Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 22:27:31 (2606)


136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:27]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, 1,9% réttindaávinnsla fyrir 4% iðgjald þýðir 2,375% fyrir 5% iðgjald. Það er það sem þingmenn borga og hafa gert síðan 2003. Þetta er því nákvæmlega það sama. Kjarni málsins er sá að frumvarpið byggist upp á A-deildarréttindum, ekki B-deildarréttindum, og þá segi ég: Þá skulum við hafa A-deildarréttindin báðum megin, ekki bara skyldumegin heldur líka réttindamegin.

Ég spurði hv. þingmann vegna þess að hann er búinn að vera jafnframt því að vera alþingismaður lengi í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og varaformaður stundum og ég veit ekki nema hann hafi verið formaður líka og er enn í stjórninni. Það er nefnilega þannig að hjá þeim sem byrja að taka út lífeyri og eru í A-deildinni skerðist lífeyririnn ef þeir taka hann út fyrir 65 ára aldur, ef þeir flýta töku lífeyris, en hann skerðist ekki vegna launatekna. Ég vil ítreka það, virðulegur forseti, að hv. þingmaður svari því skýrt hvort það sé ekki rétt hjá mér að lífeyrir úr A-deild skerðist ekki vegna launatekna, hvort sem þær launatekjur eru af sama starfi, öðru starfi hjá ríkinu eða öðru starfi utan ríkisins.