Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 22:09:22 (2599)


136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:09]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hálfgerða samúð með hæstv. fjármálaráðherra að þurfa að flytja þetta mál enda var greinilegt að hann vildi ljúka ræðunni sem fyrst [Hlátur í þingsal.] og ég lái honum það ekki.

Það sem ég vildi taka upp í andsvari er að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að færa lífeyrisréttindi alþingismanna frá því sem þau eru að því sem er í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og þeim reglum sem þar gilda. Í fyrsta lagi er alþingismönnum gert skylt að greiða áfram iðgjald af launum sínum þrátt fyrir að engin réttindaávinnsla verði við það, það er í samræmi við A-deild Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í öðru lagi er árleg réttindaávinnsla miðuð við 1,9% sem er í A-deild LSR. 2.375% kemur til vegna þess að alþingismenn greiða 5% af launum sínum í iðgjald en aðrir 4%.

Þess vegna skýtur skökku við, virðulegi forseti, að ekki skuli þá gilda sömu ákvæði og varðandi þá sem greiða í A-deild LSR og fá lífeyri sinn greiddan þaðan. En lagaákvæðin um þann sjóð eru þannig að þeir sem fá lífeyri þaðan geta aflað sér tekna með öðru starfi. Þær launatekjur skerða ekki lífeyrisgreiðslur sjóðsins. Ef þingmenn eiga að vera á sömu kjörum og í A-deild LSR, af hverju á það ekki að vera að öllu leyti? Ég minni á að meðalstarfstími alþingismanna er 11 ár og það mætti því ætla að lífeyrisgreiðslur til þeirra að venjulegum starfstíma loknum væru um 146 þús. kr. á mánuði. Hvers vegna á að skerða þær greiðslur þó að þeir alþingismenn hafi síðar, eftir að þeir hafa látið af störfum, einhverjar tekjur hvort sem það er hjá ríkinu eða öðrum (Forseti hringir.) en þeir sem hafa unnið annars staðar og eru með réttindi úr sama sjóði geta haldið réttindum sínum þó að þeir hafi launatekjur?