Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 12:16:42 (2799)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Athyglisvert var að fylgjast með ræðu varaformanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, um skrefið sem nú væri verið að stíga, þessa miklu baráttu sem háð hefði verið og áfangasigurinn sem nú væri að komast í höfn. Við hvern er verið að berjast? Er formaður Samfylkingarinnar að berjast við formann Sjálfstæðisflokksins? Það eru einkum þau sem hafa verið að véla um þetta. Hafa þau verið að takast á um málið? Ég óska eftir því að hv. þingmaður skýri þetta nánar fyrir okkur.

Ég vísa síðan í umsögn um 3. og 6. gr. frumvarpsins sem hv. þingmaður vísar til, að verði frumvarpið að lögum verði réttindaávinnsla alþingismanna og ráðherra í hlutfallslegu samræmi við réttindaávinnslu sjóðfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að teknu tilliti til hærri iðgjalda. Þetta held ég að sé alrangt. Ég held að það gleymist að taka tillit til margvíslegra réttinda sem ég rakti í ræðu minni. Ég vísa þar í makabótaréttinn, ég vísa þar í mismun á skerðingu fyrir 65 ára aldur (Forseti hringir.) og hvernig haldið er á málum eftir að þeim (Forseti hringir.) aldri er náð. Þetta eru mjög verðmæt réttindi.