Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 608. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1243  —  608. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um afgreiðslu tóbaks.

1.    Telur ráðherra að framfylgt sé banni við sölu og afhendingu á tóbaki til yngri en 18 ára og eins því að þeim einum sem náð hafa 18 ára aldri sé heimilt að selja tóbak?
    Dæmi eru um að haft hafi verið samband við Lýðheilsustöð til að benda á að ungmennum sé selt tóbak í verslunum víðs vegar um landið. Sömuleiðis er kvartað yfir að í mörgum verslunum afgreiði unglingar tóbak. Svo virðist því vera að lögunum sé ekki fylgt eftir sem skyldi þótt einnig sé vitað að heilbrigðisnefndir geri athugasemdir við framkvæmd tóbakssölu.

2.    Telur ráðherra að farið sé eftir ákvæðum laga um að bann þetta skuli auglýsa með áberandi hætti?
    
Í tilefni af Degi án tóbaks, 31. maí 2006 sendi Lýðheilsustöð öllum tóbakssöluleyfishöfum bréf þar sem þeir voru minntir á ábyrgðina sem tóbakssöluleyfinu fylgir. Þar var áréttað að sumarið sé sá árstími sem ungmenni byrja oftast að reykja og flestir sem reykja hafa byrjað fyrir 18 ára aldur.
    Í bréfinu var áréttað mikilvægi þess að kynna lögin ávallt fyrir nýju starfsfólki og gæta þess að starfsmaður undir 18 ára aldri sé aldrei einn við afgreiðslu eða á búðarkassa þar sem selt er tóbak svo ekki sé ýtt undir þann möguleika að hann telji sig neyddan til að brjóta lögin.
    Útbúnar voru sérstakar merkingar sem tóbaksöluleyfishafar gátu lagað að verslun sinni þar sem fram kom á skýran hátt hvernig lögin eru og að viðkomandi verslun fari eftir þeim.
    Auk framangreinds var unnið sérstaklega með verslunarkeðjunum að því að útbúa merkingar þar sem fram kemur að viðkomandi verslanir sýni ábyrgð á þessu sviði.
    Þessu átaki var mjög vel tekið af tóbakssöluleyfishöfum og þá sérstaklega verslunarkeðjunum.
    Í tilefni af Degi án tóbaks í ár, 31. maí nk., hefur verið ákveðið að endurtaka þessa vinnu.
    Eftirlitsaðili með að tóbakvarnarlögum sé fylgt að þessu leyti eru heilbrigðisnefndir á hverjum stað.

3.    Er reglulega staðið að könnunum á þessu sviði? Ef svo er, hverjir gera þær?
    
Það hefur ekki verið staðið reglulega að könnunum á þessu sviði. Ein ástæða er sú er að erfitt er að framkvæma kannanir sem gerðar er þannig að einstaklingar undir lögaldri eru gerðir út af örkinni til að kaupa tóbak.
    Þetta skapar vandamál jafnvel þó að augljóst sé að það sé gert með þeim ásetningi að láta reyna á hvort þeir gætu fengið afgreiðslu án þess að hafa aldur til. Hér má sem dæmi nefna að Reykjavíkurborg stóð fyrir könnun af þessu tagi fyrir nokkrum árum en lenti í ógöngum vegna þessa atriðis.
    Hafnarfjarðarbær hefur í mörg ár staðið fyrir slíkum könnunum, en þær eru nú einungis framkvæmdar á þeim sölustöðum þar sem söluaðilar hafa samþykkt að þær fari fram. Niðurstöður úr síðustu könnun Hafnarfjarðarbæjar sem framkvæmd var nú nýlega bendir því miður til þess að töluvert sé um að börnum og unglingum sé selt tóbak.

4.    Hvernig er tryggt að niðurstöðurnar berist Lýðheilsustöð?
    
Þar sem kannanir eru ekki gerðar reglulega vegna vandamála við framkvæmd þeirra berast Lýðheilsustöð færri niðurstöður en æskilegt væri. Ekki er tryggt að niðurstöður, séu þær fyrir hendi, berist Lýðheilsustöð.

5.    Gerir Lýðheilsustöð sjálfstæðar kannanir á sölustöðum tóbaks með tilliti til sýnileika vörunnar, merkinga, aldurs starfsfólks sem afgreiðir tóbak og afgreiðslu tóbaks til yngri en 18 ára?
    Eftirlit með að þessum lögum sé framfylgt er á hendi heilbrigðisnefnda á hverjum stað.
    Lýðheilsustöð hefur haft til athugunar hvernig megi standa fyrir slíkum könnunum á landsvísu, en það þyrfti að gera þannig að ekki væri álitamál hvort þær væru gerðar með löglegum hætti.
    Sýnileikabanninu hefur hins vegar verið vel framfylgt um allt land og fáar athugasemdir borist vegna þess. Bannið hefur vakið athygli víða og hefur Lýðheilsustöð veitt þó nokkrum erlendum aðilum upplýsingar vegna þess.