Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:36:55 (2151)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hreyfir hér máli sem ég tel að skipti okkur öll miklu, m.a. af þeim ástæðum sem hv. þingmaður rakti í málflutningi sínum, að það var fordæmislaus árás á íslenska hagsmuni þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn okkur. Utanríkismálanefnd hefur fylgst með framgangi málsins í störfum sínum og kallað eftir upplýsingum um það hvernig líði mögulegri málsókn íslenskra stjórnvalda eða eftir atvikum nýju ríkisbankanna vegna þessa.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem mér hafa borist ríkir ákveðin réttaróvissa um málið, m.a. um það hvort hentugast sé, eins og hv. þingmaður lagði til, að láta viðkomandi banka sjálfa annast málareksturinn, og þá með stuðningi stjórnvalda, eða hvort íslensk stjórnvöld eigi með einhverjum hætti beina aðild að málsókninni. Í öllu falli er ljóst að stjórnvöld gera sér grein fyrir þeim mikilvægu tímamörkum sem vísað var til og þau eru þess vegna höfð með í heildarmyndinni. Stjórnvöld eru meðvituð um þennan tímafrest og utanríkismálanefnd hefur lagt áherslu á að ýtrustu hagsmuna verði gætt vegna málsins í heild sinni.