Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 22:15:35 (2603)


136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær stórfenglegu leikfimiæfingar sem við urðum vitni að áðan þar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er búinn að finna það út að þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn verða samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar fluttir í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Svo er ekki. Þessi hópur, ráðherrar, alþingismenn og æðstu embættismenn sem svo eru nefndir eru ekki í þessum deildum lífeyrissjóðsins. Um þá gilda sérlög og lífeyrisréttindi þeirra grundvallast ekki á sjálfbærri sjóðsmyndun heldur réttindum sem myndast samkvæmt lögum. Síðan er hitt allt annar handleggur, hvort einhver viðmið sem styðjast við reglur í lífeyrissjóðum kunna að koma til álita.

Það sem við erum að fjalla um núna eru lífeyrisréttindi sem mörgum, og þar á meðal mér, finnast ekki rétt en þau eru á þá lund að ráðherrahluti launa vinnur viðkomandi einstaklingi 6% á ári, þingmannshlutinn 3%. Sambærileg réttindaávinnsla í gömlu deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, B-deildinni sem svo er nefnd, er 2% og í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins 1,9%. Í öðrum lífeyrissjóðum er þessi ávinnsla minni eða á bilinu 1,4–1,6% nú um stundir.

Það sem ég vildi vekja athygli á í ræðu minni er hinn pólitíski þráður í þessari umræðu en hann hefur ákaft verið spunninn frá því í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og fram á þennan dag, en Samfylkingin hét kjósendum sínum því að afnema, eins og kallað var, lífeyrislögin, sérréttindalögin sem sett voru 2003. Um það var síðan gerð samþykkt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hvað þar héngi á spýtu var hins vegar alltaf hulið. Mánuðum saman hefur verið talað um að samningaviðræður standi yfir milli stjórnarflokkanna og menn hafa reynt að kalla þar að fulltrúa allra flokka á þingi þótt staðreyndin sé sú að stjórnarmeirihlutinn, ríkisstjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um að verða ásáttir um niðurstöðu í málinu. Hún liggur núna fyrir í þessu frumvarpi sem engan veginn gengur alla leið, enn er verið að festa í lög sérréttindi fyrir þann hóp sem heyrir undir lögin í stað þess að nema þau alveg brott og færa alla spyrðuna undir lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þannig að alþingismenn, ráðherrar og viðkomandi embættismenn njóti sambærilegra kjara og starfsmenn ríkisins gera almennt.

Í þessari umræðu hefur verið athyglisvert að heyra málflutning ýmissa talsmanna Sjálfstæðisflokksins og ég vísa þar t.d. í málflutning hv. þm. Péturs H. Blöndals og á stundum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar sem segja eða láta í veðri vaka að ef ráðist verði í þessar breytingar vilji þeir að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna almennt verði numin brott. Þá er vísað til þess að þeir búi við ríkari réttindi en gerist almennt á launamarkaði. Það er alveg rétt en engu að síður erum við að tala um réttindi stórra stétta, starfsmanna ríkisins, starfsmanna sveitarfélaganna, og það gleðilega hefur verið að gerast á undanförnum árum að lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði hafa verið að aukast og batna og þá að hluta til vegna viðmiðunar í lífeyrisréttindi eins og þau gerast hjá ríki og sveitarfélögum. Þetta hefur því þegar á heildina er litið verið mjög til góðs og um þetta er bærileg sátt innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar er hugsunin sú að jafna kjörin upp á við. Enginn lætur sér til hugar koma að það merki að koma eigi á sambærilegum sérréttindakjörum og þessi fámenni hópur hefur skapað sjálfum sér.

Töf ríkisstjórnarinnar á því að koma þessum loforðum sínum í framkvæmd hefur fært þeim svolítinn ávinning vegna þess að umframréttindin sem ráðherrar búa við skapa þeim á ári hverju 23.610 kr., það er nú pínulítil launahækkun, þau hafa alla vega komið í veg fyrir að lífeyriskjör þeirra rýrni um þessa upphæð á ári hverju með því að bíða. Nú ætla þau að bíða fram í júlí á næsta ári og þá eru þau komin í tæpar 50 þús. kr. á mánuði hverjum í eigin vasa. Þetta er það sem hefst upp úr krafsinu fyrir það að standa gegn kröfum um að ráðist verði í jöfnuð.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna. Ég hef marglýst því yfir að þegar frumvarp ríkisstjórnarinnar komi fram og gangi það ekki alla leið og færi lífeyrisréttindi þessara aðila til samræmis við það sem almennt gerist hjá starfsmönnum ríkisins muni ég ásamt helst sem allra flestum standa fyrir breytingartillögum í þá veru og óska síðan eftir því að þingið, hver og einn, geri grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Það verður gert þegar þetta frumvarp kemur til afgreiðslu. Ég vek athygli á því að það er annað frumvarp í þinginu sem bíður þess að komast í þingsalinn og það væri eðlilegra að fá það hingað inn fyrst, taka það fyrst til afgreiðslu, það gengur lengra. Hvað um það, hver sem niðurstaðan verður í því efni mun ég standa þannig að málum. Ég hef sagt að hægt sé að afgreiða þetta mál á skömmum tíma. Ég fyrir mitt leyti mun beita mér fyrir því að svo verði gert, m.a. með því að stytta nú mál mitt.