Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 589. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1240  —  589. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar um hjúkrunarrými.

     1.      Hve mörg hjúkrunarrými eru á hverja þúsund íbúa í þeim sveitarfélögum þar sem íbúar eru 4.000 eða fleiri og hvert er landsmeðaltalið?
    Fimmtán sveitarfélög ná þessari stærð og af þeim eru sex á höfuðborgarsvæðinu.
    Í Reykjavík eru um 1.076 hjúkrunarrými og dreifast þau á 10 stofnanir. Framboð rýma á hverja 1.000 íbúa í Reykjavík er 9,1 rými en þess ber að geta að Seltjarnarnes og Mosfellsbær, sem hvorugt hefur hjúkrunarheimili, hafa m.a. notið þjónustu frá stofnunum í Reykjavík. Ef tillit er tekið til þessa eru 8,2 rými á hverja 1.000 íbúa í þessum þremur sveitarfélögum.
    Í Kópavogi eru 2,9 rými á hverja 1.000 íbúa, í Garðabæ eru rýmin 9,1 og í Hafnarfirði eru þau 8,9. Fyrir höfuðborgarsvæðið allt eru 7,6 rými á hverja 1.000 íbúa.
    Hjúkrunarrými í Reykjanesbæ eru 24, eða 1,8 rými á hverja 1.000 íbúa og það er lægsta hlutfallið í þessum sveitarfélögum, að frátöldum Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi sem ekki hafa hjúkrunarrými eins og áður kom fram.
    Á Akranesi eru 11,7 hjúkrunarrými á hverja 1.000 íbúa, á Ísafirði 7,8 rými og á Sauðárkróki 14,2 en það er hæsta hlutfall rýma hjá þessum sveitarfélögum.
    Á Akureyri eru í boði 197 hjúkrunarrými en það þýðir að um 11,4 rými eru á hverja 1.000 íbúa. Á Fljótdalshéraði eru þau 4,4 og í Fjarðabyggð 7,8.
    Í Sveitarfélaginu Árborg eru nú í boði 71 hjúkrunarrými og fjölgaði þeim um 10 á síðasta ári. Hjúkrunarrými á hverja 1.000 íbúa í Árborg eru 9,9 að tölu og í Vestmannaeyjum eru 11,6 rými á hverja 1.000 íbúa.
    Í fyrrgreindum sveitarfélögum eru samtals 2.015 hjúkrunarrými sem eru rúm 78% af öllum hjúkrunarrýmum á landinu og eru 7,8 rými á hverja 1.000 íbúa.
    Á landsvísu eru hjúkrunarrými 2.566 sem þýðir að hjúkrunarrými á hverja 1.000 íbúa eru 8,2 talsins.

     2.      Hve margir á biðlista eftir hjúkrunarrýmum eru annars vegar í brýnni þörf og hins vegar í mjög brýnni þörf, skipt eftir kjördæmum og eftir sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu?

    Á höfuðborgarsvæðinu eru samtals 367 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými. Af þeim eru 236 á biðlista í Reykjavík en 93 þeirra eru í brýnni þörf og 126 í mjög brýnni þörf.
    Hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er skiptingin eftirfarandi:
    Í Kópavogi eru 53 á biðlista, þar af eru 25 í brýnni þörf og í mjög brýnni þörf 26.
    Í Hafnarfirði er 41 á biðlista, þar af eru 15 í brýnni þörf og í mjög brýnni þörf 25.
    Í Garðabæ eru 15 á biðlista, þar af 8 í brýnni þörf og í mjög brýnni þörf 4.
    Í Mosfellsbæ eru 7 á biðlista, þar af 2 í brýnni þörf og aðrir 2 í mjög brýnni þörf.
    Á Seltjarnarnesi eru 9 á biðlista, þar af í brýnni þörf 7 og einn í mjög brýnni þörf.
    Til viðbótar eru hjá Vistunarmatsnefnd höfuðborgarsvæðis 15 einstaklingar á biðlista, af þeim eru 4 í brýnni þörf en 10 í mjög brýnni þörf.
    Í Suðurkjördæmi eru 91 einstaklingur á biðlista eftir hjúkrunarrými, þar af eru 28 í brýnni þörf og 55 í mjög brýnni þörf.
    Í Norðvesturkjördæmi eru 34 einstaklingar á biðlista, þar af eru 16 í brýnni þörf og 16 í mjög brýnni þörf.
    Í Norðausturkjördæmi eru 47 einstaklingar á biðlista, þar af eru 16 í brýnni þörf og 22 í mjög brýnni þörf.
    Á landinu öllu eru 548 einstaklingar á biðlista eftir vistun á hjúkrunarheimili. Samkvæmt vistunarnefndum eru um 214 einstaklingar í brýnni þörf og þeir sem taldir eru í mjög brýnni þörf á landinu öllu eru um 288 talsins.
    Einnig má benda á að í nýjustu skýrslu OECD um Ísland er bent á að hérlendis séu rými í langtímavistun á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum 69 á hverja 1.000 íbúa 65 ára og eldri, sem er með því mesta sem gerist innan OECD. Einnig er þar fjallað um kostnaðarþróun innan hjúkrunarheimilavistunar og fleira.