Tekjuskattur

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 14:47:50 (7525)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[14:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í mótmælunum í haust var töluvert mikið rætt um sjálfstæði Alþingis, hvernig það gæti staðið gegn ofurvaldi framkvæmdarvaldsins, sem menn nefndu svo, og hluti af því er einmitt hvernig nefndir þingsins starfa. Ég get ekki tekið undir það með hv. þm. Jóni Magnússyni að nefndir eigi ekki að breyta frumvörpum. Hv. efnahags- og skattanefnd hefur að mínu mati unnið mjög gott starf í því að benda á agnúa á frumvarpinu sem fyrir lá og fjallaði aðallega um lönd sem tvísköttunarsamningur hefur ekki verið gerður við en gætu verið möguleg lánsuppspretta fyrir landið — ég nefni Taívan, Japan, arabaríki, og gerði það í 2. umr. líka.

Mér finnst það góðs viti að nefndir þingsins taki sig til og geri frumvörpin skynsamlegri og það er einmitt verið að gera hér. Rætt var um að setja ákvæði inn með seinni gildistöku, en menn tóku þeim rökum að erlendir lánveitendur mundu líta á gild lög á Íslandi. Ef það stæði þar að þetta ákvæði ætti að taka gildi eftir eitt eða tvö ár, og lánssamningar eru yfirleitt til miklu lengri tíma, mundu þeir reikna með því að þetta væru lög sem væru í gildi. Mér finnst þetta vera jákvæð þróun og mér finnst að hv. efnahags- og skattanefnd eigi strax á nýju þingi eftir kosningar, hver sem henni stýrir, að taka sig til og vinna þetta mál sjálf. Það er hlutverk Alþingis að setja lög og ég vil að nefndir þingsins eigi miklu meira frumkvæði í því að semja og ritstýra lögum en verið hefur hingað til, ég vona að í breytingum frá hv. nefnd sé einmitt slíkt frumkvæði sýnt.