Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:03:09 (2830)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:03]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að þetta mál hafi verið gott og vel til fallið til að halda uppi pólitískri ósamstöðu um það. Ég held að Samfylkingin hafi einmitt gert það þegar hún lagði fram sérstakt þingmál um málið án þess að reyna að leita um það neins staðar sátta.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur einnig sagt að allir geti komið með frumvörp inn í þingið. Það þarf varla að upplýsa það sérstaklega að við getum það en við búum hins vegar við það, þingmenn stjórnarandstöðunnar, undir 43 manna þingmeirihluta að koma nánast ekki einu einasta máli í gegn hvað sem við leggjum til. Meira að segja þótt lagt sé til að menn fresti málinu og taki upp skynsamleg vinnubrögð við að klára það, taki sér tíma í það, þá eru menn ekki heldur til í það. Það skal bara vaðið áfram og búnar til alls konar lausnir sem við eigum síðan eftir að reka okkur á að hafa ekki verið unnar til enda.

Í því frumvarpi sem meiri hlutinn flytur eru vissulega ákvæði sem ég get tekið undir. Ég get tekið undir aldursmarkið 60 ár í staðinn fyrir 55 og það má hugsanlega taka undir þá reiknireglu sem hér er byggt á. Það má líka taka undir sérákvæði er varða eftirlaunakjör forsætisráðherra. En ég bendi einfaldlega á, hæstv. forseti, að það er nauðsynlegt að vanda þessa umræðu, það eru nokkur atriði, m.a. í þessu frumvarpi og öllum öðrum tillögum sem hér hafa komið fram, sem þarf að kanna miklu betur hvaða afleiðingar hafa. Ég bendi á lögin um kjararáð í því sambandi og hvaða afleiðingar það mun hafa í framtíðinni sem við gerum hér að því er kjararáð varðar og þar með kostnað ríkissjóðs vegna eftirlauna allra sem komnir eru á eftirlaun samkvæmt þessu kerfi.