Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:00:39 (2828)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi verið alveg skýrt að ég var að tala um að enginn þingmaður nema þeir þingmenn sem ég tilgreindi hér hafi flutt frumvarp um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra eftir 2003 til að sýna fram á með hvaða hætti þeir vildu haga málum eftir 2003. Ég fór ekki aftur til ársins 1995 og dreg ekki í efa að þingmaðurinn hefur flutt ýmis mál sem tengjast þessu án þess að ég hafi nokkra yfirsýn yfir það í sjálfu sér. En eftir 2003 er mér ekki kunnugt um að aðrir en þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem ég tiltók hafi flutt frumvörp til að sýna fram á með hvaða hætti mætti haga þessum hlutum og koma þeim til betri vegar fyrr en þá núna á síðustu metrunum þegar mönnum var ljóst í hvað stefndi.

Hvað varðar breytingartillögu þingmannsins þá verð ég að gera þá játningu að ég hef kannski ekki skoðað það alveg nógu vel til að geta tjáð mig um það hér í pontunni en ég hefði haldið að það væri til bóta að sömu reglur giltu um alla þingmenn þegar kæmi að lífeyriskjörum. Niðurstaða mín í þessu máli er að sjálfsögðu sú sem er í frumvarpinu sem flutt er af fjármálaráðherra.