið sé að þróun löggjafar á sviði barnaverndar og skal félags- og tryggingamálaráðuneytið vinna reglubundið í samstarfi við Barnaverndarstofu að þróun málaflokksins og að því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málefnum barna.

3.     Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfi á vegum Barnaverndarstofu.
    Til að efla barnaverndarstarf skal Barnaverndarstofa vinna að því að greina úrlausnarefni á málefnasviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins og leggja reglubundið fram tillögur til endurbóta við félags- og tryggingamálaráðuneytið og í kjölfarið taka þátt í framkvæmd þeirra.
    Í tengslum við þetta skulu sett starfsmarkmið og skulu verkefni sem unnin eru á grundvelli þeirra m.a. vera eftirfarandi:

Rannsóknarverkefni.
    
Rannsókn á framburði barna sem koma í Barnahús vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi.
    Athugun á líkamlegu ofbeldi gegn börnum á Íslandi.
    Athugun á samstarfi við 112 um móttöku tilkynninga.
    Athugun á fjölda tilkynninga sem leiða til könnunar máls hjá barnaverndarnefndum.
    Athugun á vímuefnaneyslu og greiningum barna á Stuðlum.
    Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd.

Þróunarverkefni.
    Notkun viðurkenndra matslista.
    Gæðastaðlar um vistun barna utan heimilis.
    Eftirlit með vistun barna utan heimilis.
    Skilgreiningar- og flokkunarkerfi í barnavernd.
    Úrræði vegna þungaðra kvenna sem stofna heilsu og lífi ófæddra barna í hættu.
    Viðbragðsteymi vegna dauðsfalla barna.

Erlent samstarf.
    Fyrirhugað er að halda á Íslandi árið 2008 ráðstefnuna „Börn og vanræksla: Þarfir – skyldur – ábyrgð“ sem hluta af norrænu samstarfi um málefni barna.
    Norræn barnaverndarráðstefna í Kaupmannahöfn árið 2009.

Saga barnaverndarstarfs á Íslandi.

4.     Efling þjónustu og verklags.
    Stefnt skal að því að efla þjónustu Barnaverndarstofu þannig að hún verði markvissari, aðgengilegri og skjótari og ávallt í samræmi við þarfir barna og fjölskyldna þeirra á hverjum tíma. Þetta á við um ráðgjöf, fræðslu, eftirlit og rekstur heimila og stofnana á vegum stofnunarinnar. Tryggt skal að jafnræði ríki gagnvart þeim sem stofnunin hefur samskipti við.
    Í tengslum við þetta skulu sett starfsmarkmið og skulu verkefni sem unnin eru á grundvelli þeirra m.a. vera eftirfarandi:

Ný meðferðarúrræði.
    Fjölþáttameðferð.
    Fjölþáttameðferðarfóstur.
    Foreldrafærniþjálfun.
    Meðferð fyrir unga gerendur í kynferðisbrotamálum.

Sérhæft framhaldsnámskeið fyrir fósturforeldra.

Reiðistjórnun.

Árangursmat.
    Mat á árangri meðferðarheimila.
    Mat á árangri Barnahúss.

Skjalastjórnun og tölfræði.
    Handbók um skjalastjórnun og skráningu.
    Endurbætur á tölfræði um barnavernd.

Samþykkt á Alþingi 29. maí 2008.